138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni, formanni efnahags- og skattanefndar, Helga Hjörvar, fyrir svo sem ágætiserindi. Reyndar fannst mér lýsingin á starfinu í efnahags- og skattanefnd ekki vera sérstaklega (Gripið fram í.) — ja, ég upplifði það öðruvísi. Mig langar til að spyrja hv. þingmann hvort það sé gæfulegt í núverandi stöðu með núverandi stöðu heimila og fyrirtækja, sem er mjög löskuð, að koma með skattlagningar, launalækkanir o.s.frv. og frumvarp sem er beinlínis á móti atvinnu. Við upplifum vaxandi atvinnuleysi og samt leyfa menn sér að koma með hækkun á tryggingagjaldi og frumvarp sem gengur í raun allt út á að takmarka áhættufé eða vilja manna til að fjárfesta í fyrirtækjum. Í rauninni má segja að frumvarpið sé á margan hátt á móti atvinnu þótt það sé örugglega ekki vilji þeirra sem sömdu frumvarpið. Þetta er bara misgáningur, held ég. Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvað gerist ef þessi stefna öll leiðir til brottflutnings skattgreiðenda og skilur eftir bótaþegana?

Svo er það hraðinn á þessu öllu saman. Við ræðum um gífurlegar breytingar á skattkerfunum, þriggja þrepa tekjuskatt, þriggja þrepa virðisaukaskatt, auðlinda- og kolefnisgjald, sem ég hef gert miklar athugasemdir við. Finnst hv. þingmanni það virkilega eðlilegt að atvinnulífið eigi að sæta því að þurfa að fara að vinna eftir gersamlega nýju umhverfi eftir 2–3 vikur frá því að frumvörpin eru lögð fram? Hvernig fer þetta saman við að vinna nákvæmlega og vel að frumvörpum?