138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:24]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það var skemmtileg umræða sem skapaðist hér um trúna á jólasveinana og er ágætt að upplýsa það að ég trúi að sjálfsögðu á jólasveininn. Ég hef aldrei haft ástæðu til að efast um að þeir séu til og þangað til að einhver sannar annað mun ég halda minni barnslegu trú á þá og ég held að það sé ágætt að hefja ræðuna á þeim orðum.

Eins og kom fram hjá talsmanni 1. minni hluta, Kristjáni Þór Júlíussyni, gagnrýnum við í 1. minni hluta þau vinnubrögð sem hafa verið viðhöfð. Það má kannski segja að umræðan hafi verið svolítið dauf og ég held að það stafi aðallega af því að menn eru einfaldlega ekki alveg öruggir með þær tölur sem þeir bera hér á borð fyrir þjóðina. Ég bendi á að þær tölur sem bárust frá fjármálaráðuneytinu voru að breytast dag frá degi síðustu daga áður en þetta var tekið út sérstaklega varðandi sjóðstreymi. Þar skeikaði á tímabili einhverjum 6 milljörðum, svo breyttist það og þá stóðu 2 milljarðar út af borðinu. En þetta eru þvílíkar upphæðir að ég er ekki viss um að fólk almennt geri sér grein fyrir því um hver miklar fjárhæðir er að ræða í þessu samhengi.

Við framsóknarmenn höfum að undanförnu talað fyrir því að reynt verði með öllum ráðum að efla atvinnulífið. Við erum staddir á miðju stjórnmálanna og má kannski segja að við skerum okkur frá Sjálfstæðisflokknum og Vinstri grænum; frá Vinstri grænum í því að við viljum efla atvinnulífið og gera því kleift að standa undir öflugu velferðarkerfi með öllum þeim ráðum sem við eigum. Ég er þeirrar skoðunar að velferðarkerfið eigi að vera fyrir alla, óháð efnahag, stöðu og búsetu, ég tel mig vinstri sinnaðan í þeim efnum og hef verið á öndverðum meiði við Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu til dæmis. Ég sker mig svo sannarlega frá Samfylkingunni hvað varðar aðild að Evrópusambandinu. Ég vil meina að stefna þeirra sé svona meira á reiki, þeir hafa ekki þá sögu og þurfa ekki að standa skil á langri sögu og engin slík stefna kannski lögð fram, þeir sveiflast meira með vindinum að mínu mati. Auk þess tel ég að þeir sem vilja ganga inn í Evrópusambandið hvað sem það kostar séu um leið að taka upp þá hægri stefnu sem Evrópusambandið keyrir mjög markvisst að mínu mati.

Þetta er grunnurinn að því sem ég byggi mína pólitík á. Ég hef áhyggjur af því að hér sé verið að höggva skarð í það velferðarkerfi sem Framsóknarflokkurinn tók þátt í að byggja á sínum tíma. Þegar við skiluðum af okkur búi í heilbrigðisráðuneytinu gaf OECD út þann dóm að heilbrigðiskerfi okkar Íslendinga væri ekki bara vel statt og að aðrir ættu að taka það sér til fyrirmyndar, heldur væri líka sá árangur sem þar hefði náðst lofsverður.

Það sem áhyggjur mínar beinast nú að er að ekki sé verið að afla tekna, þ.e. að menn ætli að sækja tekjurnar úr atvinnulífinu og um leið skerða þann tekjupóst til mikilla muna, sem mun svo seinna meir bitna verulega á velferðar- og menntakerfi landsmanna.

Frá því að ég tók sæti á Alþingi hafa verið lögð fram þrjú fjárlagafrumvörp. Fyrir árið 2008 var það lagt fram af Sjálfstæðisflokki og Samfylkingu. Við gagnrýndum þá mjög að ríkisstjórnin væri að auka útgjaldaliðina um 20%. Við sögðum þá eftir að hafa verið í ríkisstjórn í þó nokkur ár að það væru veðrabrigði í lofti, við hefðum tekið þátt í að byggja upp efnahagslíf sem mætti líkja við hús þar sem styrkja þyrfti undirstöðurnar, húsið væri gott en menn þyrftu að styrkja undirstöðurnar og það mætti alls ekki byggja ofan á húsið. Það var einmitt það sem sú ríkisstjórn gerði, hún gætti ekki að undirstöðunum og ákvað að byggja ofan á það með 20% aukningu á þenslu sem var eitt af því sem mátti alls ekki á þeim tíma. Við vorum gagnrýndir fyrir það að vilja ekki taka þátt í eyðslufylliríinu sem þá átti sér stað en við vorum ábyrgir og ég held að reynslan og sagan hafi sýnt að sú ákvörðun sem var tekin þá hafi verið hárrétt; það var röng ákvörðun að auka ríkisútgjöldin um heil 20% á einu ári. Hér fór fram orðræða áðan milli talsmanns Sjálfstæðisflokksins og hæstv. utanríkisráðherra Össurar Skarphéðinssonar um það hverjir hefðu tekið þátt í þessari útgjaldaaukningu. Ég held að báðir flokkarnir verði að taka það til sín og má segja að sú ákvörðun, þegar menn ætluðu að gera allt fyrir alla vegna þess að ríkiskassinn átti að vera svo til skuldlaus, hafi verið mistök og þeir flokkar bera sameiginlega ábyrgð á því.

Ég ætla mér ekki að falla í þá gryfju, eins og margir hafa gert hér í umræðunni, að halda því fram að ástandið núna sé hinum og þessum að kenna. Ég held hins vegar að það sé afar brýnt að við lærum af mistökum síðustu ára. Þess vegna hef ég ekki gagnrýnt mjög harkalega þá ríkisstjórn sem var fyrir um ári síðan sem stóð frammi fyrir því erfiða verki að þurfa að umbylta fjárlögum á nokkrum vikum. Það var erfitt verkefni sem þurfti að fara í í kjölfar fjármálahrunsins. Við framsóknarmenn tókum líka ríkt tillit til þess og vorum sanngjarnir í okkar fjárlagagerð, en við tókum það hins vegar skýrt fram þá og ítrekum þá afstöðu okkar núna að menn verða að vera það stórir að geta komið fram og sagt: Við gerðum mistök. Og menn hafa gert mistök. Ég ætla ekki að taka þátt í kapphlaupinu um hverjum þetta allt er að kenna en ef við sem höfum tekið við keflinu ætlum ekki að læra af mistökum fortíðarinnar er afar illa komið fyrir þjóðinni að mínu mati.

Það er kannski á þeim forsendum sem ég gagnrýni hvað mest það fjárlagafrumvarp sem nú liggur frammi, að mér finnst ríkjandi meiri hluti ekki hafa tekið nægilegt tillit til þeirra mistaka sem hafa verið gerð á síðustu árum heldur keyra áfram sömu vinnubrögð, sem allir eru sammála um að þurfi að breyta og hv. þm. Þór Saari kom að í sinni ræðu að ef við breyttum ekki, hverjir þá? Ég tek heils hugar undir það með honum.

Í Icesave-umræðunni, sem fléttast svo sannarlega saman við þetta mál, sagði hv. þm. Ögmundur Jónasson að hann gagnrýndi verk eigin ríkisstjórnar fyrir að breyta ekki verklagi fyrri ríkisstjórnar og skipti þá engu máli hvaða flokkar voru þar við völd. Ég held að við eigum einmitt að taka orð hans og annarra alvarlega og læra af þeim, en það hefur ekki verið gert við gerð þessa fjárlagafrumvarps. Jafnvel þó að ríkisstjórnin sjálf hafi komið fram með fögur fyrirheit um að nú væri tíminn til að breyta vinnubrögðunum, hefur það ekki verið gert. Þeim orðum hefur ekki verið fylgt eftir með athöfnum.

Mig langar til að drepa hér niður, með leyfi forseta, í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra þar sem hún sagði um hin svokölluðu nýju vinnubrögð sem átti að viðhafa:

„Gamaldags skotgrafarhernaður sem of lengi hefur einkennt íslensk stjórnmál á ekki við á einum örlagaríkustu tímum í sögu þjóðarinnar. Það er kallað eftir þjóðarsamstöðu og það er kallað eftir nýjum vinnubrögðum. Það er kallað eftir gagnsæi, aukinni aðkomu almennings að ákvarðanatöku og lýðræðislegum vinnubrögðum í hvívetna.“

Þetta eru góð orð og þetta ætti í rauninni að vera það veganesti sem ný ríkisstjórn ynni með, en ég ætla að leyfa mér að fullyrða að nánast allt í þessum orðum hæstv. forsætisráðherra hafi verið vanefnt, hvert einasta.

Minni hlutinn í fjárlaganefnd hefur ítrekað boðið fram aðstoð sína við aðkomu að gerð fjárlagafrumvarpsins. Því hefur alfarið verið hafnað. Við buðum fram aðstoð okkar varðandi Icesave-frumvarpið og það náðist ágætissamstaða sem leiddi til laga nr. 96/2009. En eftir að þau lög voru sett hefur stjórnarmeirihlutinn algjörlega hunsað stjórnarandstöðuna. Það leiðir bara til ergelsis og pirrings, svo hlutirnir séu sagðir eins og þeir eru, og um leið verður umræðan ómálefnaleg á tímum þar sem stjórnmálamenn eiga og verða að taka sér tíma til að leggjast vandlega yfir hlutina og greina rétt frá röngu.

Áður en ég fer nánar í fjárlögin sjálf, verð ég að minnast á það að fyrir nokkrum dögum voru greidd atkvæði um einstakar greinar frumvarps sem varðar Icesave-samninginn. Eins og þjóðin veit skilur himinn og haf stjórnarmeirihlutann og stjórnarandstöðuna í þessu máli. Við erum að ræða hér tillögur stjórnarmeirihlutans þar sem þeir ætla sér, samkvæmt minnisblaði frá fjármálaráðuneytinu, að sækja rúma 57 milljarða af skatttekjum einstaklinga. Framsóknarflokkurinn eða minni hlutinn, 1. minni hluti hefur lagt til að þessar tekjur verði sóttar með því að leggja skatt á séreignarsparnað og þar eiga að nást 74 milljarðar. Þegar maður nefnir slíkar tölur hljóma þær gríðarlega háar. Þetta eru samt bara tveggja ára vextir af Icesave og ná ekki einu sinni upp í tveggja ára vexti af Icesave-samningnum sem íslenska ríkið, íslenska þjóðin á að borga á næstu árum. Okkur greinir á um hvernig við eigum að fara að því að sækja þetta fé, en allir þessir peningar fara nánast í vextina af Icesave og þá erum við ekki nálægt því að byrja að borga af höfuðstól til dæmis. En þetta er bara til að sýna fram á hvers lags monster, ef ég leyfi mér að sletta aðeins, Icesave-samningarnir og Icesave-skuldbindingarnar eru. Menn hafa enn þann dag í dag ekki hugmynd um hvernig íslenska þjóðarbúið á að greiða þessa peninga. Fjármunir verða ekki endalaust sóttir í vasa skattgreiðenda. Það er algerlega útilokað, sérstaklega þegar peningarnir fara ekki inn í hagkerfið heldur beint í það að borga skuld sem Íslendingum ber ekki einu sinni skylda til að greiða, eru neyddir til að greiða. Þetta eru hlutir sem menn verða að hafa á hreinu. Við getum sett þetta í annað samhengi þegar mönnum svíður að borga háa skatta. Tekjuskattur um 79 þúsund einstaklinga af um 180 þúsund skattgreiðendum fer í það að borga vextina af Icesave. Með öðrum orðum, tæpur helmingur þeirra sem greiða hér skatt, borgar hann beint í Icesave.

Við erum að ræða frumvarp sem er ekki einu sinni með Icesave-tölurnar innifaldar, þær er bara hvergi að finna. Auðvitað verður umræðan skökk og dauf þegar menn átta sig á því að á meðan fjárlaganefnd er að reyna að finna tekjur og setja peninga í einstaka mikilvæg verkefni úti um allt land, eigum við eftir að setja Icesave-tölurnar inn. Svo finnst mönnum skrýtið að stjórnarandstaðan fari fram á að það komi fram áhættumat, það verði gerð greining á því hverjar skuldirnar verða og menn kalli ítrekað eftir þeim upplýsingum. En það er ekki skrýtið þegar þessar fjárhæðir eru settar í samhengi.

Virðulegi forseti. Við framsóknarmenn höfum stundum verið sakaðir um að vera neikvæðir í umræðum. Mér hefur þótt sú umræða ósanngjörn. Það má vel vera að þegar maður bendir á að staða þjóðarbúsins sé hugsanlega verri en stjórnarliðar vilja vera láta, hljómi maður svartsýnn, en það sem við framsóknarmenn höfum verið að benda á er það að við viljum að þjóðin, landsmenn, fái að vita sannleikann, blákaldan veruleikann. Ég er þeirrar skoðunar að það verði ekki fyrr en að þjóðin veit hver staðan er, hvort sem menn telja hana slæma eða ekki, að hún geti farið að vinna sig út úr vandanum. Tölurnar, allar upplýsingar, verða að liggja fyrir. Þá fyrst geta menn farið að vinna sig út úr vandanum. Ég held að vandræðagangur ríkisstjórnarinnar helgist fyrst og fremst af því að hún hefur ekki tölurnar sjálf á hreinu. Ég held að það hafi komið bersýnilega í ljós á síðustu dögum í fjárlaganefnd þegar allar tölur um sjóðstreymi ríkissjóðs breyttust á nokkrum klukkutímum. Að sjálfsögðu fallast mönnum hendur þegar þeir átta sig á því að verklagið er með þessum hætti. Við ítrekum, framsóknarmenn, að við viljum vinna að því með ríkisstjórninni að koma öllu upp á borðið og þó að ég sé þeirrar skoðunar að verklagið hafi ekki verið nægilega gott, ber ég þá von í brjósti að það breytist og menn taki leiðbeiningum og athugasemdum í þá veru á jákvæðan hátt.

Í áliti 1. minni hluta kemur fram að í kjölfar hruns allra stærstu banka Íslands hafi erlendar skuldir íslenska ríkisins aukist verulega. Skiptir þá engu máli hvort litið er á vergar eða hreinar skuldir. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn nefndi í skýrslu sinni að hann teldi að erlendar skuldir Íslendinga hafi verið yfir 300%. Ég held að þau varnaðarorð og sú greining sem minni hlutinn hefur farið í, um að erlendar skuldir Íslendinga geti numið um 300% af vergri landsframleiðslu, beri að taka alvarlega. Við skulum minnast orða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem nefndi á sínum tíma að ef þetta skuldahlutfall færi yfir 240%, teldi hann að staða þjóða væri einfaldlega þannig að þær væru tæknilega gjaldþrota.

Nú sé ég að fræðimenn, forritarar og aðrir sem hafa skilning á þessum hlutum, segja að aðrar þjóðir séu hugsanlega með jafnslæmt skuldahlutfall. Ég er ekki viss um að það sé sanngjarnt að bera íslenska hagkerfið saman við t.d. breska hagkerfið sem er svo margfalt, margfalt stærra í sniðum en það hagkerfi sem við búum við. Við búum við sveiflur í okkar hagkerfi vegna þess að auðlindir okkar eru með þeim hætti. Það er ekki vitað fyrir fram hversu mikinn fisk við getum veitt úr sjónum og þess vegna reynum við að hafa stjórn á því með einum eða öðrum hætti, en það er sú tekjulind sem við höfum stólað á og munum stóla á í framtíðinni. Það hlýtur að skipta máli þegar skuldahlutfallið er orðið svona slæmt hversu stöðugt og stórt hagkerfið er. Það verður að takast með í reikninginn. Hreinar skuldir gætu numið um 80% af vergri landsframleiðslu í lok ársins 2009 og þá ber að horfa til þess að þó að það séu eignir þarna á móti, held ég að ekki detti nokkrum manni í hug að selja þær vegna mikilvægis þeirra.

Þegar menn líta á sjálfbærni skuldastöðunnar verða menn að horfa til verðmætis útflutnings, innflutnings, lánskjara erlendra lána og ávöxtunar erlendra eigna Íslendinga. Takist ekki að skapa gjaldeyri til að mæta vöxtum og afborgunum verða menn einfaldlega að horfa á leiðir eins og frekari lántökur og jafnvel sölu eigna. Þetta er í rauninni vandamálið sem við blasir, vandamálið sem við þurfum að horfa á hér á næstu árum. Greiðslubyrði af erlendum lánum er þung og hátt hlutfall af vöru- og þjónustujöfnuði og ef fisk- og álverð helst svipað og það er um þessar mundir geta Íslendingar lent í erfiðleikum með að borga af þeim erlendu lánum. Vonandi hækkar álverð og hvað þá fiskverðið og það mun og getur haft jákvæð áhrif, og í því sambandi styð ég heils hugar að í þessu árferði og við þessar aðstæður aukum við fiskveiðikvótann eins og 1. minni hluti leggur hér til.

Flutningsmaður 1. minnihlutaálits, Kristján Þór Júlíusson, fór ítarlega yfir þær tölur sem nefndar eru í álitinu. Ég ætla ekki að eyða miklum tíma í það en mig langar til þess að koma inn á þann áherslumun sem er á milli Framsóknarflokksins og ríkisstjórnarinnar annars vegar og Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hins vegar.

Meiri hlutinn leggur til að sækja eigi tekjurnar fyrst og fremst með því að skattleggja tekjur og fjármagnstekjur einstaklinga. Rætt er um að það eigi að gefa sér 123,1 milljarð kr. í stað 143,5 milljarða kr., sem er 20 milljarða kr. lægri fjárhæð en frumvarpið gerði ráð fyrir. Framsóknarflokkurinn telur afar mikilvægt að farið verði miklu betur yfir þær skattatillögur sem ríkisstjórnin hefur lagt fram. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mun ráðlegra að vinna með það einfalda skattkerfi sem þjóðin býr við. Það fylgir því mikill kostnaður að auka flækjustigið og fara í jafnstórfelldar breytingar og ríkisstjórnin ætlar að ráðast í núna rétt fyrir jól. Við verðum að taka það með í reikninginn að það eru aðeins 13 dagar síðan ríkisstjórnin lagði fram skattatillögur sínar þó að hún hafi haft um 13 mánuði til að skoða það hvernig hún ætlaði að auka tekjur ríkissjóðs.

Við framsóknarmenn höfum sagt að það sé miklu skynsamlegra og einfaldara að halda áfram með það kerfi sem nú er í gangi, flest okkar hafa haldið því fram, og ég er þeirrar skoðunar að það eigi miklu frekar að sækja tekjur með því að hækka tekjuskatt á einstaklinga en gæta jafnframt að þeim sem minna mega sín með því að hækka persónuafsláttinn um leið.

Við höfum líka og ég í mínu minnihlutaáliti tekið undir með Sjálfstæðisflokknum um að skattur á séreignarsparnað verði lagður á. Í minnihlutaálitinu kemur fram að hægt sé að ná þar í tekjur upp á 74,6 milljarða, sem er mun meira en ríkisstjórnin hefur lagt til. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt fram ítarlegar tillögur en við í Framsóknarflokknum teljum að það þurfi að fara betur yfir þær tillögur. Ég er sammála gjörningnum í sjálfu sér, tel reyndar að hægt sé að fara vægar í hann en hér er lagt til og ná fram sama tekjuauka og 1. minni hluti leggur til með því að hækka skattprósentuna og leggja um leið skatt á séreignarsparnað. Ég er þeirrar skoðunar að það sé mun hóflegra og skynsamlegra að fara blandaða leið þarna á milli og halda í það einfalda skattkerfi sem við höfum og að gæta um leið að því að skattleggja ekki allan séreignarsparnaðinn strax heldur skilja eitthvað eftir þar til að útgreiðslu kemur.

Í þessu felst fyrirvari minn við álitið fyrst og fremst en ég tek fram eins og aðrir sem hafa talað í þessari fjárlagaumræðu að þetta þarf að skoða ásamt fleiri tillögum. Það hefur í sjálfu sér ekki gefist nægilegur tími til að fara yfir allar þær tillögur sem lagðar hafa verið fram, þótt ekki hefði verið nema um tvo daga að ræða í því sambandi hefði það getað skipt gríðarlega miklu máli.

Ríkisstjórnin lagði til í sumar að sóttar yrðu tekjur og gjöld í hinum svokallaða bandormi. Ég held að það verði að gagnrýna það mjög harkalega að við höfum hvergi fengið að sjá það í fjárlaganefnd hvernig til hefur tekist. Það er einfaldlega svo að það átti að nást hagræðing með þeim gjörningi en það kemur hvergi fram, eins og Ríkisendurskoðun hefur ítrekað bent á, hvort þær aðgerðir hafa skilað árangri. Við verðum að hafa í huga að þá ákvað ríkisstjórnin, sem ég gagnrýndi mjög, að skerða tekjur til öryrkja og aldraðra um 3,5 milljarða á næsta ári, og um u.þ.b. 1,5 milljarða á þessu ári. Um leið var líka farið í það að setja hinn svokallaða áfengisskatt en ég held að engum blandist hugur um það núna að sá skattur hefur einfaldlega rýrnað í kjölfarið og er það miður að mínu mati.

Ég ætla í ræðu minni að fara yfir þær tillögur sem minni hlutinn leggur til, bæði varðandi gjöld og einnig hvar við teljum að bæta megi í. Áður en ég hef þá umfjöllun, vil ég vekja athygli á því að í tíð fyrri ríkisstjórnar voru sett lög um að persónuafsláttur ætti að hækka í samræmi við verðlag. Þetta eru tillögur sem voru samþykktar m.a. í tíð Framsóknarflokksins. Því til viðbótar samþykkti núverandi ríkisstjórn til lausnar á kjaradeilu á vinnumarkaði að hækka persónufrádrátt um 7.000 kr. í þrem áföngum. Nú hefur fyrsti áfanginn komist til framkvæmda en ríkisstjórnin hefur ákveðið að fella niður annan áfangann en láta þann þriðja sem nemur 2.000 kr. hækkun koma til framkvæmda á næsta ári. Um leið er gefið í skyn að þetta sé ný ákvörðun og alfarið ákvörðun nýju ríkisstjórnarinnar en því verður að halda til haga að það var búið að ákveða þessa hækkun með lögum.

Svo er eitt stórt verkefni sem við verðum að ræða að ríkisstjórninni hefur alfarið mistekist að takast á við meginverkefni sitt, að leysa skuldavanda heimilanna. Ég er þeirrar skoðunar að þær ákvarðanir sem hér er verið að taka komi til með að hækka skuldir verulega. Ég tel að þegar ríkisstjórnin heldur að hún hafi leyst einn vandann taki annar við og jafnframt sé hún um leið að ýta vandamálinu á undan sér. Þá verður líka að líta til þess að hækkun skatta veldur verri afkomu fyrirtækjanna í landinu, sem ýtir undir samdrátt í efnahagslífinu og stuðlar að auknu atvinnuleysi.

Virðulegi forseti. Fyrsti minni hluti leggur til að aflaheimildir verði auknar. Ég tel að það sé mjög mikilvægt og að sú ákvörðun verði tekin að höfðu samráði við hagsmunaaðila og vísindasamfélagið. Þar erum við að tala um að áætlað útflutningsverðmæti sjávarafurða gæti aukist um 28 milljarða kr. Atvinnutekjur, og þá erum við að tala um fólk sem býr í mörgum tilvikum úti á landi, gætu numið um 9,8 milljörðum kr. og beinar skatttekjur ríkissjóðs gætu numið allt að 3,5 milljörðum kr. Ef við metum áhrif aflaaukningarinnar á landsframleiðslu má þrefalda útflutningsverðmætin, sem gæti samkvæmt þessu aukið landsframleiðsluna um allt að 84 milljarða kr. Þar erum við að tala um gríðarlega mikil veltuáhrif.

Ég tel einnig mjög mikilvægt að gerð verði 10% almenn sparnaðarkrafa til stjórnsýslustofnana. Ef við metum saman heildarkostnað á aðalskrifstofum ráðuneytanna kemur í ljós að sparnaðurinn er mismikill. Til að mynda vekur það athygli að þrátt fyrir verkefnaflutning frá heilbrigðisráðuneytinu vaxa heildarútgjöld aðalskrifstofunnar um ríflega 8% á milli ára.

Þá leggur 1. minni hluti til að ráðstöfunarfé ráðherra verði afnumið. Þannig mætti spara um 47,3 millj. kr. til viðbótar við það sem meiri hlutinn hefur þegar lagt til. Um leið mætti líka spara risnu og veislur á vegum ráðuneytanna.

Það er kannski ágætt að benda á að meðan Alþingi hefur sætt miklum sparnaði — maður finnur það í því vinnuumhverfi sem við alþingismenn búum við — hafa einstakir ráðherrar verið að sanka að sér aðstoðarmönnum, pólitískt skipuðum. Ég held að það sé krafa, ekki bara okkar alþingismanna heldur samfélagsins alls, að ráðherrar taki á sig sömu skerðingu og aðrir.

Svo er eitt atriði sem ég tel afar mikilvægt og það er að 1. minni hluti leggur til að Vegagerðinni verði heimilað að nýta óhafnar fjárveitingar frá síðustu áramótum. Þannig verði framlag til vegamála aukið um 4,4 milljarða kr. og síðan verði því varið til mannaflsfrekra framkvæmda um land allt og frekar til smærri verkefna en stærri. Eins og við vitum sem búum úti á landi getur ein lítil aðgerð skipt samfélagið gríðarlega miklu máli, jafnvel þó umfangið sé ekki stórt þegar litið er til alls landsins.

Svo er lagt til að sóknaráætlun 20/20 verði felld út. Þegar fjárlaganefndarmenn fóru að grennslast fyrir um hvað þessi sóknaráætlun stæði fyrir, er það nú verulega á huldu. Hún hefur aldrei verið kynnt fyrir fjárlaganefnd. Þarna er um að ræða 25 millj. kr. sem forsætisráðuneytið ætlaði sér til að deila út til einhverra óskilgreindra verkefna, en lagt er til að það verði sparað.

Það eru mörg önnur brýn verkefni sem mér gefst ekki tækifæri til að fara hér yfir eins og það að við leggjum til að það verði aukið fjármagn til jöfnunar á námskostnaði, þannig að nemendum sem þurfa að fara langt í skóla verði áfram gert það kleift. Við leggjum einnig til að það komi fjármunir í húshitunarkostnað, ég held að það komi bændum sérstaklega til góða.

Eins og ég hef rakið í ræðu minni er mikill meiningarmunur á því verklagi sem stjórnarandstaðan hefði viljað viðhafa innan fjárlaganefndar og það er líka mikill meiningarmunur á því hvar menn ætla að sækja tekjurnar, það er ekki endalaust hægt að ganga í vasa almennings eða einstaklinga. Ég tel að það verði að skoða vel að skattleggja séreignarsparnaðinn og við framsóknarmenn leggjum því til (Forseti hringir.) að blönduð leið á milli þessara tveggja leiða verði skoðuð milli 2. og 3. umr., gefist færi á því. Verklagið hefur ekki verið nægilega gott (Forseti hringir.) en við vonum að það breytist.