138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:40]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þegar hv. þingmaður talaði sem mest um nauðsyn samstarfs í ræðu sinni áðan og lagði gott inn á þann reikning varð mér hugsað til þess sem einu sinni var á orði haft, að þeir segðu mest af Ólafi konungi sem aldrei hefðu heyrt hann eða séð. (BJJ: Nohh!)

Í öðru lagi talaði hv. þingmaður um að það væri bagalegt að þessi frumvörp kæmu seint fyrir þingið og til nefnda. Það er að sönnu rétt en þau hefðu getað verið 7–10 dögum fyrr á ferðinni ef stjórnarandstaðan hefði ekki þurft að tala svona mikið í einu ónefndu máli. (Gripið fram í.) Þau lágu hér og biðu þess að komast til 1. umr. og nefnda, sum í 10 daga, sum í viku.

Það er ekki þannig að aðilar vinnumarkaðarins séu ósáttir við allt í þessum breytingum þó að þeir gagnrýni sumt eins og gengur. Alþýðusamband Íslands fagnar sérstaklega upptöku þrepaskipts tekjuskatts. Samtök atvinnulífsins hafa verið höfð með í ráðum og eru enn í samráði um breytingar á ýmsum atriðum sem varða fyrirtækin sérstaklega og aðilar stöðugleikasáttmálans hafa haft aðgang að miklum upplýsingum um þau áform sem í vændum eru í skattkerfinu allt frá því í vor. En að lokum verða ríkisstjórn, meiri hluti á Alþingi og Alþingi allt að bera ábyrgð á hinum pólitísku útfærslum og áherslum í skattkerfinu og um þær verða náttúrlega aldrei allir á eitt sáttir. Þannig er það auðvitað.

Hv. þingmaður talaði mikið um nauðsyn einfaldleika og nefndi líka réttlæti í hinu orðinu. Einfaldast er auðvitað að leggja einn skatt í einni prósentu á allt landið og miðin, en er það réttlæti? (Gripið fram í.) Er það réttlæti í hugum framsóknarmanna að lágtekjumaðurinn og hátekjumaðurinn greiði sömu skattprósentuna? (Gripið fram í.) Við erum að reyna að samþætta mörg markmið. Eitt af þeim er að skattkerfið sé ekki flóknara en það þarf að vera til þess hins vegar að ná fram þeim tekjudreifingar- og skattdreifingarmarkmiðum og því réttlæti sem við stefnum líka að. Þetta reynum við að láta mætast í vel hugsuðum og vel útfærðum tillögum og ég tel að það takist bærilega hér.

Af því að hv. þingmaður hefur áhyggjur af endurreisninni spyr ég hann (Forseti hringir.) á móti hvort hann gleðjist þá ekki yfir því sem vel gengur.