138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F):

Frú forseti. Ég vil flytja ykkur orð brottflutts Íslendings sem býr núna í Noregi, Hrannars Baldurssonar. Á vefsíðu sína skrifar hann, með leyfi forseta:

„Að samþykkja ICESAVE eins og frumvarpið er í dag, er að stökkva fram af himinháum kletti án öryggisnets, vængja, fallhlífar eða gúmmíteygju. Þó að maður stökkvi fram af fjalli geti mótvindur kannski verið nógu mikill til að maður lifi fallið af... RIGHT!

Hvernig er hægt að sannfæra manneskju sem ætlar að taka slíkt stökk um að það sé hættulegt, að hún geti dáið, og ef hún vill ekki hlusta og ásakar viðmælandann einfaldlega um að dramatísera hlutina, hvernig er hægt að sannfæra slíka manneskju og hvað getur maður gert ef hún hefur þúsundir manna í eftirdragi og ætlar að stökkva fyrst og láta alla hina fylgja á eftir, með góðu eða illu?“

Það virðist vera lítil von til þess að sannfæra þessa einstaklinga miðað við niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar hér. Í mínum augum var efnahagslegi fyrirvarinn fallhlífin, öryggisnetið, jafnvel gúmmíteygjan vegna Icesave-skuldbindingarinnar. Með samþykkt þessarar greinar er öryggisnetið klippt í sundur, fallhlífin tætt í sundur og því segi ég nei.