138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:43]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Jú, ég gleðst svo sannarlega yfir því ef hlutirnir ganga vel og ég hef á vettvangi Alþingis oft bent á hluti sem vel er staðið að. Ég get nefnt sem dæmi að ég held að hv. varaformaður Vinstri grænna kvarti ekki mikið yfir þeim ræðum sem ég hef viðhaft á þingi um menntamálin og margt það góða sem þar hefur verið gert, en ég kalla í fullri hreinskilni eftir — ég held að allir hljóti að sjá það sem á horfa og hlusta að ríkisstjórnin ætlar sér ekki að hafa neitt samráð við stjórnarandstöðuna í þingi þegar kemur að breytingum á skattkerfinu. Hún hefur ekki gert minnstu tilraun til þess. Þess vegna hvet ég hæstv. fjármálaráðherra til að gjöra þá svo vel að hætta að tala um samráð og samráðspólitík. Það að 34 þingmenn gegn 29 í minni hlutanum ætli að ráða öllu og valta yfir allt er ekki mjög lýðræðislegt og ég hef bent á að við skulum koma okkur upp úr þeim sandkassa sem vinnubrögðin á Alþingi eru einfaldlega í þegar við horfum til þess að á sviði sveitarstjórna víðs vegar um landið vinna oftar en ekki meiri hluti og minni hluti þessa dagana sameiginlega að erfiðum úrlausnarverkefnum er snerta fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að koma því inn í verklagið á Alþingi Íslendinga?

Hæstv. ráðherra getur örugglega vottað það að á sumarmánuðum buðum við fram aðstoð okkar við að móta nýtt fjárlagafrumvarp og koma að breytingum á skattkerfinu. Hæstv. ráðherra kom upp í andsvar við mig og sagði einfaldlega að það stæði ekki til að viðhafa slíkt. (Forseti hringir.) Og við stöndum enn í sömu sporunum.