138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:51]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir spurningarnar og viðbrögðin við ræðu minni. Ég held að það hafi ekki komið fram í máli mínu að hér hafi verið um ólöglegt athæfi að ræða af hálfu Seðlabankans. Ef það hefur skilist þannig dreg ég það til baka. Ég held að ég hafi ekki einu sinni gefið það í skyn.

Ég vakti athygli á því fyrr í morgun í fyrirspurn minni til hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra Gylfa Magnússonar hvort ekki bæri að taka málefni Seðlabankans sérstaklega upp, og kannski sérstaklega æðsta stjórnandans, því að það virðist vera hafið yfir allan grun að starfsmenn bankans unnu eftir öllum þeim vinnureglum sem þeim bar að gera varðandi starfsemi bankans á undanförnum árum.

Spurningin er ekki hvort hér hafi verið um ólöglegt athæfi að ræða, ég tel ekki svo vera, en ég tel hins vegar að ábyrgð æðstu stjórnenda Seðlabankans sé gífurlega mikil. Tap ríkisins af falli Seðlabankans er gífurlega mikið. Líkt og kom fram hjá hæstv. ráðherra í morgun er tap ríkisins af falli Seðlabankans stærsti einstaki þátturinn í falli bankanna, að meðtöldu Icesave. Við skulum átta okkur á því.

Í fjáraukalögum síðasta árs samþykktu þingmenn, a.m.k. þingmenn meiri hlutans, fjárlagafrumvarp þar sem gert var ráð fyrir að 270 milljarðar yrðu lagðir til Seðlabankans. Í fjárlagafrumvarpi síðasta árs samþykktu þingmenn stjórnarmeirihlutans fjárlagahalla upp á 153 milljarða sem þá blasti við. Samanlagðar þessar upphæðir á þeim vöxtum sem ríkið lagði inn til Seðlabankans — þ.e. á bréfinu sem ríkið lagði til Seðlabankans, þessir 270 milljarðar — samanlagðar þessar upphæðir ásamt vöxtum til ársins 2016 þegar Icesave-skuldbindingin verður (Forseti hringir.) gild, svo við tökum það sem viðmiðun, er talsvert mikið hærri en búast má við að (Forseti hringir.) umrædd Icesave-skuld verði.