138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vísa til umsagnar efnahags- og skattanefndar, eða 1. minni hluta hennar, til fjárlaganefndar sem má finna á þskj. 383 og þingmenn geta kynnt sér. Ég mun aðallega fjalla nokkuð um tekjuhlið frumvarpsins eðli málsins samkvæmt því að efnahags- og skattanefnd fjallar um hana, kannski þó aðeins fyrst um útgjaldahliðina. Hér er á milli umræðna verið að bæta í á útgjaldahliðinni um 5 milljörðum króna sem gerir það þá að verkum að í krónutölu verða útgjöldin á næsta ári hærri en þau eru nú. En þau lækka verulega að raungildi á milli ára og ég held að það sem er kannski mikilvægast á þeirri hliðinni sé aðhaldið og eftirfylgnin. Það er sannarlega jákvætt að sjá þær vísbendingar sem við erum að fá í fjáraukalögum fyrir yfirstandandi ár um að hallinn verði heldur minni en menn töldu að hann yrði. Það er mikill viðsnúningur frá því sem verið hefur um langt árabil þar sem útgjöld hafa iðulega, ár eftir ár, farið langt fram úr þeim áætlunum sem fram eru lagðar. Ég held að það sé kannski mikilvægasta verkefnið á þessu stigi, í viðsnúningnum í ríkisrekstrinum, að halda aftur af útgjöldum en sjá líka til þess að þau fjárlög sem hér eru samþykkt séu virt, að þau haldi, að þeim sé framfylgt alls staðar úti í kerfinu og í því sé fyrsti og mikilvægasti áfangi sem við þurfum að sækja á útgjaldahliðina.

Eins og þingmenn þekkja var í sumar gerð áætlun um það hvernig ætti að brúa á nokkrum árum þetta risastóra gat í ríkisrekstrinum sem er á milli tekna og gjalda. Í meginatriðum er gert ráð fyrir því að ívið stærri hlutur þess komi af gjaldahliðinni eða 55% en að tekjuhliðin standi undir því að brúa tæplega helminginn af þessum halla á nokkrum árum eða 45%. Hins vegar er meira lagt á tekjuhliðina og skattana á þessum upphafsmánuðum tímabilsins og fyrsta ári enda eru þær ákvarðanir sem við tökum og varða tekjuhliðina mun skjótvirkari en þær sem varða galdahliðina. Það tekur tíma að skera niður í ríkisrekstri. Til þess þarf að breyta skipulagi og gera margvíslegar ráðstafanir sem eru einfaldlega tímafrekar og þess vegna ekki óeðlilegt að ívið meira leggist á tekjuhliðina í upphafi tímabilsins en gert er ráð fyrir að geri að jafnaði yfir tímabilið.

Ég held að við 2. umr. fjárlaga getum við sannarlega, hvað tekjuhliðina varðar, verið býsna ánægð með þær breytingar sem orðið hafa frá því að mælt var fyrir fjárlagafrumvarpinu 1. október. Ég mun fara aðeins yfir það í máli mínu en verð þó að byrja á því að undirstrika að við erum hér við ákaflega sérstakar aðstæður í íslensku samfélagi, efnahagslífi og ríkisfjármálum að takast á við þetta gríðarlega stóra verkefni. Hluti af því lýsir sér í því að tillögur eru seint fram komnar, skattamálin eru til að mynda tiltölulega nýbyrjuð í umfjöllun í efnahags- og skattanefnd, sem hóf umfjöllun milli 1. og 2. umr. um miðja síðustu viku.

Með góðri vinnu, samhentu átaki allra nefndarmanna, hefur þó tekist að ljúka gestakomum fyrir nefndina vegna þeirra mála. Það eru komnar fram umsagnir frá fjölmörgum aðilum og ég hygg að nefndarmenn búi yfir nokkuð góðri yfirsýn yfir stöðu mála þó að enn eigi eftir að taka ákvarðanir um þær breytingar sem gera þarf á frumvarpinu og þeim áhrifum sem þær breytingar geta haft. Ég tel þó að það hafi engin megináhrif á tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins, ekki séu fyrirsjáanlegar breytingar á skattafrumvarpinu í neinu því umfangi né hafi neinir þeir annmarkar komið fram á málinu við umfjöllun í nefnd sem gefi ástæðu til annars en ætla að í öllum meginatriðum nái sú tekjuöflun sem frumvörpin gera ráð fyrir fram að ganga.

Kannski er helst ástæða til að lýsa yfir ánægju með það milli umræðna að sú tekjuöflun sem gert var ráð fyrir í frumvarpinu við 1. umr. í tekjuskatti einstaklinga er nú eftir breytingar miklum mun minni en þá var ætlað eða sem nemur um 20 milljörðum kr. Gert var ráð fyrir því að tekjuskattur einstaklinga og fjármagnstekjuskatturinn mundu saman skila um 143 milljörðum sem frá núverandi tekjuskattsstigi í landinu hefði verið gríðarlega mikil hækkun. Það helgaðist auðvitað af þeim dökku horfum sem voru í efnahagsmálum á haustdögum og þeirri miklu aðhaldskröfu sem var við framlagningu frumvarpsins. Síðan hefur tvennt lagst á eitt og þó einkum það að hér eru betri horfur, m.a. hvað varðar vaxtagreiðslur ríkissjóðs og skuldastöðu. Það hefur því tekist að draga úr aðhaldskröfunni þannig að nú er gert ráð fyrir tæplega 10 milljarða minni tekjuöflun í heild. Þetta hefur þau áhrif á tekjuskattinn sjálfan að það tekst að haga honum með þeim hætti að í þeirri kerfisbreytingu sem gerð er í þriggja þrepa tekjuskatt þá speglar hún engu að síður að mörgu leyti svipaða álagningu eins og er í núverandi tekjuskattskerfi, tveggja þrepa kerfinu, og miðar að því að fólk undir 270 þús. kr. þurfi ekki að greiða hærri skatta á komandi ári og að álögum á hópana þar fyrir ofan sé stillt í hóf eins og frekast er kostur og fólk sé kannski að hækka í sköttum á bilinu 0–2%. Ég held að menn geti verið nokkuð sammála um að þar sé, miðað við þær aðstæður sem við búum við, reynt að stilla hækkun álagningar í hóf eins og hægt er og ekki sé um slíkt inngrip að ræða að ástæða sé til að ætla annað en spárnar um tekjuöflun af því muni í meginatriðum ganga eftir.

Það sem hjálpar til eru ákvarðanir um að láta ýmsa aðra þætti bera byrðar heldur en tekjuskatt einstaklinga. Þar er auðvitað á ferðinni talsverð hækkun á fjármagnstekjuskattinum og þar er innleitt frítekjumark fyrir venjulegt fólk sem er með lítils háttar sparnað. Einnig er verið að leggja talsvert af álögum á atvinnulífið, annars vegar í formi umhverfis- og auðlindagjalda en síðan — og það raunar vegna áherslunnar frá atvinnulífinu í formi hækkunar á tryggingagjaldi sem hér hefur verið nefnd og er sannarlega umdeilanleg á tímum eins og þeim sem við lifum þegar miklu skiptir að auka á atvinnuna, og býsna hraustlega gert af atvinnulífinu, fyrst í sumar þegar þeir höfðu frumkvæði að því að leggja til hækkun á tryggingagjaldinu til að standa undir útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs. Á hitt ber að líta að það hefur verið sjónarmið í atvinnulífinu að það standi alltaf til lengri tíma undir útgjöldum Atvinnuleysistryggingasjóðs og betra sé fyrir það að taka þau gjöld til sín heldur en fá varanlegar skattahækkanir inn í skattkerfið. Þær verða þó nokkrar eins og kunnugt er í auðlinda- og umhverfisgjöldunum sem gert er ráð fyrir að skili um 5 milljörðum kr. Þá skila neysluskattabreytingar, ásamt nauðungargjöldum ríkissjóðs, á 2. tug milljarða en þar er því þannig háttað, eins og um ýmsa aðra tekjustofna, að það mun ráða miklu um árangurinn að tekjustofnarnir dragist ekki óhóflega saman. Það er vandasamt samspil að leggja ekki of mikið á tekjustofnana til að þeir skreppi ekki saman og skilji ríkissjóð eftir með minni tekjur eftir en áður og alveg ljóst að ýmsar tekjuspár munu ef til vill ekki ganga fyllilega eftir en þar þurfa skattarnir ekki að vera ráðandi stærð heldur einfaldlega sá samdráttur í einkaneyslu sem orðið hefur og hefur haft ákveðin áhrif á tekjur ríkissjóðs nú þegar á yfirstandandi ári.

Ég held að heilt yfir megi segja að þær breytingar sem hér eru að verða milli umræðna á tekjuþættinum séu sannarlega jákvæðar og útlit sé fyrir að í öllum meginatriðum muni þau frumvörp sem fram eru komin ganga eftir í þinginu, vona ég, og tekjuöflun sú sem þau gera ráð fyrir sé í öllum meginatriðum með þeim hætti að líkur séu á því að hún gangi eftir.

Við sem höfum verið lengi við umfjöllun um fjárlagafrumvarpið þekkjum það að sjálfar forsendur frumvarpsins hafa iðulega tekið miklum breytingum frá 1. október og fram undir jól þegar þjóðhagsstærðir komandi árs eru endurmetnar á tímabilinu vegna ýmissa breytinga. Það er að gerast núna og hefur verið að gerast og við lifum slíka óvissutíma að það er viðbúið að ýmislegt það geti orðið sem hefur áhrif á og breytir forsendum okkar. En ég vil þó segja að við þá yfirferð sem við höfðum um þjóðhagsforsendurnar í efnahags- og skattanefnd vakti það athygli hversu mikill samhljómur var með þeim aðilum sem hafa verið að rýna í þjóðhagsforsendurnar og þær mjög skiptu skoðanir, kannski sérstaklega á milli fjármálaráðuneytisins og Seðlabankans, sem stundum hefur orðið vart við í fjárlagagerðinni, kannski ekki síst hvað varðar mat á framleiðsluspennunni í samfélaginu — það sýnist að slíkri ósamkvæmni í sýn manna á komandi ár sé ekki til að dreifa í þeim mæli sem verið hefur. Það styrkir okkur í þeirri skoðun að miðað við þær upplýsingar sem við nú höfum og getum grundvallað þessar áætlanir á þá séu þær vel úr garði gerðar.