138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:23]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það er afskaplega athyglisvert þótt ekki sé meira sagt að hlusta á hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins ræða um galna fjárlagagerð. Þeir eru greinilega búnir að gleyma sinni eigin sögu frá síðustu árum og hún verður svolítið rakin í þessari ræðu.

Virðulegi forseti. Hvernig öflum við tekna? Hvar öflum við tekna? Hvernig dreifum við gjöldum? Til hverra helst — og til hverra síður? Hverjar eru áherslurnar? Hver er forgangurinn?

Þetta eru mikilvægar spurningar. Og menn velja misjöfn svör við þeim.

Fyrir nokkrum missirum fór sá sem hér talar í heimsókn á vistlegt sambýli fyrir fatlaðra hér á landi. Forstöðumaðurinn bauð mér upp á vatn, nokkuð afsakandi, tjáði mér að kaffivélina hefði þrotið örendi fyrir nokkrum vikum og ekki hefði fengist fjárveiting til að kaupa nýja. (BJJ: Icesave.) Þetta var gripur upp á röskar 20.000 krónur.

Tæpu hálfu ári seinna átti ég aftur leið á þetta sambýli. Og nú fékk ég kaffi. Að vísu sagði forstöðumaðurinn mér að starfsfólk hefði safnað samskotum frá fyrirtækjum í grenndinni til að kaupa nýja vél en, vel að merkja, reyndar hefði hún ekki fyrr verið komin í hús en ákveðið hefði verið af æðsta yfirvaldinu í veraldlegum fötlunarmálum að skera niður kaup á kaffi fyrir starfsfólk, nú þyrfti það sjálft að kaupa sitt kaffi og vélin, kostuð af nágrönnum, malaði kaffi í boði starfsmanna. Mér nánast svelgdist á kaffinu þegar ég hlustaði á þessa sögu. Sér er nú hver aðgæslan í útgjöldum — og var það akkúrat þarna sem fitan fannst í rekstri hins opinbera?

Þetta var það herrans ár 2007. Þenslan í hámarki. Sums staðar. Nákvæmlega sums staðar. Klárlega ekki alls staðar.

Já. Hvernig dreifum við gjöldunum? (Gripið fram í.) Erum við réttlát, erum við sanngjörn? Fá sumir sitt, án erfiðleika? Fá sumir ekkert, þrátt fyrir erfiðleika? Já. Hvernig verða fjárlög til?

Virðulegi forseti. Þessar hugsanir hafa einatt leitað á mig síðustu vikur og mánuði þegar ég hef setið með frumvarp til fjárlaga næsta árs og flett því spjaldanna á milli, sem og gömlum fjárlögum, rýnt í tölur og fjárlagaliði, forsendur og breytingar.

Vissulega hefur margt stungið í augu og margar spurningar vaknað. Af hverju fá Bændasamtökin, sem í grunninn eru hagsmunasamtök, meiri fjármuni úr ríkissjóði en Samtök áhugafólks um áfengis og vímuvarnir, SÁÁ, til að hjálpa þúsundum fíkla? Af hverju er skákheimurinn metinn svo í fjárlögum að hann þurfi tíu sinnum meiri peninga en Vetraríþróttamiðstöð Íslands sem á að sinna einni allra vinsælustu afþreyingar- og íþróttagrein landsmanna? Og af hverju í ósköpunum er Bridgesamband Íslands með hærri fjárframlög frá ríkinu en landssamtökin Þroskahjálp? Já, skemmtilegur bridds annars vegar og viðkvæm velferðarþjónusta hins vegar. Tvö grönd og eitt pass. (Gripið fram í: Ha?)

Er hobbí fullfrískra karlmanna metið meira en fagleg þjónusta við þroskahamlað fólk? Líklega er svarið já. Hér tala tölurnar sínu máli. Nokkuð afgerandi og miskunnarlaust.

Virðulegur forseti. Það er nefnilega svo, og það er ein af niðurstöðum mínum við lestur fjárlagafrumvarpa síðustu ára, að framlög ríkisvaldsins til hinna ólíkustu málaflokka sé háð duttlungum, já, tilviljanakenndri embættisfærslu, að einhverju leyti þjónkun þingmanna og ráðherra við sérhagsmuni — og svo lifir auðvitað gamli íslenski klíkuskapurinn sínu sældarlífi í þessu frumvarpi sem hér er til umræðu, rétt eins og þeim sem afgreidd hafa verið á síðustu árum og áratugum.

Þessu þarf að breyta. Þessu verður að breyta.

Í frumvarpi til fjárlaga ársins 2010 er vissulega reynt að sníða marga vankantana af og ýmsir kvistir eru örugglega fyrirferðarminni en áður en betur má ef duga skal. Það má miklu betur, en duga skal.

Fjárlög íslenska ríkisins verður að taka til gagngerrar endurskoðunar, frá fyrstu síðu til þeirrar síðustu. Fjárlögin, eins og þau hafa birst lesendum sínum á síðustu árum og áratugum, eru nefnilega ekkert sérstakur vitnisburður um réttláta og eðlilega meðferð á opinberu fé landsmanna, hinum sameiginlega sjóði þjóðarinnar. Því fer náttúrlega fjarri. Fjárlög síðustu ára eru því marki brennd að koma upp um tilviljanakennda stjórnsýslu. Þau sýna á tíðum gamaldags skömmtunarstefnu, samtryggingu, valdapot, vinargreiða.

Í reynd eru fjárlög uppskrift að samfélagi. Þau sýna hlutföllin, skiptinguna á milli efnis, efnisflokka. Þau sýna hvar minnst er skammtað, sanna það hvar mest er í lagt, afhjúpa það sem á vantar og koma upp um það sem of mikið er af.

Góð fjárlög eiga vissulega að byggja á nákvæmri áætlanagerð, ráðdeild og innra aðhaldi, en þau eiga líka að byggja á heiðarlegri pólitík, málefnalegri framsækni og sýna hvaðan upp er lagt og hvert er stefnt. Þau eiga að vera leiðarstef í átt til betra samfélags, sanngjarnara og réttlátara, upplýstara og gagnsærra, valddreifðara og lýðræðislegra.

Góð fjárlög eiga að bæta samfélagið og umfram allt að tryggja það að fjármunir landsmanna rati þangað sem mest er þörf fyrir þá — mest er þörf fyrir þá — en síður þangað sem minnst er þörfin, allra síst þangað sem ekkert er við þá að gera.

Af lestri fjárlaga síðustu ára verður ekki sagt að opinbert fé hafi alltaf ratað á rétta staði, allt of oft hefur verið eytt í óþarfa og allt of oft hefur verið ógætilega farið með þessa fjármuni. Ár eftir ár, án áminninga, án brottrekstra fyrir afglöp og endurtekna umframeyðslu.

Hér þarf Alþingi og nefndir þess að taka sér tak og veita þeim sem við peningunum taka miklu meira aðhald en gert hefur verið. Miklu meira. Miklu oftar. Miklu víðar.

Og það er einnig svo, virðulegi forseti, að allur almenningur sem að stórum hluta stendur undir tekjuöflun ríkisins þarf að vita miklu betur hvernig sjóðum hans er úthlutað. Fjárlög eru og eiga ekki að vera einkamál valdsins, kjörinna fulltrúa, framkvæmdarvaldsins og embættismanna. Fjárlögin eiga ekki aðeins að ráðast á fáeinum skrifstofum reykvískra ráðamanna. Þau eiga að vera í sífelldri umræðu, sífelldri endurskoðun alls fólksins sem leggur til fjármunina. Þau eiga skilið langtum meiri athygli almennings en þau hafa hingað til fengið, jafnt tilurð þeirra sem og eftirfylgni.

Fjárlög hvers tíma eru nefnilega áskorun um að gera betur. Og núna, við augljós kaflaskil í efnahagssögu Íslendinga, eru þau áskorun sem aldrei fyrr. Þau eru áskorun um breytingar, varanlegar breytingar, endurskoðun og endurbætur, nýtt samfélag sem hefur efni á því sem það þarf sannarlega að gera, því sem það þarf sannarlega að sinna. (Forseti hringir.)

(Forseti (UBK): Forseti spyr hv. þingmann hvort hægt sé að gera hlé á ræðu núna eða eftir nokkrar málsgreinar.)

Má hv. þingmaður spyrja af hverju?

(Forseti (UBK): Það á að fara fram atkvæðagreiðsla sem hefur verið boðuð núna kl. 18.30.)

Það er sjálfsagt mál.

(Forseti (UBK): Þegar kemur að hentugum kafla.)

Það er sjálfsagt mál hér og nú.