138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það má alltaf deila um hvort veldur, slök skýring eða slök móttaka, þegar skilaboð misfarast. Það er þó rétt sem hv. þingmaður segir að upplýsingar hafa komið fram um að menn hafi gert sér vonir og væntingar um að fá að nýta heimildir frá árinu 2008. Að einhverju leyti hefur fjármálaráðuneytið staðið í samningum við einstaka stofnanir varðandi árið 2008 sem lið í því að undirbúa lokafjárlögin fyrir árið 2008 en það er líka rétt sem hefur komið fram að einstaka stofnanir virðast ekki hafa tekið þessum skilaboðum. Auðvitað verður að vinna úr því en þeim er t.d. alls ekki veitt heimild í fjáraukalögum. Viðkomandi aðilar verða að mæta á árinu og þá væntanlega á næsta ári þeim niðurskurði sem þeim var ætlaður, m.a. með fjáraukanum sem kemur til umræðu síðar í dag eða á morgun. Þar er einmitt mun harkalegar tekið á því ef menn fá ekki fjáraukatillögur eins og menn hafa á undanförnum árum getað gert út á. Mjög stór hluti hefur komið fram í leiðréttingum í fjáraukalögum. Það er nánast alveg tekið af og Ríkisendurskoðun hefur einmitt fagnað því að menn skuli vera farnir að beita þeirri reglu mun stífar og gefi skýrari skilaboð til stofnana að þau verði að starfa innan fjárlaga.

Varðandi verkstjórnina held ég að óhætt sé að fullyrða að hún hefur verið til mikillar fyrirmyndar og mikið gengið undan. Þar er unnið eftir því að hafa samráð við stofnanir og reyna að vinna það í sátt við starfsfólk ríkisins. Það er auðvitað mjög mikilvægt en tekur stundum aðeins lengri tíma. Eitt af því sem þarf að vinna úr er einmitt þessi tillaga um 4% og 10% sem ég kynnti áðan. Sú upphæð hefur mætt gagnrýni og þá verður að skoðast hvað sé eðlilegt í því sambandi, hvort 4% er of lág tala. Það er þó auðvitað mjög sérkennilegt að átta sig á því að hér voru inneignir einhvers staðar á milli 20 og 30 milljarðar sem hefðu hugsanlega komið inn í greiðslur á þessu ári ef ekki hefði verið stöðvað. Þær hefðu verið hrein og klár útgjöld fyrir ríkissjóð og það er auðvitað óásættanlegt þegar menn eru að vinna að niðurskurði og hagræðingu eins og við höfum verið að gera.