138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:49]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Hér er sagt að Íslendingar viðurkenni ekki sök sína eða skyldu til að greiða þessa greiðslu og það segir enn fremur að ef það skyldi koma í ljós að við eigum ekki að greiða eigum við að spjalla yfir kaffibolla við viðsemjendur okkar úti í heimi. Þeir munu segja: Þið eruð búin að skrifa undir skuldabréf, elskurnar mínar. Þeir munu segja: Það er allt annað hvort þið eigið að borga en þið eruð búin að skrifa undir skuldabréf og það er ríkisábyrgð á þessu skuldabréfi og þið skuluð borga það.

Allur þrýstingur að samþykkja Icesave-samninginn er farinn af þessu máli. Kúgunin sem var hérna í upphafi er farin, þrýstingurinn frá erlendum ríkjum og ríkjasamsteypum er farinn og núna getum við í rólegheitum frestað málinu, það er ekkert sem ýtir á það og við eigum að fresta málinu þangað til í vor og senda samninganefnd Alþingis til að semja við Breta og Hollendinga um einhverjar umbætur á þessu samkomulagi þannig að íslensk þjóð liggi ekki undir þeirri gífurlegu áhættu sem fylgir þessu samkomulagi. Ég segi nei. (Forseti hringir.)