138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:13]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg):

Forseti. Formaður fjárlaganefndar hefur farið í ítarlegu máli yfir þær breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 2010 frá því það var lagt fram hér á Alþingi í byrjun október sl.

Frumvarpið ber skýr merki þeirra efnahagslegu erfiðleika sem við eigum við að stríða, eins og gefur að skilja.

Það er einnig skýrt í frumvarpinu og málum því tengdu sem rædd verða hér á Alþingi samhliða frumvarpinu að farið verður inn á nýjar brautir við að afla ríkissjóði tekna þar sem leitast verður við að auka jöfnuð og sanngirni í skattheimtu, en okkur hefur borið verulega af þeirri braut á undanförnum árum.

Sömuleiðis verður leitað nýrra leiða við að draga saman í útgjöldum ríkisins þar sem sömu markmið verða höfð að leiðarljósi, þ.e. að auka jöfnuð, verja störf og þjónustu sem mest má og gæta sanngirni gagnvart íbúum landsins.

Líkt og áður hefur komið fram setja ríkisstjórnarflokkarnir sér það markmið að annað og betra vinnulag verði viðhaft við stjórn ríkisfjármála en oft hefur verið og efla eftirlitshlutverk fjárlaganefndar með framkvæmd fjárlaga sem og að fela þeim stofnunum sem með slíkt hlutverk fara, víðtækara hlutverk. Ekki er vanþörf á eins og hefði betur fyrr verið gripið til slíkra vinnubragða, eins og fjölmörg dæmi sýna.

Eins og ég sagði hefur formaður fjárlaganefndar farið í ítarlegu máli yfir breytingar sem gerðar hafa verið á frumvarpinu frá því að það var lagt hér fram í haust. Ég sé ekki ástæðu til að fara í það sem slíkt eða endurtaka það sem áður hefur komið fram en mun fjalla um frumvarpið út frá öðru sjónarhorni.

Í nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um endurskoðun ríkisreiknings er fjallað á ítarlegan hátt um þátt Seðlabankans í efnahagshruninu sem varð hér á síðasta ári sem og aðgerðum og/eða aðgerðaleysi stjórnenda bankans í aðdraganda hrunsins. Þar kemur fram m.a. að langtímaskuldbindingar ríkissjóðs tvöfölduðust ríflega á síðasta ári og munaði þar mestu um 270 milljarða yfirtöku ríkissjóðs á veðlánum Seðlabanka Íslands.

Seðlabankinn varð fyrir gífurlegu tjóni á árinu 2008 vegna ótryggra lána sem námu í árslok alls 345 milljörðum króna. Tap bankans af þessum sökum, sem var afskrifað strax í upphafi, nam um 75 milljörðum en ríkissjóður lagði bankanum til 270 milljarða kr. í formi skuldabréfs til að forða honum frá gjaldþroti.

Í lögum um Seðlabanka er skýrt kveðið á um skyldur hans og meginhlutverk við stjórn efnahagsmála hér á landi, eins og segir í lögunum með leyfi forseta:

„Seðlabanki Íslands skal sinna viðfangsefnum sem samrýmast hlutverki hans sem seðlabanka, svo sem að varðveita gjaldeyrisvarasjóð og að stuðla að virku og öruggu fjármálakerfi, þ.m.t. greiðslukerfi í landinu og við útlönd.“

Að mínu viti er augljóst að stjórnendur bankans hafa brugðist skyldum sínum hvað þetta varðar. Seðlabankinn stóð ekki vaktina, hann lengdi í taumnum þegar herða þurfti á og brást því hlutverki sínu að stuðla að virku og um leið öruggu fjármálaumhverfi eins og bankanum er þó skylt að gera lögum samkvæmt.

Eins og áður segir yfirtók ríkissjóður kröfur Seðlabankans vegna veðlána fjármálafyrirtækja til að forða honum frá gjaldþroti. 175 milljarðar voru afskrifaðir strax í upphafi en ríkissjóður afhenti bankanum síðan skuldabréf að upphæð 270 milljörðum kr. til að loka málinu.

Þess ber að geta að hér er um að ræða verðtryggð skuldabréf sem bera að auki 2,5% vexti sem eru umtalsvert óhagstæðari kjör en á öðrum lánum sem hafa verið til umræðu hér á Alþingi á undanförnum vikum og mánuðum.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar segir m.a. um aðkomu Seðlabankans að hruninu með leyfi forseta:

„Seðlabankinn leit á það sem lögbundið hlutverk sitt að veita innlendum fjármálastofnunum lausafjárfyrirgreiðslu eins og seðlabankar annarra ríkja voru að gera. Í samræmi við þetta veitti bankinn innlánsstofnunum umtalsverð veðlán. Fram hefur komið af hálfu forsvarsmanna bankans að hann taldi sér ekki heimilt að draga úr vexti bankakerfisins. Seðlabankinn sé „banki bankanna‘‘ og eigi að sjá fjármálakerfinu fyrir lausafé til skamms tíma.“

Ríkisendurskoðun heldur síðan áfram og segir, með leyfi forseta:

„Hins vegar liggur fyrir að ekkert hámark var á lánveitingunum svo lengi sem tryggingar voru veittar fyrir þeim.“

Í fréttum Sjónvarpsins föstudaginn 11. desember sl. bætir ríkisendurskoðandi því við að það hafi svo ekki verið fyrr en svo seint sem í ágúst á síðasta ári, nokkrum vikum fyrir hrunið, að Seðlabankinn herti kröfur sínar um veð í þeim bréfum sem kölluð hafa verið „ástarbréf“ og urðu bankanum að lokum að falli. Ef fyrr hefði verið brugðist við fyrirsjáanlegum erfiðleikum af hálfu Seðlabankans, að mati ríkisendurskoðanda, hefði tjón Íslands orðið mun minna. Meðal annars er í því sambandi fjallað með gagnrýnum hætti um þau viðskipti þegar hinir föllnu bankar öfluðu sér lausafjár með lánum frá minni fjármálafyrirtækjum sem síðan fengu lán hjá Seðlabankanum með veði í hinum ótryggu bréfum.

Um þann hluta segir m.a. í skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

„Spyrja má hvers vegna Seðlabankinn brást ekki fyrr við þessum „leik‘‘ bankanna og herti kröfur um veð gegn lánum til minni fjármálafyrirtækja.“

Það vekur ekki síður athygli að ríkisendurskoðandi gerir einnig ráð fyrir því að rannsóknarnefnd Alþingis sé nú þegar að rannsaka þátt Seðlabankans í efnahagshruninu og því megi búast við því að skýrsla nefndarinnar upplýsi enn frekar en áður hefur verið gert um ábyrgð stjórnenda Seðlabankans hvað þetta varðar.

Það er einnig rétt að vekja athygli á því að Ríkisendurskoðun telur að tap þjóðarinnar á Seðlabanka sínum verði meira en búast má við að verði vegna Icesave-ósómans sem ræddur hefur verið hér á Alþingi mánuðum saman.

Það kom svo fram hér á Alþingi morgun í máli hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra að fall Seðlabanka Íslands hafi verið stærsti einstaki þátturinn í falli bankanna á Íslandi.

Í því ljósi er áhugavert að velta því fyrir sér hvers vegna vægi falls Seðlabankans í umræðunni um efnahagshrunið á Íslandi er svo léttvægt sem það hefur verið í samanburði við Icesave-málið, svo dæmi sé tekið.

Fall Seðlabankans hefur nú þegar valdið gífurlegum skakkaföllum í efnahagslífi þjóðarinnar og eru þó ekki öll kurl enn komin til grafar hvað það varðar.

Þó að málefni Seðlabanka Íslands snerti ekki með beinum hætti gerð fjárlaga hverju sinni er staðan nú samt sem áður sú að fall bankans hefur haft miklar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf og þar með fjárhag ríkisins.

Það er af einnig full þörf á því að vekja athygli á þessum þætti í skýrslu Ríkisendurskoðunar við umræðu um fjárlög ársins 2010. Fleiri dæmi mætti einnig tína til af sama meiði sem sýna að full þörf er á að endurskoða leikreglurnar við fjármálastjórn ríkisins og stofnana þess.

Skýrsla Ríkisendurskoðunar er áminning um að við þurfum að tileinka okkur ný vinnubrögð á nær öllum sviðum efnahagslífsins og að herða þarf á regluverki um fjármálaviðskipti hér á landi líkt og þegar er byrjað að gera. Seðlabanki Íslands er þar ekki undanskilinn frekar en aðrar stofnanir.

Nú þegar okkur er að takast að koma landinu fyrir vind eftir hrunið er þörf á að endurskoða vinnulagið við efnahagsstjórnina með opnum huga og með það að markmiði að ná betri og varanlegri árangri en við höfum gert hingað til. Um það hljóta allir að vera sammála.

Lausatök í ríkisfjármálum heyra nú vonandi sögunni til og slíkt vinnulag verður vonandi hér eftir til eilífðar falið á sama ruslahaug sögunnar, eins og allt of margt annað sem reynslan á nú að hafa kennt okkur að hefði betur verið gert með öðrum hætti en reyndin er.

Eins og fram hefur komið er það álit fjárlaganefndar að vanda þurfi enn frekar en hingað til allan undirbúning að gerð fjárlaga. Fjárlaganefnd verður að sinna betur eftirlitshlutverki sínu en verið hefur og ráðuneyti og stofnanir ríkisins verða að gæta enn meira aðhalds í rekstri en hingað til.

Eins og fram kom í ræðu formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, hér fyrr í umræðunni er ætlunin er að setja á fót vinnuhóp innan nefndarinnar sem ætlað verður að fara yfir hugmyndir og ábendingar um hvernig gera megi betur á þessu sviði.

Efla þarf starfsemi þeirra stofnanna sem hafa það hlutverk að hafa eftirlit með rekstri ríkisins og einstakra stofnana þess. Gera verður meiri kröfur en hingað til hefur verið gert til þeirra sem höndla með fjármál ríkisins og auka verður ábyrgð þeirra sem hafa með höndum rekstur á vegum ríkisins.

Öllum lausatökum verður að linna ef við ætlum okkur á annað borð að læra af reynslunni og feta okkur inn á aðrar og tryggari brautir en við höfum verið á.

Við gerð næstu fjárlaga verðum við vonandi búin að móta okkur nýjar, betri og skilvirkari leiðir við að vinna að fjármálum ríkisins en hingað til hafa viðgengist. Það er full þörf á því, um það hljóta allir þingmenn að vera sammála.

Forseti. Í áliti Ríkisendurskoðunar á framkvæmd fjárlaga 2009, þ.e. fyrstu átta mánuði ársins, er m.a. fjallað um það frumvarp sem hér er til umræðu.

Þar segir m.a. af því tilefni, með leyfi forseta:

„Ríkisendurskoðun hefur á undanförnum árum margítrekað þá skoðun sína að fjáraukalög, eins og þeim hefur alla jafna verið beitt hér á landi, dragi verulega úr aga í fjármálum ríkisins. Nægir í þessu sambandi að benda á skýrslur um framkvæmd fjárlaga ársins 2006 og 2007.“

Ríkisendurskoðun heldur áfram, með leyfi forseta:

„Á undanförnum áratugum hafa fjárheimildir stofnana almennt hækkað í fjáraukalögum ólíkt því sem nú er útlit fyrir þegar til stendur að lækka þar fjárheimildir fjölmargra stofnana. Reglan hefur hingað til verið sú að þegar ráðuneyti hafa látið í ljós vilja til að auka fjárveitingar stofnana í fjáraukalögum hafa forstöðumenn þeirra alla jafna ekki gripið í taumana þótt rekstur færi fram úr heimildum. Þannig hefur viðbótarheimildum í raun verið ráðstafað fyrir fram, þ.e. áður en þær hlutu samþykkis Alþingis. Nú þegar til stendur að lækka fjárheimildir stofnana hefur orðið vart við tregðu hjá forstöðumönnum að bregðast við því fyrir fram á sama hátt. Þá er vísað til þess að Alþingi hafi samþykkt breytingar og því sé ekki hægt að ætlast til þess að unnið sé eftir þeim.“

Ríkisendurskoðun talar hér með skýrum og afdráttarlausum hætti um þau lausatök sem verið hafa á ríkisfjármálum síðustu árin og reyndar áratugina, eins og komist er að orði í áliti Ríkisendurskoðunar. Með þessu vill Ríkisendurskoðun vekja athygli á því að sá losarabragur sem greinilega hefur verið í fjármálum ríkisins á mörgum undanförnum árum að mati stofnunarinnar, verði að linna og sömuleiðis er hér um að ræða brýningu af hálfu Ríkisendurskoðunar til Alþingis um að gera betur. Áminning Ríkisendurskoðunar á að vera okkur hvatning til að gera betur en verið hefur og við eigum að taka henni sem sameiginlegri áskorun um að koma þessum málum í betri farveg.

Ríkisendurskoðun kemst að þeirri niðurstöðu í áliti sínu á framkvæmd fjárlaga fyrstu átta mánuði yfirstandandi árs að fagna beri þeim áherslum sem fram koma nú við stjórn efnahagsmála sem að áliti Ríkisendurskoðunar fela í sér skýr skilaboð til framkvæmdarvaldsins um að taka beri rekstrarvanda ríkisins föstum tökum.

Ríkisendurskoðun hefur farið yfir forsendur tekjuáætlunar fjármálaráðuneytisins frá því í sumar og sér ekki ástæðu til að ætla annað en að þær eigi að geta gengið eftir. Það kemur sömuleiðis fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að ljóst sé að stjórnvöldum hafi tekist að fylla í það gat sem um mitt ár leit út fyrir að yrði á tekjuhliðinni og rúmlega það, eins og segir í áliti stofnunarinnar. Ríkisendurskoðun bendir einnig á að þó að útlit hafi verið á því eftir fyrstu átta mánuði ársins að skattbreytingar þær sem ráðist var í sl. sumar muni ekki skila sér sem skyldi, hafi þær forðað því að tekjur hafi dregist jafnmikið saman og búist var við.

Það er álit Ríkisendurskoðunar að þar á bæ hafi vaknað vonir um að vænta megi betra vinnulags við stjórn ríkisfjármála en verið hefur og flestir ættu að vera sammála um að megi taka jákvæðum breytingum. Nú strax í byrjun næsta árs þarf að fara fram opin og frjó umræða hér á Alþingi, í stofnunum ríkisins og meðal starfsfólks og sem víðast um það hvernig fjárlagagerðinni verður háttað í framtíðinni. (Gripið fram í.)

Síðast í dag var haldinn blaðamannafundur á vegum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins hér á landi sem fór þar yfir stöðu ríkisfjármála hér á undanförnum missirum. Þar kemur fram að það er sameiginleg niðurstaða Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og stjórnvalda að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hafi leitt til þess að efnahagssamdráttur og atvinnuleysi er minna en gert var ráð fyrir í upphafi. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sér ástæðu til að fagna þeim áfanga sem náðst hefur við endurreisn efnahagslífsins.

Fjárlög síðasta árs voru unnin við óvenjulegar aðstæður, svo ekki sé fastar að orði kveðið og ástæðulaust að gera lítið úr því. Efnahagshrunið leiddi til þess að þá nýframlagt frumvarp til fjárlaga varð nánast í einni svipan að úreltu plaggi sem þurfti að endurvinna að stórum hluta á stuttum tíma áður en hægt var að afgreiða það endanlega frá Alþingi. Frumvarpið varð síðan að lögum hér á Alþingi án mótatkvæða, eftir því sem ég best veit, sem ber vitni um að allir þingmenn hafi gert sér vel grein fyrir þeim alvarleika sem við landsmönnum blasti á þessum tíma.

Það er því að nokkru leyti eðlilegt að ekki hafi allt gengið eftir sem ætlað var í fjárlögum ríkisins fyrir yfirstandandi ár og margt farið á annan veg. Í þeim lögum var m.a. gert ráð fyrir að halli á ríkissjóði yrði 153 milljarðar króna en fljótlega kom í ljós að hér var um verulegt vanmat að ræða.

Í febrúar 2009, tæpum tveim mánuðum eftir samþykkt fjárlaga, var ljóst að það stefndi í enn meiri hallarekstur en gert hafði verið ráð fyrir. Þá leit út fyrir að halli á ríkissjóði á yfirstandandi ári yrði allt að 20 milljörðum meiri en fjárlög ársins gerðu ráð fyrir.

Endurskoðun ríkisfjármála í maí sl. sem var gerð í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn benti til enn vaxandi halla á ríkissjóði. Var sýnt að ef ekki yrði gripið í taumana yrði halli ríkissjóðs tugum milljörðum meiri í ár en áætlað var og stefndi í enn frekara og óviðráðanlegra tap ef ekkert yrði að gert.

Strax eftir að ný ríkisstjórn var mynduð í sl. vor hófst mikil vinna við endurskoðun ríkisfjármála sem hafði það að markmiði að stöðva síaukinn halla á rekstri ríkisins. Afrakstur þeirrar vinnu birtist síðan í skýrslu um jöfnuð í ríkisfjármálum sem kynnt var á Alþingi. Í þeirri skýrslu kom fram áætlun þar sem dregin voru saman þau markmið í ríkisfjármálum sem íslensk stjórnvöld hafa einsett sér að ná á komandi árum og unnin hafa verið í samráði við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þau miða að því að koma á jafnvægi og stöðugleika í ríkisfjármálum og þjóðarbúskapnum og þar með að skapa forsendur fyrir nýja uppbyggingu í efnahags- og atvinnulífi.

Aðgerðir sumarsins gerðu ráð fyrir því að samdráttur í rekstri ríkisins ásamt nýjum tekjum mundi skila ríflega 20 milljörðum í ríkissjóð og koma þannig í veg fyrir frekari hallarekstur en orðinn var. Samkvæmt því sem Ríkisendurskoðun hefur komist að og samkvæmt þeirri niðurstöðu sem varð af fréttamannafundi Alþjóðgjaldeyrissjóðsins fyrr á þessum degi hefur árangurinn náðst að mestu leyti eins og til var ætlast.

Til að ná þessum árangri var m.a. ákveðið að ráðast í breytingar á skattkerfinu með það í huga að styrkja það jafnframt því að gæta meiri sanngirni í skattlagningu en áður. Breytingarnar eiga að verða til þess að jafnræðis sé gætt betur í skattlagningu og að skattbyrðin dreifist með eins sanngjörnum hætti og mögulegt er. Þar fyrir utan á með skattbreytingunum að ná meiri jöfnuði í tekjudreifingu í þjóðfélaginu og tryggja betur félagslegt öryggi. Einnig verður fetað inn á nýjar brautir við að tryggja þjóðinni sem mestan hlut í arði af nýtingu auðlinda hennar.

Í stuttu máli má segja að aðgerðir sumarsins hafi tekist að mestu eða öllu leyti, eins og ítrekað hefur verið af hálfu Ríkisendurskoðunar og nú síðast af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Með aðgerðum sumarsins voru lagðar línur varðandi ríkisfjármálin næstu árin og með þau markmið í huga var unnið að gerð frumvarpsins til fjárlaga ársins 2010 sem hér er til umræðu. Vissulega má segja að ef gripið hefði verið til kraftmeiri aðgerða í rekstri ríkisins strax í upphafi árs 2009 hefði mátt ná meiri og betri árangri en um það er ekki að ræða. Pólitískt ástand hér á landi gaf á þeim tíma kannski ekki mikið færi á að koma í framkvæmd nauðsynlegum aðgerðum eða að ná árangri í þeim efnum. Það breytir því þó ekki að okkur hefði vegnað mun betur fyrr á árinu ef fyrr hefði verið gripið í taumana.

Forseti. Það vakti hjá mér undrun við gerð fjárlagafrumvarpsins, sem ég kem nú að í fyrsta skipti, hve illa leiknar margar stofnanir ríkisins virðast vera og hve veikar þær fjárhagslegu stoðir eru sem bera velferðarkerfið okkar uppi. Sama á við um fjölbreytt starf og rekstur annarra aðila um land allt sem haldið hafa úti starfsemi sinni í samstarfi eða samvinnu við ríkið. Má þar nefna margvíslega starfsemi í félags- og velferðarmálum, í menningar- og listalífi og nánast hvert sem litið er.

Þegar á reyndi virðast fjárhagslegar stoðir samfélagsins bæði hafa verið veikar og fúnar og varla nægilega styrkar til að bera uppi þá þjónustu sem við ætluðumst til að fá. Þá kom í ljós að hvergi virtist hafa verið borð fyrir báru, boginn var spenntur til hins ýtrasta og hvergi mátti út af bregða til að illa færi.

Það er því von að spurt sé hvað hafi orðið um allt góðærið, hvað hafi orðið um alla peningana sem virtust flæða hér um götur og stræti landsins um langan tíma. Hvernig stendur á því að okkur, þessari ríku og vel menntuðu þjóð, tókst ekki betur til en svo að í stað þess að treysta grunninn, efla innviðina, styrkja stoðirnar betur en við gerðum, lítur út fyrir að við höfum sóað þjóðarauðnum að mestu og safnað meiri skuldum en nokkru sinni í sögu lýðveldisins?

Kannski er niðurstaðan sú að við höfum ekki efni á því að halda uppi þeirri þjónustu sem við teljum okkur þurfa á að halda, að við stöndum ekki undir því að reka menntakerfi, heilbrigðiskerfi og félagslega þjónustu með þeim hætti sem höfum verið að reyna að gera fram til þessa. Það verður þá líka svo að vera og við þurfum að laga okkur að raunverulegri getu okkar í stað þess sem okkur langar til að gera en getum ekki staðið undir.

Vonandi verður þessi sára reynsla til þess að við, öll sem eitt, náum að læra af henni og munum hér eftir forgangsraða upp á nýtt og byggja á því sem við eigum og getum, byggja á traustu bjargi í stað þess sem að fara að ráðum þess heimska manns sem reisti hús sitt á sandi.

Í verkefnaskrá ríkisstjórnar Samfylkingarinnar og Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs segir m.a., með leyfi forseta:

„Félags- og tryggingamálaráðuneytinu og fjármálaráðuneytinu verður falið að meta sérstaklega áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna. Ríkisstjórnin er einhuga um að við endurreisn íslensks efnahagslífs og uppbyggingu faglegra stjórnunarhátta verði jafnrétti kynjanna haft að leiðarljósi.“

Hinn 10. febrúar sl. samþykkti ríkisstjórnin síðan í samræmi við framangreinda yfirlýsingu að setja á fót vinnuhóp til að meta áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna og var þáverandi félags- og tryggingamálaráðherra falið að skipa í hópinn. Í vinnuhópinn, sem gengur undir nafninu „jafnréttisvaktin“, voru skipaðir fulltrúar frá félags- og tryggingamálaráðuneyti, fjármálaráðuneyti, heilbrigðisráðuneyti, Jafnréttisráði og Jafnréttisstofu.

Í áfangaskýrslu jafnréttisvaktarinnar, sem kynnt hefur verið í ríkisstjórn, er lögð áhersla á mikilvægi þess að stjórnvöld hafi ávallt jafnréttis- og kynjasjónarmið að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku. Jafnframt er lögð áhersla á að áhrif á stöðu kynjanna verði metin við allar ákvarðanir stjórnvalda, sérstaklega við allar breytingar í rekstri hjá hinu opinbera og í atvinnuskapandi aðgerðum. Efla verði hlutverk jafnréttisfulltrúa ráðuneytanna sem snúa að því að vakta áhrif efnahagsþrenginga og að lokum en ekki síst að tekin verði upp aðferðafræði kynjaðrar hagstjórnar við fjárlagagerð.

Í lok apríl 2009 skipaði fjármálaráðherra verkefnisstjórn um stefnumótun og undirbúning að kynjaðri hagstjórn og fjárlagagerð í samræmi við áður nefnd áform ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum. Samkvæmt erindisbréfi verkefnisstjórnarinnar er hlutverk hennar að vinna álit og tillögur um aðgerðir til að innleiða leikreglur kynjaðrar fjárlagagerðar. Vinna verkefnisstjórnarinnar er þegar hafin en hins vegar er ljóst er að kynjuð fjárlagagerð krefst mikils undirbúnings og verður ekki komið á nema í áföngum. Markmiðið er að við gerð fjárlagafrumvarps ársins 2011 verði fyrsta skrefið stigið við innleiðingu kynjaðrar fjárlagagerðar á Íslandi á grundvelli tillagna frá verkefnisstjórninni.

Kynjajafnrétti er einn af hornsteinum þess þjóðfélags sem við viljum byggja. Í þeim anda eru nú í fyrsta sinn sett fram þau markmið að kynjasjónarmið verði höfð að leiðarljósi við gerð fjárlaga.

Um þetta segir m.a. í fjárlagafrumvarpi því sem við ræðum hér, með leyfi forseta:

„Við ákvarðanir um útgjaldaramma til næstu fjögurra ára verði lögð áhersla á samstöðu um brýn velferðarverkefni, verndun starfa, kynjajafnrétti og áhrif á byggðirnar. Kynjuð hagstjórn verður höfð að leiðarljósi við fjárlagagerð og efnahagsstjórn. […] Brýnt er að verja störf samhliða því sem gripið verði til aðgerða til að störfum fjölgi. Allar aðgerðir taka mið af ólíkri stöðu kynjanna og mismunandi áhrifum á byggðir landsins. […] Áhrif kvenna í endurreisninni verði tryggð. Því mun ríkisstjórnin beita sér fyrir því að jafna hlutfall kynjanna á öllum sviðum samfélagsins og grípa til sértækra aðgerða sé þess þörf. Jafnframt verði kynjasjónarmið höfð að leiðarljósi í aðgerðum til atvinnusköpunar svo þær gagnist bæði körlum og konum með fjölbreyttan bakgrunn.“

Kynjuð fjárlagagerð verður ekki unnin af hópi sérfræðinga heldur verður hún á hendi þeirra sem eru að vinna frá degi til dags við útfærslu og innleiðingu á opinberri stefnu. Stærstur hluti verksins verður þannig unninn af kjörnum fulltrúum, embættismönnum og öðrum starfsmönnum.

Kynjuð hagstjórn og fjárlagagerð er afar metnaðarfullt verkefni sem kallar á umbyltingu í hugsun og verki. Hún felur í sér að fleiri hagsmunaaðilar komi að hinu eiginlega fjárlagaferli en hingað til, sem aftur felur í sér endurskipulagningu út frá jafnréttissjónarmiðum.

Áður en lagt er af stað í þá vegferð að taka upp kynjaða hagstjórn verða aðilar að gera sér ljósa grein fyrir því að verkefnið kallar á mikla vinnu og í flestum tilvikum á breytt skipulag hjá þeim aðilum sem að ferlinu koma. Því skiptir öllu að faglega sé staðið að undirbúningi að slíku verkefni og að skrefin sem tekin verða í fyrsta áfanga verði hæfilega stór.

Nú má örugglega og með góðum rökum halda því fram að betur hefði mátt takast til á þessu sviði við gerð þess frumvarps sem við ræðum hér en raunin er. Það verður að segjast eins og er að vinna við gerð fjárlagafrumvarpsins hefur að þessu sinni sem oftast áður verið unnin af körlum að miklum meiri hluta (Gripið fram í.) og konur hafa ekki haft þann aðgang að fjárlagagerðinni sem nauðsynlegt er að verði. Karlar eru, að því er mér virðist, í meiri hluta þeirra embættismanna sem komu á fundi fjárlaganefndar og karlar voru sömuleiðis í talsverðum meiri hluta þeirra gesta sem heimsóttu fjárlaganefnd við vinnslu fjárlagafrumvarpsins.

Á því eru margar skýringar sem ég ætla ekki að fara út í hér en ég vil hins vegar vekja athygli á því að með því frumvarpi sem við ræðum hér er verið að reyna að feta inn á nýjar brautir og það mun taka tíma að ná árangri á þessu sviði. Hver sá tími verður er undir okkur sjálfum komið, þingmönnum og ráðherrum. Við skulum heita okkur því að ná fljótt og vel árangri sem við getum verið stolt af og í leiðinni að auka jöfnuð í þjóðfélaginu sem skilar okkur öllum að lokum betri lífsskilyrðum.

Fjárlagagerð og efnahagsstjórn snertir alla landsmenn með beinum eða óbeinum hætti. Efnahagslíf þjóðar hefur áhrif á líf íbúanna, jafnt konur sem karla, og það er þekkt að efnahagsþrengingar koma oftast næst verr niður á konum en körlum. Ég er þess fullviss að ef aðkoma beggja kynja að efnahagsstjórn landa heimsins á síðustu árum hefði verið jafnari en raunin er, værum við ekki að glíma við vanda af þeirri stærðargráðu sem við erum þó að slást við í dag. Það er því brýn nauðsyn að mínu mati að við gerum betur og að við hættum ekki fyrr en fullur jöfnuður hefur náðst á þessum sviðum. Ég ætlast til þess að þegar í upphafi næsta árs verði jafnréttisvaktin virkjuð til að rýna fjárlagagerðina sem við ræðum hér með markmið ríkisstjórnarinnar í huga og að fljótlega á næsta ári liggi fyrir álit hópsins á því hvernig til hefur tekist og þá jafnframt hvernig gera megi betur.

Forseti. Fjárlög hvers árs fela ekki aðeins í sér krónur og aura, hvernig peningum er ráðstafað til ólíkra verkefna, þó að augu flestra beinist skiljanlega að þessum þætti, jafnmikilvægur og hann er. Fjárlög fela líka í sér stefnumörkun, skilaboð um það í hvaða átt Alþingi vill leiða þjóðina, að hverju skuli stefnt í hverjum málaflokki fyrir sig og hvernig leysa skuli þau vandamál sem við er að glíma hverju sinni.

Fjárlög hvers árs eiga að fela í sér fyrirheit um framtíðina um það hvers konar samfélag við viljum skapa hér og búa í. Að mínu viti er að finna slík fyrirheit í því frumvarpi sem við ræðum hér í dag.