138. löggjafarþing — 42. fundur,  12. des. 2009.

afgreiðsla nefnda á fjárlagafrumvarpinu.

[19:49]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Það hefur komið fram hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að búið er að ljúka móttöku gesta í efnahags- og skattanefnd og það sem meira er, hv. þingmaður hefur greint frá því að það er búið að lýsa afstöðu meiri og minni hluta gagnvart fjárlaganefnd. Fjárlaganefnd og þingið sjálft mun þess vegna geta notið ráðlegginga úr vinnu efnahags- og skattanefndar.

Hv. þingmaður kvartar undan því að hann hafi ekki getað lagt fram breytingartillögur sínar. Hann hefur auðvitað fullan rétt til þess að leggja fram sínar tillögur og vafalítið verða þær til þess að glæða umræður hér í þinginu. Ég vek eftirtekt hv. þingmanns á því að samkvæmt þingsköpum getur hann enn lagt fram tillögur og getur gert það alveg þangað til umræðan hefst og áður en henni er lokið. Hann hefur fullan rétt til þess. Ég sé þess vegna enga meinbugi á því að hér sé unnið eins og hæstv. forseti var að gera þegar hann dreifði þessu áliti. Það liggur á þessu og hv. þingmaður veit hvers vegna.