138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:11]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég velti því oft fyrir mér þegar maður tekur þátt í hinu pólitíska harki hvort maður eigi að hrósa þeim sem kemur fram og segir: Ég ætla að skera svona hrikalega niður. Sami maður segir svo síðar: Sjáðu, ég ætla að taka til baka mína fyrri ákvörðun.

Ég gagnrýni þann harkalega niðurskurð sem á sér stað. (ÁED: Það er ekki í nefndarálitinu.) Ég gagnrýni að stjórnvöld skuli fara í þennan bratta niðurskurð. (ÁED: Þetta er ekki í álitinu.) Hér kemur hv. þingmaður og gagnrýnir það að við höfum ekki komið öllu inn í nefndarálitið sem er þó töluvert ítarlegt og vel unnið. En hvaða tími var gefinn til þess að vinna nefndarálitið? Hvaða tími var efnahags- og skattanefnd gefinn til þess að vinna þau álit sem fjárlaganefnd bað um? Enginn. Fór fjárlaganefnd yfir þau álit? Nei. Var það ekki meiri hluti fjárlaganefndar sem tók málið út, áttaði sig svo á því að það var ólöglegt vegna þess að efnahags- og skattanefnd átti eftir að skila sínu áliti?

Ég hef gagnrýnt Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og ég hef sagt að vera hans hér á landi sé landi og þjóð ekki til sóma, hvað þá þeirri ríkisstjórn sem hér er. (Gripið fram í.) Það er á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar sem Vinstri grænir eru m.a. þátttakendur í. Eitt sinn voru þeir þeirrar skoðunar að losa ætti þjóðina við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Ef ég man rétt töluðu frambjóðendur þannig fyrir síðustu kosningar. En við skulum hafa eitt á hreinu: Vinstri grænir hafa skipt um skoðun (Forseti hringir.) í öllum stærstu og veigamestu málunum, þar á meðal hvað varðar aðild að ESB.