138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:48]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir ágæta yfirferð og nokkuð veigamikið nefndarálit sem var nú bara að koma úr prentun þannig að ég hef ekki náð að lesa það nægilega vel. Ég vil líka þakka honum fyrir samstarfið í nefndinni hvað varðar ýmis mál. Þetta eru fyrstu fjárlögin sem ég sem nýr þingmaður fer í gegnum og ég vil taka undir með hv. þingmanni þegar hann nefnir að við eigum ekki að viðhafa gamaldags hanaslag, hvorki hér inni né í nefndinni, hvað varðar svona veigamikið mál.

Þegar ég fór að skoða þetta nefndarálit frá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum með fyrirvara vakti sérstaka athygli mína að bent er á ýmsar athugasemdir og breytingartillögur. Það vakti líka sérstaka athygli mína við vinnslu fjárlaganna í nefndinni að hv. þm. Guðbjartur Hannesson spurði ítrekað hvort einhverjar athugasemdir væru við eitt eða annað, hvort hv. þingmenn vildu koma að breytingum eða hugmyndum. Margt af því sem nefnt er í nefndaráliti Sjálfstæðisflokksins nefndu þeir ekki einu orði í nefndarstarfinu þegar óskað var eftir slíkum athugasemdum eða hugmyndum að breytingum. Þetta vekur því sérstaka furðu mína og mig langar að spyrja hv. þingmann á hvaða forsendum hann setji þetta fram nú en nefni þetta ekki einu orði inni í nefndarvinnunni þar sem þetta á heima?

Þegar kemur að skattatillögunum hjó ég eftir því í máli hv. þingmanns að hann kom inn á að Sjálfstæðisflokkurinn hefði tekið þátt í að byggja hér upp samfélag þar sem hófleg opinber álög hefðu verið höfð að leiðarljósi. Þá langar mig líka að spyrja hann hvort það sé ekki rétt og hvort hann telji ekki að við séum á réttri leið þegar við erum nú að jafna kjörin að hluta til og hverfa frá því að þeir sem breiðust hafi bökin taki ekki þátt með sama hætti í að greiða skatta (Forseti hringir.) og aðrir.