138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

tillögur starfshóps um heilbrigðismál.

[10:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að spyrja hæstv. ráðherra út í viðhorf hennar til lögreglunnar en svör hæstv. ráðherra ollu miklum vonbrigðum áðan, svo ekki sé dýpra í árinni tekið. Það sem ég ætlaði að spyrja um er að við þekkjum það og það hefur komið fram hjá öllum þeim sem þekkja til að sú leið sem menn fara í þessum fjárlögum hvað varðar heilbrigðismálin er mjög hættuleg, hún mun skerða stöðu okkar sem þjóðar með bestu heilbrigðisþjónustu í heimi. Það liggur alveg fyrir að ef við förum þessa leið munum við sjá skerta þjónustu, við munum sjá biðlista sem við höfum ekki séð mjög lengi. Væntanlega af þeim ástæðum nefndi hæstv. heilbrigðisráðherra fljótlega eftir að hún tók við að hún teldi það bagalegt að ekki skyldi vera komið inn á fjárlögin í þeirri skýrslu sem unnin var undir forustu Huldu Gunnlaugsdóttur og af sérfræðingum og ber nafnið Frá orðum til athafna, sem miðar að skipulagsbreytingum á heilbrigðisþjónustu með það að markmiði að halda uppi þjónustustiginu.

Í kjölfarið, og það var eðlilegt, lét hæstv. heilbrigðisráðherra sérstakan hóp á sínum forsendum reikna út afleiðingarnar af þeim hugmyndum í ráðuneytinu. Niðurstaðan í örstuttu máli er sú að í það minnsta er hægt að spara um 1,4 milljarða á ársgrundvelli án þess að skerða þjónustu. Er það varlegt mat og er ekki búið að taka alla þætti sem hægt er að nýta til sparnaðar. Ég vil því spyrja, virðulegi forseti, vegna þess að við sjáum að það er ekkert tekið á þessu í breytingum á milli umræðna í fjárlögunum: Hyggst hæstv. ráðherra gera eitthvað með þá vinnu sem hún setti af stað sem miðar að því að halda uppi þjónustunni (Forseti hringir.) í okkar mikilvæga heilbrigðiskerfi?