138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

álag á Landspítalanum.

[10:39]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Birgittu Jónsdóttur fyrir þessa fyrirspurn. Á sérstakri ráðstefnu í síðustu viku á vegum sjálfstætt starfandi fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu var til umræðu öryggi sjúklinga og starfsmanna. Hv. þingmaður spyr hvort álag hafi aukist á starfsmenn á Landspítala. Það verður að segjast eins og er að það fer af því tvennum sögum. Eflaust hefur álag aukist víða á spítalanum en á öðrum stöðum hefur dregið verulega úr því. Við þekkjum það að á undanförnum árum hefur öryggi inni á sjúkrahúsum verið talið stefnt í voða eða hættu vegna manneklu. Það hefur verið erfitt að fá fólk til starfa, sérstaklega hjúkrunarfræðinga og jafnvel sjúkraliða. Nú er öldin önnur og nú eru allar stöður fullmannaðar. Álag hefur því breyst. Það hefur væntanlega jafnast eitthvað og ég vil taka fram að starfsmönnum á Landspítalanum hefur fjölgað á þessu ári og launakostnaður aukist en fólki hefur ekki fækkað þar, eins og halda mætti í kjölfar kreppunnar, eða laun dregist saman.

Ég átti fund með fulltrúa ungliðahreyfingar sjúkraliða vegna orðaskipta á þessari ráðstefnu, eins og hv. þingmaður nefndi, og niðurstaðan af þeim fundi var sú að við ætlum að vinna saman að því að skilgreina betur hvar hættumörkin liggja í álagi á starfsmenn. Það er alveg rétt að það hefur lögð verið höfuðáhersla á öryggi sjúklinga en öryggi starfsmanna vegna álags er líka mikilvægt. Ég vil taka fram að landlæknir var í síðustu viku beðinn um að kanna þetta sérstaklega, m.a. af því tilefni sem ég rakti, sem var þessi ráðstefna og ummæli ungliðanna þar.