138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

hlutur heilbrigðisráðherra í mótmælum í janúar.

[10:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Það er ágætt að fá það staðfest hjá hæstv. heilbrigðisráðherra að hún er mjög ánægð með framgöngu mótmælenda og væntanlega einnig sína eigin þegar þetta átti sér stað. Hæstv. ráðherra hlýtur þá að velta því fyrir sér, fyrst hún er svona ánægð með framgönguna í þessu máli, hvað á þá að segja við þá lögreglumenn sem meiddust, slösuðust og hlutu jafnvel varanlegan skaða af því sem hún kallar friðsamleg mótmæli. Hvernig ætlar hún að réttlæta það fyrir því ágæta fólki sem hefur hlotið þann skaða af, ekki bara lögreglumönnum heldur jafnvel starfsmönnum þingsins, ef eitthvað er að marka fréttir?

Mig langar að ítreka spurningu mína til hæstv. heilbrigðisráðherra sem ber ábyrgð á heilbrigðismálum landsins þessa dagana og þar á meðal væntanlega þeim sem hlúa og hugsa um þá sem slösuðust í þessum mótmælum: Telur hún ekki ástæðu til að biðjast afsökunar á ummælum sínum varðandi lögregluna þar sem hún gefur það í skyn að lögreglan hafi einfaldlega gengið fram af of miklu harðræði og sé að hefna sín á þeim sem voru að mótmæla?