138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[20:54]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á því að þakka hv. þm. Birki Jóni Jónssyni fyrir ágætis ræðu og tilfinningaþrungna. Þó að hv. þingmaður sé mun yngri að árum en ég hefur hann mun meiri þingreynslu sem nemur bráðum heilum tugnum, eða sjö árum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann. Nú ræðum við fjárlagafrumvarpið og við höfum setið saman í efnahags- og skattanefnd, ég og hv. þingmaður, og tekið á móti fjölda gesta, setið fram á kvöld og rauða nótt yfir helgar og annað slíkt til þess að hlusta á vitnisburð hagsmunaaðila í þjóðfélaginu — raunverulega úr öllum hópum, allt frá öryrkjum til atvinnurekenda og frá ríkisstofnunum til ég veit ekki hvers — og ég held að það sé komin ágætis mynd á þetta. Það er verið að umbylta skattkerfinu, hvort heldur sem er virðisaukaskattskerfinu eða tekjuskattskerfi fyrirtækja og einstaklinga, og ljóst er að gríðarlega mikill kostnaður mun fylgja því. Það sem mér finnst svolítið merkilegt er að alls þess kostnaðar sem er fyrirséður vegna þessara kerfisbreytinga sér hvergi stað í fjárlagafrumvarpinu. Er hefðbundið að menn breyti lögum á sama tíma og fjárlagafrumvarp er í smíðum og menn sleppi risastórum kostnaðarliðum? Er þetta hefðbundið og telur þingmaðurinn þetta eðlilegt?