138. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2009.

afgreiðsla nefnda á fjárlagafrumvarpinu.

[19:48]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Okkur í hv. efnahags- og skattanefnd var gert að skila einhvers konar bráðabirgðaáliti til fjárlaganefndar. Ekki gat það verið endanlegt álit þar sem við áttum eftir að taka á móti fjölda gesta. Þeir gestir hafa komið í eftirmiðdaginn í dag og síðan ætlar nefndin að ræða þetta sjálf á mánudagsmorgun. Það liggur því ekkert fyrir og ég vil mótmæla því að komin sé einhver niðurstaða því það verður ekki fyrr en nefndin sjálf ræðir málið. Það getur vel verið að menn fallist á að skattleggja t.d. séreignarsjóðina fremur en að leggja á allar þessar skattaálögur sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu eða tekjuhliðinni. Málið er ekkert útrætt í hv. efnahags- og skattanefnd og verður ekki útrætt þar fyrr en einhvern tímann á mánudaginn. Ég geri miklar athugasemdir við að menn fari svona á skjön við þingsköp Alþingis.