138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ágætisræðu, ég get tekið undir margt með honum en þó reyndar ekki allt. En ég tek hins vegar undir það með honum að búið er að vera ákveðið aðhaldsleysi og lausatök í ríkisfjármálunum undanfarin ár, þar deili ég skoðunum með hv. þingmanni. Það sem hefur hins vegar gerst á undanförnum árum og þarf svo sem ekki að lesa mörg fjárlög til að komast að því og þeir vita það sem starfað hafa lengi í rekstri að í uppsveiflu áætla að menn tekjur ríkisins. Síðan á að vera afgangur upp á t.d. 30 milljarða en svo aukast útgjöldin og tekjurnar líka. Núna erum við með veika skattstofna og ég hef verulegar áhyggjur af því að skatturinn muni ekki skila sér eins og áætlað er enda kemur það fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar að menn hafa miklar áhyggjur af því að þessi tekjuslaki sé ekki fyrir hendi í kerfinu. Því langar mig að spyrja hv. þingmann: Hræðist hann eins og ég að skatttekjur muni ekki skila sér eins og áætlað er vegna þess að skattstofnarnir eru svo veikir?

Hv. þingmaður kom réttilega inn á það milli umræðna í frumvarpinu að búið er að draga saman um 20 milljarða í tekjuskatt á einstaklinga en hins vegar er niðurstaðan úr frumvarpinu sú að búið er að auka mínusinn um 15 milljarða. Það eru 4,2 milljarðar sem munar á milli umræðna, frá því að frumvarpið var lagt fram og núna, þá var reiknað með að tekjur lögaðila hækkuðu um 4,2 milljarða. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að þessir skattar muni hugsanlega ekki skila sér í ljósi þess að á árinu 2009, eftir að bandormurinn var samþykktur, skilaði þessi aðgerð 2,5 milljörðum minna og í ljósi stöðu fyrirtækjanna í landinu?