138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

netundirskriftir vegna Icesave.

[10:36]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við hæstv. ráðherra erum þá sammála um að alvarleiki málsins er mikill og ég er fegin að hún tekur undir með mér. Alvarleikinn er það mikill að tortryggnin er nú ráðandi gagnvart Stjórnarráðinu. Það eru bersýnilega menn innan Stjórnarráðsins, hugsanlega spunameistarar Samfylkingarinnar, sem skipta sér af þessu máli og reyna að setja einhvern ótrúverðugleikablæ á þetta. Það dugar mér ekki að heyra að það eigi bara að rabba um þessi mál yfir tesopa. Það verður að skoða þessi mál, ekki síst í ljósi þess sem ég gat um áðan. Það er ekki bara þetta mál. Við munum fá kröfur um þjóðaratkvæðagreiðslu í ríkari mæli í framtíðinni og þá verður ríkisvaldið að standa í lappirnar og standa sig í stykkinu við að skoða að það komi ekki einhverjar undirskriftir innan úr Stjórnarráðinu, sérstaklega í þeim málum sem eru óheppileg og óþægileg fyrir ríkisstjórnina sjálfa. Ég segi: Það á ekki bara að ræða málið, það þarf að rannsaka það til hlítar.