138. löggjafarþing — 41. fundur,  8. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:13]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Þegar fyrirvararnir voru settir í lögin nr. 96/2009, í lok ágústmánaðar börðust þingmenn Framsóknarflokksins fyrir því að sett yrðu inn í lögin ákvæði þar sem kæmi skýrt fram að ef skuldahlutfall þjóðarbúsins færi yfir 240% af vergri þjóðarframleiðslu félli ríkisábyrgðin úr gildi. Stjórnarmeirihlutinn, þingmenn Samfylkingarinnar, fullyrti að það væri nægilegt að setja þetta ákvæði inn í álit meiri hluta nefndar og það mundi gilda sem lög. Ég sagði að það væri rangt, það gæti ekki verið, engum lögfræðingi hvar sem væri í heiminum dytti slík firra í hug. Nú liggur fyrir að Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þeir sem á að leita til í þessari grein, er búinn að lýsa því yfir að skuldastaðan sé 310% — en hvað gerist? Taka menn mark á fyrri orðum og telja ríkisábyrgðina fallna úr gildi? (Forseti hringir.) Nei, það er fullyrt að allt annað sé í gangi og þetta eigi ekki við rök að styðjast. Ég segi nei við þessari grein sem og þessu frumvarpi í heild sinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)