138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:44]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Svo ég fari í smálautarferð, frú forseti, væri nú gaman að hv. þingmaður greindi okkur frá því í síðari ræðum sínum hvað þetta góða er sem Sjálfstæðisflokkurinn, eins og hann segir, ber ábyrgð á. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. þingmann um fortíðina en ég hygg að ýmislegt af því sem Sjálfstæðisflokkurinn gerði hafi kannski átt þátt í því sem við erum að berjast við afleiðingarnar af núna. Ég rifja upp fyrir hv. þingmanni að það var einu sinni þingmaður hérna sem talaði um tifandi tímasprengju. Hún sprakk heldur betur.

Frú forseti. Það kemur fram hjá hv. þingmanni að hann getur ekki svarað mér því hversu stóran hlut Sjálfstæðisflokkurinn á af þeirri 50% útþenslu á ríkisútgjöldum sem hv. þingmaður nefnir að hafi átt sér stað hér síðustu tíu árin. Ég get upplýst hv. þingmann um að það er nánast allur parturinn, það var undir forustu Sjálfstæðisflokksins.

Það er alveg hárrétt hjá hv. þingmanni að við þær aðstæður sem við búum við núna þarf að sýna alveg sérstaka aðsjálni og fara út í hörgul í allt það sem varðar ríkisreksturinn. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um það. Hv. þingmaður vísar til hrunsins og segir að af þeim sökum þurfi auðvitað að taka á öllu. Ég spyr hv. þingmann: Giltu þau rök ekki líka fyrir einu ári? Þá var lagt hér fram fjárlagafrumvarp undir forustu Sjálfstæðisflokksins og ég spyr hv. þingmann: Þurfti þá ekki líka að taka á þessu? Ég spyr hv. þingmann vegna þess að hann var annar tveggja aðalhöfunda að fjárlagafrumvarpinu af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Í sjálfu sér þarf hv. þingmaður ekki að svara þessu en ég bendi honum bara á að þegar hann beitir núna keyri sínu á ríkisstjórnina tek ég því alveg eins og það er sagt. Ég er alveg sannfærður um að hann hefur að mörgu leyti rétt fyrir sér, en menn verða líka að horfa í eigin barm. Hann tilheyrir flokki sem var ábyrgur fyrir þessari þenslu og hann tilheyrir flokki sem lagði fram fjárlagafrumvarpið í fyrra. Hann bar meiri ábyrgð á því en margur annar. Þá sá ég ekki mikil merki um (Forseti hringir.) þessa stefnu sem hv. þingmaður kallar hér eftir.