138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:46]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Hér greiðum við atkvæði um nokkuð merkilega grein vegna þess að í henni staðfestir ríkisstjórnin að hún telur sig ekki hafa neina lagalega skuldbindingu til að gangast við kröfunni um ríkisábyrgð. Það er 1. mgr. Í 2. mgr. er fjallað um það að niðurstaða Hæstaréttar Íslands skipti engu máli milli samningsaðila hér ef EFTA-dómstóllinn eða Evrópudómstóllinn eru á annarri skoðun. Þess vegna segi ég fullum fetum: Þegar þessi grein er skoðuð og síðan hitt að þegar samningsumleitanir ríkjanna reyndust ekki skila neinni annarri niðurstöðu en þeirri sem tók tillit til viðmælenda okkar og þegar það var komið upp á að okkur var neitað um að bera málið undir hlutlausan þriðja aðila kristallast það í þessari 2. gr. sem við greiðum hér atkvæði um að við höfum verið þvinguð til niðurstöðu án dóms og laga. Ekkert ríki sætir meiri niðurlægingu en þeirri. Engar siðferðilegar skyldur (Forseti hringir.) geta knúið okkur til að fallast á ábyrgðir án dóms og laga. Ég segi nei.