138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:46]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég veit ekki í hvað hæstv. ráðherra er að vísa, hvort hann er að vísa í þann stuðning sem Framsóknarflokkurinn veitti minnihlutastjórn hans frá febrúarmánuði til kosninga. Ég hef ekki orðið var við þau heilindi sem stjórnarflokkarnir þá sýndu Framsóknarflokknum, m.a. í málefnum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Kannski væri efni í umræðu hér að fara yfir hvað menn ræddu þegar sú minnihlutastjórn var mynduð.

Það hefur ekkert staðið á því. Ég stóð hér í ræðupúlti í sumar og spurði hæstv. fjármálaráðherra hvort við ættum ekki að taka fjárlagafrumvarpið fyrir og vinna í því á sumarmánuðum í ljósi einkennilegs ástands í íslensku samfélagi en hæstv. fjármálaráðherra neitaði því. (Forseti hringir.) Við höfum oftsinnis boðið fram samráð og stuðning en (Forseti hringir.) ekkert hefur verið á okkur hlustað. Hæstv. fjármálaráðherra þarf greinilega að fara að hlusta betur.