138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

tillögur starfshóps um heilbrigðismál.

[11:01]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Það er auðvitað gott að hæstv. ráðherra lítur á þetta jákvæðum augum en nú er það þannig að það er þingið sem ákveður hvað er gert, það er ekkert öðruvísi. Það er búinn að vera flatur niðurskurður á þessu ári. Það er gert ráð fyrir flötum niðurskurði á næsta ári. Hvað þýðir það? Það þýðir gríðarlega skerðingu á þjónustu, það þýðir aukið álag á starfsfólk og við sjáum þjónustuna minnka. Það er þingið sem getur tekið ákvörðun um að fara þessa leið, það getur enginn annar gert það, það liggur alveg fyrir.

Hæstv. ráðherra vísar í að það er búinn að vera flatur niðurskurður. Forsvarsmenn stofnana og aðrir tala um það sem hægfara kyrkingu af góðri ástæðu. Það vita allir að flatur niðurskurður er sá versti fyrir þjónustuna og núna eigum við á hættu að skerða virkilega þá þjónustu sem er á heimsmælikvarða. Ef við breytum ekki hér gerir enginn það. Hver er skoðun hæstv. ráðherra? (Forseti hringir.) Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því við fjárlagagerðina núna eða ekki?