138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:55]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Þingheimur samþykkti í sumar lög þar sem settir voru bæði lagalegir og efnahagslegir fyrirvarar við þá ríkisábyrgð sem við ræðum hér. Þetta ákvæði sem hér er rætt, 2. gr., tekur tennurnar að vissu leyti úr þeim lagalega fyrirvara sem settur var þá. Jafnframt hafa miklir og málsmetandi lögmenn og lögfræðingar vakið athygli á því að hugsanlega brjóti þetta ákvæði gegn sjálfri stjórnarskránni. Ég skil því ekkert í því að einhverjir hv. þingmenn treysti sér til að styðja þetta ákvæði laganna.

Ég treysti því jafnframt að þeir hafi opinn huga fyrir því að snúa enn og aftur við blaðinu þegar þeir sjá þá umfjöllun sem fram fer í fjárlaganefnd núna á milli umræðna. Ég hef enn þá trú á því að menn geti tekið rökum á þingi. Ég segi nei.