138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[17:30]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð að segja að ég tel að það sé nokkuð ofmælt af hv. þingmanni að allt það sem fram kom um skattafrumvörpin fyrir efnahags- og skattanefnd hafi verið neikvætt. Auðvitað voru ýmsar athugasemdir gerðar enda er það tilgangur málsins að kalla fram ábendingar um það sem mönnum þykir betur mega fara. Þær eru sem betur fer fjölmargar og við tökum einfaldlega málefnalega afstöðu til þeirra.

Hvað varðar þau sjónarmið að þetta sé versti tíminn til að hækka skatta, kreppan sjálf, þá hefur hv. þingmaður nokkuð til síns máls í því. Það væri langtum betra að við þyrftum þess ekki en það orsakast af því að í góðærinu svokallaða gengum við á löggjafarþinginu því miður allt of langt í því að lækka skattprósentur, bæði í tekjuskatti og í virðisaukaskatti með hinum lága fjármagnstekjuskatti o.s.frv., þannig að sjálfar undirstöður tekjuöflunar ríkissjóðs eru of veikar. Nú þegar það er meginatriði fyrir ríkisvaldið að byggja upp trúverðugleika í ríkisfjármálum er einfaldlega nauðsynlegt að taka á þessum syndum fortíðarinnar, leiðrétta þær og styrkja tekjugrundvöllinn til framtíðar með þeim leiðréttingum sem hér eru gerðar.

Ég vil alls ekki útiloka það að þegar við höfum lokið því kunni á næsta þriggja ára tímabili að vera gott að geta gripið til hugmynda um skattlagningu á séreignarsparnaði til að þurfa ekki að leggja á meiri tekjuskatt eða grípa til annarrar skattlagningar. Ég minni hv. þingmann líka á, þegar talað er um lítinn tíma, að í sumar var lögð fram heildaráætlun til margra ára í ríkisfjármálum sem oft hefur verið kallað eftir. Þar komu einfaldlega fram fyrirætlanir ríkisins um tekjuöflun og á útgjaldahliðinni sem atvinnulíf, sveitarfélög og aðrir aðilar í samfélaginu geta byggt áætlanir sínar á. Ég tel að þau vinnubrögð hafi verið til fyrirmyndar.