138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt, við vorum frá morgni til kvölds, langt fram á kvöld í marga daga, að fara í gegnum umsagnir og taka á móti gestum. Það er svo merkilegt að í nánast öllum þessum umsögnum, öllum, ég man ekki eftir neinni sem var sérstaklega jákvæð, var neikvæðni í garð þeirra breytinga sem átti að demba yfir þjóðina með engum fyrirvara og kannski það fyrsta neikvæða sem nefnt var, var hraðinn. Menn kvörtuðu allir undan hraða, bæði því að þurfa að gefa umsagnir fyrir nefndinni með engum fyrirvara og því að þetta skylli á atvinnulífið með engum fyrirvara. Sú aðferð að skattleggja í kreppu með þessum hraða hefði getað komið fram miklu fyrr og öll þessi frumvörp hefði mátt ræða í miklu betra tómi. Það hefur legið fyrir, þessi ríkisstjórn er búin að starfa í 11 mánuði og hún hefði átt að vera búin að koma sér niður á einhverja stefnu í skattamálum.

Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, og aðrir þingmenn í stjórnarandstöðunni hafa jafnvel tekið undir það, hefur lagt fram tillögu um skattlagningu séreignarsparnaðar til að þurfa ekki að skattleggja þjóðina og fyrirtækin í þeirri verstu stöðu sem hún mun lenda í. Það er samdóma álit flestra að árið 2010 muni verða hvað erfiðast fyrir þjóðina. Ég geri ráð fyrir því að bæði fólk og fyrirtæki gætu ráðið við þessa skatta miklu betur að ári liðnu. Þess vegna er svo mikilvægt að fylla upp í þetta gat þangað til með skattlagningu séreignarsparnaðar sem kemur í rauninni ekki við neinn mann. Hugmyndir ríkisstjórnarinnar um útgreiðslu séreignarsparnaðar eru ekkert annað en eyðilegging á sparnaðinum því að þá er hann greiddur út og það sem er greitt út er ekki lengur sparað.