138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr: Er búið að ræða við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna um þetta mál? Ég hef rætt við forsvarsmenn lífeyrissjóðanna. Ég hef líka rætt við eigendur lífeyrissjóðanna. Ég spyr á móti: Hafa stjórnarliðar rætt við skattgreiðendur um skattafrumvarpið? Mættum við fá að vita niðurstöður þeirra samræðna? Hið sama hlýtur að gilda um það.

Þegar stjórnarliðar tala um að þessi átta milljarða hagræðingarkrafa sem við í stjórnarandstöðunni leggjum fram sé ekki nægilega útfærð, hvernig skyldi nú standa á því? Ég nefndi áðan að áður en málið var tekið út úr fjárlaganefnd hafði liðið sólarhringur frá því við fengum tillögur ríkisstjórnarinnar, sem eru burðarstólpi í nefndaráliti meiri hlutans við fjárlagagerðina. Þegar maður lagðist yfir það og fékk ráðrúm til þess að stilla því upp eftir að málið var farið út, hvað kom þá í ljós? Jú, hallareksturinn var að aukast um 18,2 milljarða kr. Dettur einhverjum heilvita manni í hug að manni hafi ekki brugðið við slíkar upplýsingar? Hvernig í ósköpunum er hægt að fara fram á það að við komum með ítarlega útfærðar tillögur á sama tíma og okkur er ætlað að skila nefndaráliti á mánudagsmorgni þegar málið er tekið út í hádeginu á föstudegi? Við bjóðum hins vegar upp á að leggjast yfir það með stjórnarmeirihlutanum milli umræðna að auka hagræðinguna í ríkisrekstrinum vegna þess að okkur óar við þeirri stöðu sem við blasir á grunni þeirra tillagna sem fram eru lagðar. Frumjöfnuður fer úr því markmiði að vera 1,6% af vergri landsframleiðslu upp í 2,8%. Tökum á saman. (Forseti hringir.)