138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur aldrei hvarflað að mér að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason væri spilltur maður og ég hef aldrei haldið því fram beinlínis að hér væri spilling í gangi. Ég hef aftur á móti sagt opinberlega að úthlutun fjármuna úr fjárlaganefnd beri keim spillingar og eðli spillingar og hún gerir það einfaldlega í mínum huga þegar fjárveitingar eru með þeim hætti sem þær eru og ég horfi upp á. Ef menn hafa áhuga á því að styrkja þessi verkefni sem eru úti á landi, eiga menn að fjarlægja sig aðeins frá þeim persónulega. Það er einfaldlega eðlileg afgreiðsla á fjárveitingavaldinu að þingmenn séu ekki að fá klapp á bakið og myndabæklinga af sjálfum sér upp í fangið frá þeim sem koma fyrir nefndina til að biðja um peninga.

Eins og ég sagði í ræðu minni hef ég alltaf haldið því fram að mörg þessara verkefna úti á landi séu mjög þörf en við aðstæður sem við búum við í dag þar sem einfaldlega verður að forgangsraða útgjöldum ríkisins, ber ekki að forgangsraða þeim með þeim hætti að áhugamenn um jólasveina í Mývatnssveit fái peninga en Landspítalinn ekki. Það er röng forgangsröðun. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)