138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:53]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það er alveg rétt að þungamiðjan í þeim tillögum sem sjálfstæðismenn hafa lagt fram eru skattlagning á greiðslum inn í lífeyrissjóð. Af því hv. þingmaður kom svo sterklega inn á það langar mig að spyrja hvort hann hafi rætt þetta við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna. Auðvitað hefur ekkert verið útilokað í þessu, þetta er eitt af því sem verið er að skoða og ég veit ekki til þess að nokkur maður hafi útilokað þessa hugmynd. Mér finnst þetta samt svolítið einfalt og Sjálfstæðisflokkurinn að mörgu leyti vera að fara einfaldari leiðina í þessum málum. Mig langar að spyrja hann hvort hann telji að þetta hafi ekki áhrif á þau verkefni sem lífeyrissjóðirnir koma að og ætla að fjármagna? Þeir hafa nú ekki tekið vel í þetta.

Hv. þingmaður gagnrýnir meiri hlutann fyrir vinnubrögð en það var nú ekki lítið sem Sjálfstæðisflokkurinn hampaði tillögum sem þeir lögðu fram ekki alls fyrir löngu og töldust mjög ítarlegar tillögur að ríkisfjármálum, niðurskurði og öðru. Samt sem áður segir hér í nefndaráliti þeirra að þeir telji að það þurfi að skera meira niður en þeir eru ekki með neinar endanlegar útfærslur á þeim sparnaðartillögum og áskilja sér rétt til þess að skoða það í rólegheitunum þegar fram líður. Það hefði kannski verið spurning (Gripið fram í.) fyrir hv. þingmann að leggja meiri vinnu og tíma í einmitt þetta og koma fram með fullmótaðri tillögur. Það eina sem ég hef séð frá Sjálfstæðisflokknum eru tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna sem eru mjög ítarlegar og róttækar og samræmast líklega markmiðum þess sem hann vill leggja fram. Ég veit þó ekki hvort það yrði mjög heillavænlegt og vinsælt í hans kjördæmi, Norðausturkjördæmi, ef þær næðu fram að ganga.