138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:59]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þessi grein er eins og aðrar þær greinar sem hér eru í þessum breytingum á þeim lögum sem nú eru í gildi og við náðum góðri samstöðu um. Ég vek athygli á því, virðulegi forseti, að í sumar náðist góð samstaða í eina skiptið í þessu máli milli nokkurn veginn allra þingmanna um að gæta hagsmuna okkar Íslendinga. Ég hvet hv. þingmenn stjórnarliðsins ef menn ætla í fullri alvöru að reyna að keyra þetta mál í gegn núna á þessum síðustu dögum fyrir jól, þegar við eigum eftir að ganga frá öðrum mikilvægum málum, að hafa í huga að þetta mál verður ekkert aftur tekið. Ef þeir gera það, virðulegi forseti, er enginn vafi í mínum huga (Forseti hringir.) að við afgreiðum ekki málið eins og það er núna. Ég segi nei.