138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Vissulega er það rétt að Alþingi samþykkti í desember í fyrra þingsályktun um að reyna að leita samninga um þetta mál. Hins vegar fólst ekki í því umboð til ríkisstjórnar, hver sem hún væri, til að semja um hvað sem er. Sú leið sem ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar leggur fram er óásættanleg fyrir íslenska þjóð og það hefur ekki verið útskýrt í hinni löngu umræðu af hálfu stjórnarliða í þessu máli hvers vegna hv. þingmenn stjórnarliðsins hafa turnast frá þeirri afstöðu sem fram kom í sumar með vilja Alþingis þegar fyrirvararnir voru smíðaðir af hugrökkum þingmönnum. Ég skora enn og aftur á þá að leita annarra leiða í þessu máli. Ég hef fulla trú á því, frú forseti, að við getum staðið saman um það. Þjóðin þarf á því að halda að við reynum að standa saman og það hefur því miður ekki tekist hjá hæstv. ríkisstjórn að halda þannig á spilunum þar sem hún henti út fyrirvörunum og þeirri miklu vinnu sem þingið fór í í sumar út um gluggann. Það er ekki boðlegt, frú forseti, (Forseti hringir.) að hér sitji við völd ríkisstjórn sem stjórnast eingöngu af hatri á Sjálfstæðisflokknum. Ég segi nei.