138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[16:56]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni, varaformanni fjárlaganefndar, fyrir ágæta ræðu. Hann er enn þá í fortíðarhyggjunni og horfir til baka. Það er eins og ríkisstjórnin hafi ekki tekið við fyrir ellefu mánuðum. Hún er enn þá sem messagutti og allt er einhverjum öðrum að kenna. Ég man þá eftir því sem sagt er á íslensku „árinni kennir illur ræðari“, af því að hv. ræðumaður er sjómaður.

Hann segir að fleiri hagsmunaaðilar komi að fjárlagagerðinni. Meira að segja nefndir þingsins komu ekki að fjárlagagerðinni. Málið var rifið út úr fjárlaganefnd í tvígang, sett inn aftur og umsögn efnahags- og skattanefndar var keyrð í gegn með offorsi þannig að það komu nú ekki margir að þessari fjárlagagerð. Hún er alfarið á hendi örfárra þingmanna. Aðrir þingmenn, hvað þá stjórnarandstaðan, komu ekkert að þessu og hvað þá einhver kynjuð hagstjórn. Mig langar til að spyrja í því samhengi, herra forseti, hversu margar konur eru sjómenn og skipstjórar, talandi um kynjaða hagstjórn? (Gripið fram í.) Skipstjórnarmenn já, kynjaskipstjórn.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hvernig stendur á því að í fjárlagafrumvarpinu er ekki orð um Icesave, svo sem ekki tekið tillit til þeirrar skuldbindingar, eða um tónlistarhúsið og marga aðra þætti sem eru duldir og eiga víst að bíða ég veit ekki hvað lengi?