138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:22]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki tekið undir þau orð Péturs H. Blöndals að við séum að vinna í Icesave-ósköpunum — sem vel að merkja eru eitthvert ömurlegasta verkefni sem nokkur þingmaður hefur þurft að taka að sér á síðustu árum — í blindni. Um þetta mál hefur verið fjallað af mikilli festu og af mikilli upplýsingagleði (PHB: … umræðu …) í fjárlaganefnd (PHB: Engin umræða …) í allt sumar, allt haust og það sem af er vetri. Fá mál hafa fengið jafnmikla umfjöllun (PHB: Ekki …) í nefndum Alþingis og Icesave-málið að mínu viti.

Ég tek hins vegar ofan fyrir mönnum sem hér sitja í sal, svo sem eins og Pétri H. Blöndal og Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, sem hafa komið með málefnalega gagnrýni á þetta mál. Fyrir það ber að þakka en þetta mál hefur hins vegar fengið gríðarlega mikla umfjöllun í nefndum og í sölum Alþingis (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) og á meðal sérfræðinga. (PHB: Stjórnarandstæðinga.)