138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Hér hafa þingmenn stjórnarliða komið upp og kastað púðursprengjum á aðra stjórnmálaflokka en enginn þeirra hefur fjallað efnislega um þá breytingu sem hér er verið að gera. Hér er nefnilega verið að fella úr gildi fyrirvara þar sem stóð í fyrri lögum að ríkisábyrgðin mundi gilda til 5. júní 2024. Jafnvel þó að ég hefði viljað festa þann fyrirvara enn fastar í sessi á sínum tíma var þarna vörn fyrir komandi kynslóðir. Þarna var vörn fyrir börnin okkar sem munu nú þurfa að greiða vexti af Icesave í hinu sjö ára skjóli, 100 milljónir á dag. Þau munu halda áfram að borga þangað til greiðslum lýkur í óskilgreindri framtíð. Það er það sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, sem ber hvað mesta (Forseti hringir.) ábyrgð á þessu máli, er að gera þegar þingmenn segja já við þessu ákvæði. Ég segi nei.