138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:21]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek alveg heils hugar undir með hv. þingmanni, það er alveg hreint með ólíkindum. Það sem mér þykir þó verst er að þetta skuli ekki hafa farið fram í fagnefndinni sjálfri, í heilbrigðisnefnd. Þingnefndir eru skipaðar þeim einstaklingum sem hafa fagþekkingu á viðkomandi málaflokkum, ég nefndi hér hv. þm. Þuríði Backman sem er formaður heilbrigðisnefndar, hún hefur mikla þekkingu á þessum málaflokki. Það væri mjög æskilegt og mjög skynsamlegt að umræða um einmitt þessa hluti færi fram í fagnefndunum til að við fengjum þær niðurstöður sem við ætlumst til. Til þess eru fagnefndirnar. En þetta virðist með sama hætti og svo margt annað hjá þessari hæstv. ríkisstjórn — eða vonlausu — það er bara anað út í einhverja vitleysu. Menn sjást ekki fyrir í vitleysunni, það er tekin einhver ákvörðun og svo er bara hlaupið af stað, það er ekkert hugsað.

Ég minni á þegar við ræddum sparisjóðamálið í sumar — hvernig var það? Þá var sagt að allt væri að hrynja, það yrði að redda þessu og þetta var keyrt í gegn. Fundir voru í viðskiptanefnd fimm sinnum á dag, allt keyrt í gegn, stjórnarandstaðan var að tefja af því að hún vildi fá einhverjar málefnalegar umræður. Nei, þetta varð að gerast einn, tveir og þrír. Hvað er búið að gera í málefnum sparisjóðanna síðan þá? (BJJ: Ekki neitt.) Ekki neitt. (BJJ: Ekki neitt.) Ekki neitt. Það er vegna þess að það vantar alla verkstjórn í þessa ríkisstjórn, og allt verksvit reyndar. Það er ekki nema von að þetta gerist með þessum hætti.

Síðan sjáum við hvað gerist í skattbreytingunum núna. Nú ana menn bara út í þetta einn, tveir og þrír án þess að hugsa nokkurn skapaðan hlut í staðinn fyrir að gefa sér tíma og gera þessar breytingar frekar á ári. Og bara til þess að undirstrika það, af því að talað var um þessa sóknaráætlun 20/20 sem virðist vera gæluverkefni upp á 25 millj. kr., vil ég minna á að nú fer t.d. Heilbrigðisstofnunin á Blönduósi fram á það að fá leiðréttingu upp á miklu lægri upphæð en þetta, bara til þess að hún geti lifað. Hún þarf að taka mjög erfiðar ákvarðanir núna (Forseti hringir.) sem snúa að henni, segja upp fólki og gera hvaðeina, ganga á réttindi t.d. sjúklinganna — nei, fjármunirnir skulu fara í gæluverkefni.