138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[11:04]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Við tökum hér til 2. umr. fjárlög ársins 2010 og nefndarálit meiri hluta fjárlaganefndar, en fjárlögin eru komin til 2. umr. eftir ítarlega umræðu í fjárlaganefnd og öðrum nefndum þingsins. Alls voru haldnir 38 fundir í fjárlaganefnd. Erindi sem nefndin fékk til afgreiðslu voru um 900 og alls komu 338 gestir til fundar við nefndina og aðrar þingnefndir. Frumvörp um tekjuhluta frumvarpsins komu seint inn til Alþingis og biðu þar afgreiðslu vegna mikillar umræðu um annað mál og um tíma áætlaði fjárlaganefnd að fresta breytingum á tekjuhluta til 3. umr. eins og heimilt er. Á lokasprettinum tókst þó að afgreiða breytingar á tekjuhlutanum að undangengnu áliti frá 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar, en reiknað er með að skoða málið enn betur á milli 2. og 3. umr.

Helstu atriði í breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar eru að fjárlögin í heild hafa verið unnin samkvæmt skýrslu ríkisstjórnarinnar um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013. Hún var á þskj. 173 í sumar og var kynnt og rædd á Alþingi í júní sl.

Hér við 2. umr. er tekið tillit til breyttra forsendna, svo sem áætlunar um minna atvinnuleysi og minni samdrátt einkaneyslu.

Tekjuáætlun frumvarpsins hefur verið endurskoðuð og áform um skattlagningu lækkuð umtalsvert og stigið styttra skref til að ná jöfnuði í ríkisfjármálum en frumvarpið gerði í upphafi ráð fyrir.

Umtalsverðar breytingar hafa verið gerðar á framlagi til Vinnumálastofnunar og Atvinnuleysistryggingasjóðs og vinnumarkaðsúrræði styrkt. Hætt er við skerðingu á barnabótum og vaxtabótum. Dómstólar eru efldir og fangelsismálin styrkt. Komið er til móts við fjölgun og aukna virkni nemenda í framhaldsskólum.

Framlög til þingflokka og stjórnmálaflokka eru lækkuð um 10% og ráðstöfunarfé ráðherra lækkað um þriðjung, jafnframt sem ákveðið er að setja reglur um ráðstöfun þess. Ég mun í ræðu minni í dag gera nánari grein fyrir öllum þessum þáttum, bæði breytingum á tekjum og útgjöldum.

Í upphafi ætla ég aðeins að fara yfir forsendur fjárlaga, þ.e. áætlaða útkomu á fjárlögunum fyrir árið 2009. Fjárlög þessa árs gerðu ráð fyrir að heildartekjur yrðu 402 milljarðar kr., heildargjöld um 555 milljarðar kr. og reiknað var með neikvæðum jöfnuði upp á 153 milljarða kr. Nú er gert ráð fyrir að útgjöld ársins 2009 verði 569 milljarðar kr., þ.e. hækkun sem nemur 8,2 milljörðum kr., 2,6%, og að heildartekjur verði um 417 milljarðar kr. sem er aukning á tekjum um 15 milljarða kr. Áhrif þessa á jöfnuð er að fyrirhugaður halli í fjárlögum 2009 geti verið nálægt upphaflegum markmiðum, um 151 milljarður kr. sem er 1,8 milljörðum kr. undir áætlun ársins. 3. umr. um fjáraukalagafrumvarpið er á dagskrá hér síðar í dag og gefst þá tækifæri til að ræða það frekar.

Eins og áður sagði byggðu fjárlögin fyrir árið 2010 á áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir að gerð áætlunar um stefnu í ríkisfjármálum til næstu fjögurra ára sé forgangsverkefni á sviði ríkisfjármála og að sú áætlun marki útlínur þess verkefnis sem fram undan er, jafnt í lækkun ríkisútgjalda sem aukinni tekjuöflun. Í kjölfarið lagði fjármálaráðherra fram í júní skýrslu fyrir Alþingi um áætlun ríkisstjórnarinnar um jöfnuð í ríkisfjármálum fyrir árin 2009–2013 eins og áður sagði og er innihald hennar í samræmi við samstarfsáætlun íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Meginmarkmiðið er að koma á jafnvægi í ríkisfjármálum og þjóðarbúskapnum og þar með að skapa skilyrði fyrir nýrri uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi. Það er nýtt að Alþingi fái að sjá og ræða forsendur og markmið verðandi fjárlaga eins og gert var með áðurnefndri skýrslu og hljóta þingmenn að fagna þessum breyttu vinnubrögðum

Frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2010, sem lagt var fyrir Alþingi í haust, byggir á þeim forsendum og áætlunum sem settar voru fram í áðurnefndri skýrslu. Í fjárlagafrumvarpinu var gert ráð fyrir að frumjöfnuður á árinu 2010, þ.e. jöfnuður án fjármagnstekna og fjármagnsgjalda, yrði neikvæður um 1,6% af vergri landsframleiðslu og að batinn yrði nálægt 7% frá þessu ári, árinu 2009, þar sem frumjöfnuður var áætlaður neikvæður um 8,6% í ár. Nú við 2. umr. er gert ráð fyrir að frumtekjur verði um 8,7 milljörðum kr. lægri en í frumvarpinu og að útgjöld aukist um 10,1 milljarð kr. á rekstrargrunni. Breytingar á tekjum og gjöldum ríkissjóðs munu leiða til þess að frumjöfnuður verður á bilinu 1–1,5% lakari en gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Þessar breytingar rúmast hins vegar vel innan þeirra áætlana sem settar voru fram í sumar í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um jöfnuð í ríkisfjármálum. Samkvæmt þeim hefur verið miðað við að frumjöfnuður batni að meðaltali um 3–4% af landsframleiðslu á ári þar til tekjujöfnuðurinn í heild verður orðinn jákvæður, en þó þannig að stærstu skrefin verði stigin á árinu 2010. Í frumvarpinu fyrir 2010 var í rauninni stefnt að heldur meiri bata í frumjöfnuðinum á næsta ári en samkvæmt samstarfsáætluninni, sem svarar til um 0,5%. Auk þess hefur frekari yfirferð og útfærsla á aðgerðaáformunum í ríkisfjármálunum, sem fól í sér bæði samdrátt og endurmat á efnahagslegum áhrifum, m.a. við gerð stöðugleikasáttmálans, leitt til þeirrar niðurstöðu að nokkuð er dregið úr þeim ráðstöfunum, sérstaklega hvað varðar nýja tekjuöflun.

Í fjárlagafrumvarpinu er mikil ábyrgð lögð á herðar ráðuneytum og stofnunum á þeirra vegum. Ekki hefur í mjög langan tíma, ef þá nokkurn tímann, verið gerð jafnrík krafa um aðhald og ráðdeildarsemi í ríkisrekstrinum og nú. Oft hafa lausatök í ríkisrekstrinum birst í aukafjárveitingum í fjáraukalögum hvers árs vegna framlaga til nýrra verkefna, aukins umfangs eða rekstrarhalla stofnana umfram setta ramma. Á undanförnum árum hafa ráðuneyti og stofnanir ráðstafað fjármunum umfram heimildir á allt að fjórðungi fjárlagaliða sinna. Ábyrgð, agi og festa skipta miklu þegar kemur að fjármálastjórn og ráðstöfun fjármuna. Það er hlutverk allra aðila sem koma að fjárlagagerðinni og framkvæmd fjárlaga að tryggja að fjárlagarammar séu virtir og að framfylgja því skipulagi sem stjórnvöld hafa ákveðið. Stofnunum ber að miða rekstraráætlanir sínar við þær fjárheimildir sem hafa verið settar fyrir árið og geta ekki vænst þess að fá að efna til verulegra útgjalda úr ríkissjóði umfram það vegna afgangs á fjárheimildum frá fyrri árum eða með því að taka vaxtalaust lán í fjárveitingum framtíðarinnar og velta umframútgjöldum á undan sér milli ára. Aukafjárveitingar í fjáraukalögum eiga að sjálfsögðu líka að heyra til algerrar undantekningar og þá einungis til þess að mæta útgjöldum vegna atvika sem ekki var hægt að sjá fyrir þegar fjárlög voru sett. Hvarvetna á að gæta aðhalds og sparnaðar í ríkisrekstri. Til að tryggja að markmið um lækkun útgjalda náist munu stjórnvöld auka áherslu á ábyrgð ráðuneyta og stofnana og aukið almennt eftirlit með rekstri. Eftirlit með framkvæmd fjárlaga verður hert verulega þannig að ekki má búast við auknum framlögum til nýrra verkefna, aukins umfangs eða rekstrarhalla stofnana umfram setta ramma. Ákveðið hefur verið að stuðla að ýmsum breytingum á verklagi til að treysta umgjörð fjárlagagerðarinnar og framkvæmd fjárlaga. Þær áherslur voru birtar í sérstökum kafla í skýrslu fjármálaráðherra til Alþingis um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum, þeirri skýrslu sem áður var nefnd.

Frumvarp til fjáraukalaga þessa árs ber breyttum vinnubrögðum skýr merki. Vegna þess frumvarps sem hér er til umræðu mun sama verklag verða viðhaft við framkvæmd fjárlaganna. Málefni stofnana sem starfa ekki eða hafa ekki starfað innan þess fjárhagsramma sem fjárlög setja verða sett í nýjan farveg. Þar verður byggt á vandlegri greiningu á rekstrarstöðu og ráðstöfunum sem stjórnendur hafa gripið til. Í framhaldi af því verður gert samkomulag milli stofnunar og fagráðuneytis, með aðkomu fjármálaráðuneytis, um nauðsynlegar aðhaldsráðstafanir, úrbætur og aðlögun reksturs að fjárheimildum á tilteknu tímabili. Gert er ráð fyrir því að fjármálaráðuneyti og fagráðuneyti geri samhliða þessu samkomulag um hvernig uppsöfnuðum vanda verði mætt gangi aðgerðaáætlun stofnunarinnar eftir. Með samkomulagi á milli aðila er lögð höfuðáhersla á að laga rekstur viðkomandi stofnunar að fjárheimildum og að ákveðið verði fyrir fram hvernig brugðist verði við frávikum frá áætlunum og útgjaldarömmum. Nýjum verklagsreglum er ætlað að auka aga í framkvæmd fjárlaga, auka ábyrgð ráðuneyta en fyrst og fremst ábyrgð stofnana, auka almennt eftirlit með rekstri og festa betur í sessi skipulag og vinnubrögð rammafjárlagagerðar. Útgjaldarammar ráðuneyta eiga að vera bindandi og þeim á ekki að breyta eftir á. Ef allir sem hlut eiga að máli nálgast viðfangsefnið af ábyrgð, aga og festu eru allar líkur á að góður árangur náist.  

Frá því að fjárlagafrumvarpið var lagt fram hafa línur skýrst varðandi erlendar lántökur til að efla gjaldeyrisforðann og styðja við gengi krónunnar. Nú er orðið ljóst að ekki verður af láni frá Rússum en í frumvarpinu var reiknað með 500 milljóna dollara láni þaðan. Á móti kemur að ákveðið hefur verið að fresta til 2010 hluta af ádrætti á lánalínur frá Norðurlöndum sem áður hafði verið reiknað með að yrði í ár. Samtals leiðir þetta til um 50 milljarða kr. lækkunar á erlendum lántökum og endurlánum til Seðlabankans á árinu 2010 frá fyrri áætlunum. Í 2. gr. er gerð grein fyrir þessum breytingum með 50 milljarða kr. lækkun á viðeigandi liðum í sjóðstreymi ríkissjóðs.

Það er nú einnig orðið ljóst að allt eins er líklegt að það geti dregist fram yfir næstu áramót að leiða til lykta niðurstöður um fjárhagslega endurskipulagningu sparisjóðanna. Vegna þess er lögð til sú breyting á 2. gr. að inn í hana bætist nýr liður, eiginfjárframlög til sparisjóðakerfisins, og gert þar ráð fyrir samtals 20 milljarða kr. framlögum úr ríkissjóði til sparisjóðakerfisins. Áætlun um samsvarandi framlög er einnig í fyrirliggjandi fjáraukalagafrumvarpi fyrir árið 2009 en vegna óvissu um það hvorum megin áramótanna niðurstaða fæst í málið er talið rétt að gera einnig ráð fyrir þessum framlögum í fjárlögum 2010. Í samræmi við tilkomu þessa nýja liðar í sjóðstreymið er lögð til breyting á heiti annars liðar þar sem gerð er grein fyrir öðrum eiginfjárframlögum og hlutabréfakaupum en til sparisjóðakerfisins.

Þá er í 2. gr. gerð grein fyrir 40 milljarða kr. aukningu á annarri lántöku ríkissjóðs samkvæmt endurskoðaðri lánsfjáráætlun. Sú lántaka er áformuð með útgáfu ríkisskuldabréfa á innlendum markaði og skiptist jafnt milli áðurnefnds 20 milljarða kr. framlags til sparisjóðakerfisins og annarrar fjármögnunarþarfar, svo sem endurfjármögnunar á eldri lánum og til að bæta stöðu ríkissjóðs hjá Seðlabanka Íslands.

Breytingar á 5. gr. eru af tvennum toga. Annars vegar er með breytingum á 1. tölulið gerð grein fyrir 10 milljarða kr. hækkun á lántökuheimild fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs þannig að hún verði 460 milljarðar kr. Það er 20 milljarða kr. hærri heimild en reiknað var með að lántökur yrðu í sjóðstreyminu þar sem talið er rétt að hafa borð fyrir báru ef aðstæður breytast. Hins vegar er með breytingum á 2. tölulið gerð grein fyrir 50 milljarða kr. minni endurlánum til Seðlabanka Íslands vegna lækkunar á erlendum lántökum eins og áður var nefnt.

Í tengslum við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins komu nokkur atriði til endurskoðunar hvað varðar þjóðhagsspá og 1. minni hluti efnahags- og skattanefndar vísar einmitt í umfjöllun sinni um endurskoðun tekjuáætlunar fjárlagafrumvarpsins í þessa uppfærðu þjóðhagsspá fjármálaráðuneytis um breytingar milli áranna 2009 og 2010. Þar er gert ráð fyrir minni samdrætti í einkaneyslu, þ.e. að samdráttur verði 4,3% í stað 6,1%, og minni aukningu á fjárfestingu, þ.e. að fjárfestingar aukist um 4,8% í stað 10,2%. Vísað er til þess að umfang tekjuskatts einstaklinga væri minna en í upphaflegri spá og að búast mætti við minni nýframkvæmdum í stóriðju. Þá er spáð 1 prósentustigs minna atvinnuleysi en í fyrri spám, þ.e. 9,6% í stað 10,6%.

Í fjárlagafrumvarpi ársins 2010 voru kynntar nýjar umfangsmiklar tekjuöflunaraðgerðir en útfærslu þeirra var ekki lokið þegar frumvarpið var kynnt í byrjun október. Vinna við nánari útfærslu þessara aðgerða — sem fela í sér verulegar skattkerfisbreytingar — hefur nú séð dagsins ljós í formi skattfrumvarpa sem eru til umfjöllunar í efnahags- og skattanefnd. Má þar nefna mál nr. 239 (ráðstafanir í skattamálum), mál nr. 256 (tekjuöflun ríkisins) og mál nr. 257 (umhverfis- og auðlindaskattur). Áætlun um breytingar á tekjuhluta fjárlagafrumvarps ársins 2010 við 2. umr. miðast við að þessi frumvörp verði að lögum. Í nefndaráliti 1. minni hluta efnahags- og skattanefndar er talið að líkur séu á að uppfærð tekjuspá fái staðist. Engu að síður er hafður á sá fyrirvari að forsendur geti breyst og gefið tilefni til frekari umfjöllunar efnahags- og skattanefndar milli 2. og 3. umr. fjárlagafrumvarpsins.

Þau tekjuöflunaráform sem var að finna í fjárlagafrumvarpinu hafa tekið töluverðum breytingum í átt til lækkunar eins og frekar verður lýst við 2. umr. þess.

Tekjuáætlun fjárlagafrumvarps fyrir árið 2010 hljóðaði upp á 468 milljarða kr., en sú áætlun hefur nú verið lækkuð um tæpa 10 milljarða kr., þ.e. í 459 milljarða kr. Á greiðslugrunni er lækkunin heldur meiri, þ.e. tæpir 13 milljarðar kr., úr 456 milljörðum kr. í 443 milljarða kr. Skatttekjurnar hafa lækkað nokkru meira, um tæpa 12 milljarða kr., metnar á rekstrargrunni, en 15 milljarða kr. á greiðslugrunni. Þessi lækkun verður þrátt fyrir heldur betri þjóðhagshorfur nú en við gerð frumvarpsins sem auka tekjurnar um tæpa 2 milljarða kr. Skýringin er sem fyrr segir breytt tekjuöflunaráform ríkisstjórnarinnar, einkum hvað varðar tekjuskatt einstaklinga.

Þær tekjuöflunaraðgerðir sem lýst var í fjárlagafrumvarpinu voru í meginatriðum fjórþættar. Í fyrsta lagi var fyrirhuguð kerfisbreyting í skattlagningu almennra launatekna og fjármagnstekna hjá einstaklingum þar sem stefnt var að sameiningu skattstofnanna tveggja, í öðru lagi viðbótaröflun af virðisaukaskatti með breikkun stofns og/eða breyttum skatthlutföllum, í þriðja lagi hækkanir á vörugjöldum af áfengi, tóbaki, bensíni og olíu og hækkun á bifreiðagjaldi og í fjórða lagi upptaka nýrra orku-, umhverfis- og auðlindagjalda. Heildartekjuáhrif þessara aðgerða voru áætluð nálægt 75 milljörðum kr. Nú hafa þessar aðgerðir verið endurmetnar og útfærsla þeirra hefur eins og áður var nefnt tekið umtalsverðum breytingum, auk þess sem nýjar tekjuöflunaraðgerðir hafa komið til frá því sem gert var ráð fyrir í haust.

Hér á eftir eru nefndar veigamestu breytingarnar sem lagðar eru til á einstökum liðum tekjuáætlunar fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 2010.

Stærsta frávikið frá áætlun frumvarpsins kemur fram í tekjuskatti einstaklinga. Horfið hefur verið frá því að sameina almennar tekjur og fjármagnstekjur einstaklinga í einn skattstofn og verða þessir skattstofnar áfram skattlagðir hvor í sínu lagi á árinu 2010. Lagt er til að upp verði tekinn þriggja þrepa skattur á almennar tekjur jafnframt því að persónuafsláttur hækki um 2.000 kr. á mánuði. Neðsta þrepið verður óbreytt frá núverandi kerfi, þ.e. 24,1%, en efri þrepin tvö verða 27% og 33%. Í neðsta þrepi verða tekjur undir 200.000 kr. á mánuði, í miðþrepi verða tekjur á bilinu 200.000–650.000 kr. og tekjur umfram 650.000 kr. fara í efsta þrep. Ástæða er til að ítreka að prósentuhækkun miðast eingöngu við tekjur á því tekjubili sem nefnt er hér að framan. Þannig greiðir einstaklingur með 700.000 kr. mánaðartekjur 24,1% skatt af fyrstu 200.000, þ.e. því sem er umfram skattleysismörk, greiðir síðan 27% af næstu 450.000 kr. og 33% af 50.000 kr.

Skattleysismörk tekjuskatts að meðtöldu útsvari fara úr u.þ.b. 113.500 kr. á mánuði í tæplega 119.000. Persónuafsláttur verður áfram að fullu millifæranlegur milli samskattaðra aðila, auk millifærslu úr þriðja þrepi í annað þrep hjá tekjuhærri aðilanum að uppfylltum tilteknum skilyrðum.

Gert er ráð fyrir að fjármagnstekjuskattur muni hækka úr 15% í 18% og samhliða verði tekið upp frítekjumark við 100.000 kr. vaxtatekjur á einstakling. Þegar um leigutekjur er að ræða verða aðeins 70% teknanna skattlögð.

Í fjárlagafrumvarpinu var reiknað með að tekjuskattur og fjármagnstekjuskattur einstaklinga mundu skila samtals 143,5 milljörðum kr. í ríkissjóð á árinu 2010 en sú áætlun hljóðar nú samanlagt upp á 123,1 milljarð kr. Þar af eru 99,6 milljarðar kr. af tekjuskatti en 23,5 milljarðar kr. af fjármagnstekjuskatti. Lækkun frá áætlun frumvarpsins nemur því liðlega 20 milljörðum kr. á þessum lið. Á móti kemur að fyrirhugað er að opna á frekari heimildir til útgreiðslu séreignarsparnaðar sem skilað gætu ríkissjóði um 5 milljörðum kr. í viðbótartekjur á árinu 2010 umfram það sem gert var ráð fyrir í áætlun frumvarpsins.

Tekjuskattur á lögaðila verður hækkaður úr 15% í 18%. Hækkunin á að koma til framkvæmda frá 1. janúar 2010 og tekur því til rekstrarársins 2010, en mun hins vegar ekki hafa áhrif til hækkunar á tekjuhlið fyrr en við álagningu tekjuskattsins á árinu 2011. Áform um sérstaka fyrirframgreiðslu tekjuskatts hjá stóriðjufyrirtækjum mun hins vegar leiða til 1,2 milljarða kr. hækkunar á tekjuskatti lögaðila á næsta ári. Ljóst er að hagnaður dregst verulega saman í mörgum atvinnugreinum á árinu 2009 og mikil óvissa ríkir því um stærðargráðu þessa tekjustofns almennt á árinu 2010. Álagður tekjuskattur á hagnað lögaðila á árinu 2008, sem lá fyrir í lok október sl., var alls 35,4 milljarðar kr. og útlit fyrir að yfir 15 milljarðar kr. þar af muni skila sér í ríkissjóð á árinu 2009 sem er meira en reiknað var með í haust. Niðurstaðan er því að tekjuskattur lögaðila er hækkaður um 4,2 milljarða kr. frá áætlun frumvarpsins.

Þá er gert ráð fyrir að tekinn verði upp tímabundinn auðlegðarskattur á einstaklinga sem eiga miklar eignir. Lagt er til að skatthlutfallið verði 1,25% á hreina eign, nettóeign, yfir 90 millj. kr. hjá einstaklingi og 120 millj. kr. hjá samsköttuðum aðilum. Áætlað er að þessi nýi skattstofn skili ríkissjóði um 3,5 milljörðum króna á árinu 2010. Ekki var reiknað með þessum tekjum í tekjuáætlun frumvarpsins en þeim er ætlað að standa á móti auknum útgjöldum í formi barnabóta og vaxtabóta, sem gerir okkur kleift að hverfa frá niðurskurði á þessum mikilvægu bótum fyrir fjölskyldurnar í landinu.

Þá er um að ræða kerfisbreytingu á virðisaukaskatti sem var ætlað að skila 8 milljarða kr. tekjuaukningu í tekjuáætlun fjárlagafrumvarpsins. Dregið hefur verið úr þeim áformum og mun sú útfærsla sem nú liggur fyrir skila 5,2 milljörðum kr. á árinu 2010. Kerfisbreytingarnar eru í megindráttum tvær. Annars vegar er almenna skattþrepið hækkað úr 24,5% í 25,0% og hins vegar er tekið að nýju upp 14% skattþrep, og í það færast ákveðnar vörur og þjónusta sem í dag eru í 7%-þrepinu. Er þar um að ræða sölu veitingahúsa og kaffihúsa og einnig sykraðar mat- og drykkjarvörur. Sem fyrr segir munu þessar breytingar skila 2,8 milljarða kr. minni tekjum á næsta ári en til stóð, en á móti vegur heldur minni samdráttur í veltu en áætlaður hafði verið.

Áformum um 16 milljarða tekjuöflun af orku-, umhverfis- og auðlindaskatti eins og miðað var við í frumvarpinu var breytt að undangengnum viðræðum við aðila vinnumarkaðarins, í tengslum við endurnýjun stöðugleikasáttmálans, og er nú áætlað að nýr umhverfis- og auðlindaskattur í formi kolefnisgjalds, gjalds á sölu raforku og á heitu vatni muni skila ríkissjóði tæpum 5 milljörðum kr. Munar þar 11 milljörðum kr. frá forsendum frumvarpsins. Minni hækkun er einnig fyrirhuguð á bensíngjaldi og olíugjaldi en ráð hafði verið fyrir gert í frumvarpinu, m.a. vegna upptöku kolefnisgjalds á bensín og dísilolíu. Munar þar um 300 millj. kr.

Ýmsar aukatekjur ríkissjóðs sem og dómsmálagjöld verða hækkuð umtalsvert, en ekki hafði verið reiknað með hækkun á þeim gjöldum í frumvarpinu. Tekjuauki ríkissjóðs af þeirri hækkun er talinn nema 1,5 milljörðum kr. á árinu 2010 en á móti vega aukin útgjöld til dómskerfisins á gjaldahlið frumvarpsins.

Atvinnutryggingagjald var hækkað um 1,66 prósentustig, úr 5,34% í 7,00%, um mitt ár 2009 og ekki var reiknað með frekari hækkun þess í tekjuáætlun 2010 eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpinu. Nú er hins vegar reiknað með því að atvinnutryggingagjaldið hækki um 1,6 prósentustig til viðbótar, úr 7,00% í 8,6%, í upphafi árs 2010. Eru tekjuáhrifin af þeirri hækkun metin 12 milljarðar kr. á árinu 2010. Þessari viðbótartekjuöflun er ætlað að vega á móti minni tekjum af umhverfis- og auðlindasköttum, auk þess að mæta vaxandi fjárþörf Atvinnuleysistryggingasjóðs. Samtök atvinnulífsins vildu heldur fara þessa leið en að hækka umhverfis- og auðlindaskatta og var fallist á það.

Þegar allt er lagt saman munu breytt áform varðandi skattbreytingar á næsta ári, eins og hér hefur verið lýst, minnka tekjur ríkissjóðs um nær 20 milljarða kr. frá forsendum frumvarpsins. Á móti vega heldur betri þjóðhagshorfur fyrir þetta ár og næsta sem skila munu ríkissjóði heldur meiri skatttekjum en miðað var við í tekjuáætlun frumvarpsins. Tekjur ríkissjóðs aðrar en skatttekjur eru hækkaðar um tæpa 2 milljarða kr. frá áætlun fjárlagafrumvarps. Áætlun um vaxtatekjur hefur verið uppfærð með hliðsjón af áætlaðri afkomu ríkissjóðs og áætlunum um lausafjárstýringu og ávöxtun fjármuna. Tekjur af arði hækka um 500 millj. kr. vegna viðbótararðs frá ÁTVR. Sem fyrr segir munu svokallaðar aukatekjur ríkissjóðs aukast um 1,5 milljarða kr. í heild, en stærstur hluti þessa tekjuauka kemur frá hærri dómsmálagjöldum, þ.e. rúmlega milljarður. Sá gjaldstofn er bókfærður sem aðrar tekjur. Þessi gjöld hafa haldist óbreytt um árabil á sama tíma og kostnaður að baki þeim hefur hækkað verulega. Hér er því verið að hækka þessi gjöld í takt við verðlag, auk þess að koma til móts við tekjuöflunarþörf ríkissjóðs á árinu 2010.

Að lokum er ríkisábyrgðargjald hækkað um 1,2 milljarða kr. frá áætlun frumvarpsins. Um er að ræða leiðréttingu frá tekjuáætlun frumvarpsins þar sem láðst hafði að uppfæra tekjur af gjaldinu. Reiknað er með að gjaldið hækki úr 0,25% í 0,45% í ársbyrjun 2010, samkvæmt frumvarpi þar um, og að sú hækkun gildi fyrir alla aðila sem gjaldið greiða.

Sný ég mér þá að helstu breytingum á útgjöldum hjá einstökum ráðuneytum og stofnunum. Í meðferð fjárlaganefndar á útgjaldaliðum frumvarpsins var tekið tillit til umsagna fagnefnda þingsins, tillagna ráðuneyta og viðtala við fjölmarga gesti. Ég mun hér greina frá helstu breytingum á útgjöldum í hverjum málaflokki eða ráðuneyti og fylgi þá röðinni sem er í fjárlagafrumvarpinu.

Í fyrsta lagi er æðsta stjórnin, Alþingi, með hækkun upp á 80,5 millj. kr. Samkvæmt samhljóða tillögu forsætisnefndar Alþingis er gert ráð fyrir 95 millj. kr. til verndar fornminja á Alþingisreit. Stórmerkar minjar frá upphafi landnáms í Reykjavík hafa fundist á fyrirhuguðu framkvæmdasvæði á reitnum og talið mikilvægt að sem best takist til við að verja fornminjarnar. Forsætisnefnd er falið að meta framkvæmdina og fylgja henni eftir.

Forsætisráðuneytið er með lækkun upp á 32 millj. kr. Samkvæmt tillögu allsherjarnefndar er þrengt að fjárlagalið forsætisráðuneytis sem heitir framlag til íslenska upplýsingasamfélagsins en þar er lækkun um 47 millj. kr. Peningarnir eru að hluta nýttir til að fjármagna annars vegar náms- og starfsráðgjafa við Fjölbrautaskóla Suðurlands sem sinnir ráðgjöf við fanga og að hluta til að styrkja meðferðarúrræði á Litla-Hrauni, verkefni á félagslegum grunni og til að veita atvinnuúrræði þar.

Liðurinn mennta- og menningarmál hækkar um rúman milljarð. Ekki er þó farið í breytingar á einstökum skólum eða stofnunum almennt, en nokkrar breytingar gerðar þar, m.a. er aukið svigrúm ráðuneytis til að mæta aukningu á nemendafjölda í framhaldsskólum

Í því skyni er gerð tillaga um 150 millj. kr. framlag til að mæta fjölgun og aukinni virkni nemenda í framhaldsskólum almennt, en jafnframt eru leiðréttar nemendatölur í þremur skólum, í Menntaskóla Borgarfjarðar þar sem gert er ráð fyrir 44,6 millj. kr. hækkun á framlagi til skólans, í framlagi til Framhaldsskóla Mosfellsbæjar upp á 36,6 millj. kr. vegna aukins nemendafjölda og loks 40 millj. kr. til Framhaldsskólans við utanverðan Eyjafjörð af sömu ástæðum.

Þá eru umtalsverðar fjárhæðir í símenntun og fjarkennslu, þar á meðal 70 millj. kr. til fullorðinsfræðslu samkvæmt samkomulagi Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands.

Þá er gerð tillaga um 20 millj. kr. framlag vegna meistaranáms í haf- og strandveiðistjórnun sem Háskólasetur Vestfjarða býður upp á í samvinnu við Háskólann á Akureyri, en framlagið var upphaflega hluti af mótvægisaðgerðum og átti að falla niður árið 2010.

Til bygginga- og tækjakaupa í Háskóla Íslands er veitt heimild til ráðstöfunar á happdrættisfé frá Happdrætti Háskóla Íslands upp á 185 millj. kr. Síðan er einnig 175 millj. kr. til að ljúka framkvæmdum við kennsluálmu Háskólans á Akureyri.

Keilir, frumgreinadeild og vinnumarkaðsúrræði, fær 108 millj. kr. framlag sem er 10% niðurskurður frá yfirstandandi ári. Samkvæmt frumvarpinu féll upphæðin að öllu leyti niður enda hafði framlagið verið tímabundið til uppbyggingar og var hluti af mótvægisaðgerðum vegna niðurskurðar í þorskkvóta. Í tengslum við þessa ákvörðun er gerð sú krafa að Keilir starfi í samvinnu við viðurkennda háskóla eða aðrar stofnanir sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið.

Þá er 15 millj. kr. framlag til að tryggja annars vegar rekstur framhaldsdeildar á Patreksfirði í samstarfi við Fjölbrautaskóla Snæfellinga og hins vegar á Þórshöfn þar sem starfrækt er útibú frá Framhaldsskólanum á Laugum.

Framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna er lækkað um 200 millj. kr. frá forsendum frumvarpsins þar sem eiginfjárstaða lánasjóðsins er talin vera betri í árslok 2009 en áætlanir gerðu ráð fyrir og það á því ekki að skerða á neinn hátt lán til námsmanna heldur er eingöngu gengið á höfuðstól.

Við fjárlagaliðinn Þjóðskjalasafn Íslands er gerð tillaga um 75 millj. kr. fjárveitingu til að halda áfram verkefni í grunnskráningu og endurskráningu á lítt eða óskráðum skjalasöfnum og vinnu við stafræna gerð manntals. Verkefnið hófst sem hluti mótvægisaðgerða vegna niðurskurðar í þorskkvóta og hefur tekist mjög vel. Nú starfa 32 einstaklingar við þetta verkefni á nokkrum stöðum á landsbyggðinni og þótti meiri hluta fjárlaganefndar rétt að halda þessari fjárveitingu áfram.

Liðurinn Kvikmyndamiðstöð Íslands er hækkaður um 60 millj. kr. og dregið sem því nemur úr áformum frumvarpsins um niðurskurð.

Jafnframt er starfsemi áhugaleikfélaga styrkt með 8,6 millj. kr. framlagi.

Eins og áður kom fram stikla ég hér aðeins á stóru og skýri ekki allar þær tölur sem eru á bak við hækkun upp á rúman milljarð hjá mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Í utanríkismálum er hækkun upp á tæpar 214 millj. kr. Þar er liðurinn sendiráð Íslands þar sem er leiðrétting á verðlagsuppfærslu, sem einfaldlega gleymdist, og nemur skekkjan 235,7 millj. kr. Til mótvægis er sett frekari hagræðing og lækkun á rekstrarframlag til sendiráða sem nemur 50 millj. kr.

Í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum er hækkun um 58 millj. kr. Stærstu útgjöldin í þessum málaflokki eru hækkun sem nemur 30 millj. kr. á endurgreiðslum til lýsingar í ylrækt, til að vega upp á móti framleiðslukostnaði hjá garðyrkjubændum og þá þeim hækkunum sem hafa átt sér stað á undanförnum missirum í rafmagnskostnaði. Þessu til viðbótar eru síðan 8,5 millj. kr. til að mæta 0,12 kr. raforkuskatti á hverja kílóvattstund, en miðað er við að garðyrkja og ylrækt verði undanþegin þeirri hækkun.

Dóms- og kirkjumál hækka um tæpar 266 millj. kr. Framlög til Hæstaréttar hækka um 16 millj. kr. og framlög til héraðsdómstóla um 86 millj. kr. Þessar fjárveitingar eru til að mæta fyrirséðu álagi á dómstóla í kjölfar dómsmála sem tengjast falli bankanna. Á móti kemur hækkun dómsmálagjalda sem innheimt eru samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs en frumvarp um þá hækkun liggur fyrir þinginu eins og áður hefur verið sagt.

Þá er gerð tillaga um 107,2 millj. kr. aukið framlag til Fangelsismálastofnunar vegna fjölgunar um 16 fangarými í bráðabirgðafangelsi á Suðurlandi, fangelsi sem starfrækt verður í tengslum við Litla-Hraun. Jafnframt eru settar 30 millj. kr. til að styrkja meðferðarúrræði og verkefni á félagslegum grunni og til að mæta atvinnuúrræðum á Litla Hrauni. Þessu til viðbótar er undir menntamálum eins og áður hefur verið gerð grein fyrir tillaga um 5 millj. kr. til að halda áfram náms- og starfsráðgjöf fyrir fanga, starfi sem er á vegum Fjölbrautaskóla Suðurlands.

Þá er tillaga gerð um 13,5 millj. kr. framlag til Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi en framlag til stöðvarinnar var fellt niður í frumvarpinu í hagræðingarskyni.

Í félags- og tryggingamálum er lækkun upp á rúmar 1.900 millj. kr. Þar eru nokkrar breytingar á framlögum til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Að hluta til eru breytingarnar vegna nýrrar spár um atvinnuleysi á árinu 2010 þar sem spáð er að atvinnuleysi lækki um 1 prósentustig frá frumvarpinu og verði að meðaltali 9,6% á næsta ári.

Breytingarnar á fjárheimildum Atvinnuleysistryggingasjóðs eru nokkrar:

Í fyrsta lagi þýðir 1 prósentustigi minna atvinnuleysi verulega lækkun útgjalda en að teknu tilliti til endurskoðaðrar áætlunar á kostnaði við vinnumarkaðsúrræði er gerð tillaga um að lækka þennan lið um 1.500 millj. kr. Í öðru lagi er gert ráð fyrir lækkun á atvinnuleysisbótum sem nemur 820 millj. kr. þar sem gert er ráð fyrir að draga úr bótarétti námsmanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga. Í þriðja lagi eykst kostnaður vegna aukins umsýslukostnaðar Vinnumálastofnunar og er gerð tillaga um 130 millj. kr. vegna vinnumarkaðsaðgerða og aukins álags.

Í fjórða lagi er gerð tillaga um 690 millj. kr. til að bregðast við vanda langtímaatvinnulausra og vaxandi atvinnuleysi meðal ungs fólks. Í fimmta lagi er gert ráð fyrir að vaxtagjöld sem Atvinnuleysistryggingasjóður greiðir til ríkissjóðs vegna fjármögnunar á útgjöldum umfram markaðar tekjur lækki um 440 millj. kr. frá því sem áætlað var í frumvarpinu. Áætluð hækkun atvinnuleysistryggingagjalds úr 2,21% í 3,81% eykur tekjur og minnkar þannig þörf fyrir fjármögnun frá ríkissjóði.

Loks er gert ráð fyrir lækkun á greiðslum til foreldra utan vinnumarkaðar um 60 millj. kr. í kjölfar breytinga á ákvæðum laga um foreldra- og fæðingarorlof.

Gerð er tillaga um hækkað framlag um 16 millj. kr. til Fjölmenningarseturs á Ísafirði. Í frumvarpinu var framlagið lækkað um 26 millj. kr. þar sem tímabundið framlag vegna úrræða í tengslum við þorskniðurskurð var runnið út. Með þessari fjárveitingu er rekstur setursins tryggður til lengri tíma en samkvæmt framkvæmdaáætlun um innflytjendamál er setrinu ætlað að stýra og samræma þjónustu við innflytjendur í landinu öllu.

Í heilbrigðismálum verður hækkunin 1.449 millj. kr. Tillaga er gerð um 1.167 millj. kr. hækkun framlags vegna S-merktra lyfja stóru sjúkrahúsanna. Þessi liður var í fjárlögum 2009 færður frá Landspítalanum og Fjórðungssjúkrahúsi Akureyrar yfir á sérstakt viðfang hjá Sjúkratryggingum. Ekki hefur reynst unnt að ná tökum á þessum útgjaldalið af ýmsum ástæðum og er því gerð tillaga um hækkun á honum.

Þá er gerð tillaga um að auka útgjaldaheimild Lyfjastofnunar um 200 millj. kr., en hækkunin er fjármögnuð af sértekjum stofnunarinnar og þannig útgjöld og tekjur samræmdar veltu stofnunarinnar og hafa í rauninni ekki áhrif á heildarútkomu.

Loks er gerð tillaga um hækkun á fjárheimild vegna viðbúnaðar gegn heimsfaraldri svínaflensu en þar erum við með viðbótarupphæð upp á 55,3 millj. kr.

Í fjármálaráðuneytinu er hækkunin 7.435 millj. kr. Mikilvægustu breytingarnar eru 1 milljarðs kr. hækkun á barnabótum og 2,3 milljarða kr. hækkun á vaxtabótum, til samræmis við framlög ársins 2009. Er þar með horfið frá áformum í frumvarpinu um skerðingu þessara bóta. Þessum útgjöldum vegna barnabóta og vaxtabóta er áætlað að mæta eins og áður sagði með tekjum af auðlegðargjaldi.

Annar stór liður er tillaga um hækkun á kostnaði vegna fjármagnstekjuskatts sem nemur 1.940 millj. kr. Þessi upphæð færist jafnframt á tekjuhlið og hefur því ekki áhrif á afkomu ársins. Þetta er tekjuskattur sem ríkissjóður innheimtir samkvæmt þeim breytingum sem fyrir liggja um hækkun á fjármagnstekjuskatti en færist út og inn.

Í frumvarpinu eftir 2. umr. er tillaga um 2.162 millj. kr. vegna kostnaðar ríkissjóðs vegna hækkunar á tryggingagjaldi, en þessi kostnaður verður færður á einstakar stofnanir, og hefur það raunar verið gert hér í frumvarpinu við afgreiðslu 2. og að lokum í 3. umr. Það er búið að sundurliða þetta í þeim gögnum sem lögð voru fyrir þingið við 2. umr.

Áætluð er aukin fjárheimild til ríkisskattstjóra vegna breytinga á upplýsingakerfum embættisins í tengslum við breytingar á skattalögum upp á 62 millj. kr. Þá er reiknað með auknu framlagi til skattrannsókna sem nemur 20 millj. kr.

Ef litið er á samgöngumál er hækkunin rúmur milljarður kr. Reiknað er með að flýta framkvæmdum við Landeyjahöfn að nýju og freista þess að taka hana í notkun á árinu 2010. Eins og kunnugt er stóð til að seinka þeirri framkvæmd til 2011. Þannig er gerð tillaga um 145 millj. kr. hækkun á framlögum til verksins en jafnframt er gert ráð fyrir 130 millj. kr. framlagi frá Hafnabótasjóði.

Þessu til viðbótar er gerð tillaga um að framlag til Siglingastofnunar Íslands hækki annars vegar um 70 millj. kr. vegna sjóvarnagarðs við Vík í Mýrdal og þar með gert ráð fyrir að alls verði 100 millj. kr. varið í þetta brýna verkefni á næsta ári. Gerð er einnig tillaga um 30 millj. kr. til byggingar sjóvarnagarðs og bættra hafnarskilyrða í Reykhólahöfn.

Þá er gerð tillaga um 792 millj. kr. hækkun á framlagi til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, undir liðnum um lögbundin framlög, í samræmi við áætlun um auknar skatttekjur.

Nefndin ræddi nokkuð hugmyndir um fækkun ferða á ferjuleiðum til Grímseyjar, yfir Breiðafjörð og til Vestmannaeyja og var ákveðið að málið yrði skoðað betur milli 2. og 3. umr.

Undir iðnaðarráðuneyti er hækkunin um 266 millj. kr. Þar ber hæst tillögur um aukningu um 50 millj. kr. á fjárveitingum til Tækniþróunarsjóðs og 20 millj. kr. aukningu til Nýsköpunarmiðstöðvar.

Þá er tillaga um 40 millj. kr. hækkun til Ferðamálastofu, einkum til eflingar markaðs- og kynningarstarfi á markaðsstofum landsins.

Síðast en ekki síst er tillaga um hækkun framlaga til niðurgreiðslna á húshitun þar sem ætlunin er að rafhitun íbúðarhúsnæðis verði undanþegin nýjum raforkuskatti.

Í efnahags- og viðskiptaráðuneyti er hækkunin 75 millj. kr. Þar er einkum um að ræða flutning verkefna til ráðuneytisins og til Hagstofu Íslands sem heyrir undir ráðuneytið.

Í umhverfismálum er hækkunin upp á 154 millj. kr. Gerð er tillaga um að setja inn að nýju framlag til endurgreiðslu til sveitarfélaga vegna veiða á mink og ref, samtals 17 millj. kr. Reiknað er með að skipuð verði nefnd í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga til að endurmeta þennan útgjaldalið og ákveða fyrirkomulag á þessum málum í framtíðinni.

Gerð er tillaga um nettóhækkun á framlögum til Vatnajökulsþjóðgarðs um 60 millj. kr. til að mæta auknum rekstrarkostnaði þjóðgarðsins samhliða auknu umfangi starfseminnar og uppbyggingu gestastofa.

Nokkur umræða varð um Snæfellsjökulsþjóðgarð sem er eini þjóðgarðurinn sem ekki er með eigin stjórn og hefur mætt afgangi í uppbyggingu þjóðgarða. Fjárlaganefnd hefur ákveðið að skoða málefni þjóðgarðsins betur milli 2. og 3. umr.

Náttúrufræðistofnun Íslands fær 25 millj. kr. framlag til að mæta skerðingu á sértekjum stofnunarinnar.

Svo má í lokin geta þess að til hverrar náttúrustofu landsins er ráðstafað 6,4 millj. kr. viðbótarframlagi.

Þá er komið að því sem hefur verið kallað safnliðir og alls kyns styrkir sem veittir eru af fjárlaganefnd, að mestu að undangengnum tillögum frá fagnefndum þingsins. Við afgreiðslu svokallaðra safnliða, þ.e. erinda frá söfnum, listahópum, einstaklingum o.fl. til fjárlaganefndar, fjölluðu fagnefndir þingsins um þau mál sem heyrðu undir þeirra málaflokk. Nokkuð misjafnt var eftir ráðuneytum hve mikið þau höfðu skorið þessa liði niður. Nefndirnar skiluðu tillögum sínum til fjárlaganefndar og má heita að undantekningarlaust hafi þær tillögur farið óbreyttar í gegnum fjárlaganefnd sem tillögur til 2. umr.

Almennt eru þessir liðir skornir meira niður en almennur rekstur ríkisins. Þannig lækkaði meiri hluti fjárlaganefndar þá liði sem komu til umfjöllunar og afgreiðslu nefndarinnar um 30%. Engum nýjum verkefnum er hleypt af stað.

Fara þarf yfir allt þetta ferli við úthlutun styrkja til alls kyns verkefna og endurbæta það og endurskoða.

Jafnframt hefur verið töluverð umræða í fjárlaganefnd um svokallaða safnliði, þ.e. fjárframlög til einstakra verkefna, í listum, til safna, til húsafriðunar o.s.frv. Í þessu skyni hefur verið rætt um að stofna starfshóp á vegum nefndarinnar til að skoða þennan þátt sem og alla afgreiðslu á framlögum til safna, lista og menningarmála hvers konar og ræða þá um leið með hvaða hætti mætti styrkja lögbundna sjóði sem eru starfandi og fjalla um styrkveitingar til einstakra málaflokka. Þarna þarf einnig að efla eftirlit með nýtingu þessara fjárveitinga.

Einnig ræddi fjárlaganefnd um menningarsamninga ríkis og sveitarfélaga og virðist almenn ánægja með fyrirkomulag og framkvæmd þeirra samninga. Nokkurs ósamræmis gætir þó á milli svæða varðandi fjárframlög ríkisins til þessara samninga, auk þess sem ráðuneytin sem koma að samningunum skerða framlög til þeirra mismikið. Meiri hluti fjárlaganefndar telur mikilvægt að festa þessa samninga í sessi og kanna hvort rétt geti verið að auka hlutverk þeirra.  

Ég ætla aðeins að fjalla um það sem kemur til skoðunar fyrir 3. umr. auk tekjuáætlunarinnar sem mun hljóta frekari umfjöllun í efnahags- og skattanefnd og koma fyrir fjárlaganefnd að nýju. Þar hef ég áður minnst á Þjóðgarðinn Snæfellsjökul og ferjusiglingar en þessu til viðbótar verður tillaga um hækkun framlags til samtakanna Beint frá býli til umræðu milli 2. og 3. umr. Fjárlaganefnd gerir tillögu um 2 millj. kr. til samtakanna en ákvað jafnframt að skoða málið frekar á milli 2. og 3. umr. vegna óska frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd. Frá nefndinni kom tillaga um verkefni sem yrði unnið á vegum nefndarinnar.

Það hefur orðið nokkur umræða um það í tengslum við fjárlög hvernig fara eigi með bókfærslu á ábyrgðum og skuldbindingum, bæði rætt um tónlistarhús og Icesave og raunar almennt um það með hvaða hætti eigi að bóka skuldbindingar sem ríkið tekur á sig. Eins og ég segi hefur verið til umræðu hvort og þá hvernig eigi að bókfæra skuldbindingar og framlög vegna byggingar Tónlistar- og ráðstefnuhússins sem nú heitir Harpa. Fjárlaganefnd beindi fyrirspurn til Ríkisendurskoðunar um þetta atriði og í bréfi til nefndarinnar í framhaldi af fundi 8. desember sl. er eftirfarandi svar, með leyfi forseta:

„Leigugreiðslur ríkis (og Reykjavíkurborgar) eiga skv. samningi að hefjast í mars 2011. Búið er að festa niður þessa upphafsdagsetningu hvað sem líður afhendingu hússins. Samkvæmt þessu þarf ekki fjárheimild vegna leigunnar í fjárlögum fyrr en 2011.“

Engu að síður bendir Ríkisendurskoðun á að skoða þurfi færslur vegna undirbúningskostnaðar á næsta ári og mun það verða skoðað milli 2. og 3. umr. með hvaða hætti þarf að gera ráð fyrir þessu í fjárlögum fyrir árið 2010.

Varðandi Icesave hefur verið rætt um með hvaða hætti eigi að bókfæra ríkisábyrgð á svokölluðum Icesave-lánum sem Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta áætlar að taka frá breska og hollenska ríkinu vegna greiðslu lágmarkstryggingar á Icesave-reikningum Landsbankans. Í rauninni hefur tekist samkomulag, ég get upplýst um það, um með hvaða hætti eigi að færa þessa skuldbindingu en skilningur meiri hluta fjárlaganefndar er sá að ekki sé hægt að færa þá skuldbindingu fyrr en samkomulag hefur náðst og ríkisábyrgð endanlega verið samþykkt.  

Þá hefur verið rætt nokkuð um færslu ónýttra heimilda eða skulda á milli ára. Það þarf að ræða sérstaklega og útfæra með hvaða hætti stofnunum eða ráðuneytum eigi að vera heimilt að færa ónotaðar fjárheimildir milli ára. Litið er á það sem hvatningu til aðhalds og hagræðingar að stofnanir geti fært á milli ára ónotaðar heimildir. Einhver takmörk verða þó að vera á þessu og hafa legið frammi hugmyndir um reglur þar að lútandi og þarf að leiða það mál til lykta á nýju ári. Allar heimildir voru frystar við lok árs 2008, en taka verður á því við afgreiðslu lokafjárlaga hvaða heimildir verða veittar, þ.e. hvaða fjárheimildir fá að færast frá árinu 2008 til 2009. Sama gildir um meðferð skulda stofnana, en ég nefndi áðan hugmyndir um hvernig farið skuli með þær þar sem reiknað er með að menn frysti þessar skuldir í raunveruleikanum á meðan menn eru að koma skikki á sinn rekstur og ef vel tekst til verður fjallað sérstaklega um það hvort þær verða felldar niður eða að hve miklu leyti stofnanirnar ráða við að borga þær. Hvort tveggja þarf að skýra betur og setja um það vinnureglur sem eru skýrar fyrir stofnanir og ráðuneyti.

Ég hef nú gert í stórum dráttum grein fyrir þeim meginbreytingum sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til við 2. umr. á frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010. Raunar hef ég þó sleppt ýmsum hlutum þar sem koma til millifærslur, m.a. frestun á því að breyta sýslumannsembættunum. Það sést í frumvarpinu, það er fært til baka út á einstök sýslumannsembætti sem hefur verið fært á einn lið í frumvarpinu og fleiri atriði má sjá í svokölluðum millifærslum í gögnum sem fylgja frumvarpinu.

Það hefur verið álit meiri hlutans að bæta þurfi enn frekar allan undirbúning við gerð fjárlaga, fjárlagaferlið í heild, sem og að styrkja eftirlitshlutverk nefndarinnar og Alþingis.

Þá þarf að styrkja alla lánasýslu í ríkiskerfinu þar sem vaxtakostnaður er orðinn einn stærsti útgjaldaliður fjárlaga.

Ætlunin er að setja á fót vinnuhóp innan nefndarinnar þar sem farið verður yfir fram komnar hugmyndir og ábendingar um hvernig bæta megi þessa þætti, þ.e. fjárlagaferlið. Þar er grundvallarhugmyndin sú að Alþingi semji og ræði forsendur fjárlaga í upphafi árs hverju sinni, síðan taki framkvæmdarvaldið við og útfæri fjárlagafrumvarpið sem að lokum kemur til umfjöllunar og afgreiðslu Alþingis. Þannig er aðkoma Alþingis styrkt verulega.

Skoða þarf fjárlög miðað við markmið og áform stjórnvalda hverju sinni, áætlanir sem Alþingi hefur samþykkt, hvort sem um er að ræða málefni barna, fatlaðra, innflytjenda eða byggðamál og kynjajafnrétti. Slík greining þarf að koma til í vinnuferli fjárlaga. Ég vitna hér til þess að fyrir liggja auðvitað ýmsar áætlanir, bæði varðandi börn, fatlaða og innflytjendur og eins yfirlýsingar varðandi byggðamál og kynjajafnrétti, og auðvitað þarf að gera úttekt á þessum þáttum þegar fjárlagafrumvarp er unnið hverju sinni. Og að því munum við stefna í framtíðinni.

Að lokum langar mig að minnast á að sú venja virðist hafa skapast í umfjöllun um fjárlög og raunar afgreiðslur úr fleiri nefndum að minni hluti leggi ekki fram neinar breytingartillögur í nefndinni, nema ef vera kynni við einstaka safnliði eða styrki. Ég get því sem formaður haldið því fram að engar tillögur hafi komið frá stjórnarandstöðunni þó að ég viti að slíkar tillögur hafa komið fram og verða lagðar fram hér og kynntar við upphaf umræðunnar. Hafi menn hugmyndir um að auka samstarf stjórnar og stjórnarandstöðu þarf að breyta þessu. Hver veit nema að í tillögum stjórnarandstöðu leynist einhverjar tillögur sem hefðu getað ratað inn í afgreiðslu meiri hlutans við 2. umr. ef á það hefði reynt.

Ég vil að lokum þakka starfsfólki nefndasviðs Alþingis og þá einkum starfsmönnum fjárlaganefndar fyrir frábæra vinnu, sem og þeim fulltrúum ráðuneyta og stofnana sem hafa lagt okkur lið, ásamt öllum þeim sem hafa með tölvupóstum, í bréfum eða heimsóknum og samtölum komið fram með ábendingar og tillögur til mín, nefndarinnar eða einstakra nefndarmanna. Allt skiptir þetta máli við afgreiðslu fjárlaga.

Þá vil ég einnig þakka nefndarmönnum í fjárlaganefnd fyrir þeirra miklu vinnu og almennt gott samstarf.