138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:01]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Forsendur fyrir því fjárlagafrumvarpi sem lagt hefur verið fram fyrir árið 2010 er skýrsla fjármálaráðherra um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009–2013, stöðugleikasáttmálinn sem gerður var í sumar við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélög og það að verja kjör þeirra sem verst eru settir. Markmiðið er að ná efnahagslegum stöðugleika og honum verður ekki náð nema ríkisfjármálum verði komið á styrkan grundvöll. Alþingismenn, ráðuneyti og stofnanir hafa því haft skýrsluna til viðmiðunar í umfjöllun og vinnu við fjárlagafrumvarpið í hálft ár. Meginmarkmið frumvarpsins og útgangspunktar voru lagðir fram í sumar fyrir árin 2009–2013.

Við 2. umr. um fjárlagafrumvarp 2010 eru gerðar breytingar bæði á tekjum og útgjöldum. Breytingartillögur þær sem eru til umfjöllunar nema samtals tæpum 5 milljörðum kr. til hækkunar á sundurliðun 2, þ.e. á Fjármálum ríkisaðila í A-hluta. Tekjuáætlun er lækkuð um 10 milljarða en skatttekjur lækka nokkuð meira eða um tæplega 11 milljarða á rekstrargrunni en 15 milljarða á greiðslugrunni. Fjárlaganefnd vísaði til annarra fastanefnda þingsins þeim þáttum frumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Hv. mennta- og menningarmálanefnd gerði grein fyrir áliti sínu við fjárlaganefnd og kom fram í áliti meiri hluta nefndarinnar meðal annars, með leyfi forseta:

„Þegar draga þarf úr útgjöldum er augljóst að forgangsraða þarf verkefnum. Ekki verður um of áréttað mikilvægi þess að standa vörð um menntakerfið á öllum skólastigum í núverandi efnahagsástandi og þá er ljóst að eftirspurn í háskóla og framhaldsskóla eykst með auknu atvinnuleysi. Til að koma í veg fyrir að atvinnuleysi verði stærra félagslegt vandamál er nauðsynlegt að auðvelda fólki að fara aftur í nám. Þegar hefur verið gripið til aðgerða í þá veru með því að breyta reglum um tekjuviðmiðun þeirra sem fara í nám aftur eftir hlé og með því hækka grunnframfærslu námslána með tilheyrandi millifærslu frá atvinnuleysistryggingum til Lánasjóðs íslenskra námsmanna. Í frumvarpi til fjárlaga er ljóst að menntun er raðað framar menningu í forgangsröðun mennta- og menningarmálaráðuneytis og telur meiri hlutinn slíkt eðlilegt við þær aðstæður sem nú eru. Ekki má þó draga úr samfélagslegu og félagslegu mikilvægi menningar og áréttar meiri hlutinn að þær aðhaldsaðgerðir sem farið er í verði tímabundnar þannig að aukning verði til fjárlagaliða er varða menningu og listir um leið og svigrúm er til í ríkisfjármálum.“

Nefndin lagði á það áherslu að tryggt yrði að fjármagn fylgdi nemendum háskóla og framhaldsskóla og skólum yrði gert kleift að taka við fleiri nemendum. Gerðar eru tillögur nú við 2. umr. fjárlagafrumvarpsins um breytingar sem auka svigrúm menntamálaráðuneytis til að mæta aukningu á nemendafjölda í framhaldsskóla. Í skýringum við breytingartillögurnar kemur m.a. fram að gerð er tillaga um framlag vegna aukinnar námsvirkni og fjölda nemenda í framhaldsskólum umfram forsendur fjárlaga 2009. Þær nemendatölur sem nú liggja fyrir gefa til kynna að þróun nemendafjölda á árinu 2010 verði með nokkuð öðrum hætti en áður. Þannig eru á milli 450 og 500 fleiri ársnemendur sem stunda nám í framhaldsskólum en reiknað var með. Þetta skýrist þó aðeins að hluta með fjölgun nýskráninga. Að stærstum hluta skýrist þessi þróun af breyttum aðstæðum í samfélaginu, nemendur stundi frekar nám í heimabyggð og samdráttur á vinnumarkaði leiðir til þess að mun minna er um að nemendur hverfi frá námi á 2., 3. eða 4. ári. Minni möguleiki er á vinnu við skóla og því eru nemendur síður í hlutanámi. Hér er því gerð tillaga um framlag vegna fjölgunar ársnemenda og að til þess verði varið 271,2 millj. kr.

Þá eru umtalsverðar fjárhæðir lagðar til viðbótar í símenntun og fjarkennslu, þar á meðal 70 millj. kr. til fullorðinsfræðslu. Við undirritun stöðugleikasáttmálans var staðfest samkomulag á milli ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um að fjárframlög til fullorðinsfræðslu yrðu aukin og að samið yrði um aðkomu opinbera vinnumarkaðarins að kerfinu. Þá er gerð tillaga um 20 millj. kr. framlag vegna meistaranáms í haf- og strandveiðistjórnun sem háskólasetur Vestfjarða býður upp á í samvinnu við Háskólann á Akureyri en framlagið var upphaflega hluti af mótvægisaðgerðum og átti að falla niður árið 2010. Um fleiri slík verkefni eru gerðar breytingartillögur en öll framlög falla niður vegna mótvægisaðgerða til að draga úr neikvæðum afleiðingum af tímabundnum samdrætti í aflamarki þorsks.

Keilir, miðstöð vísinda og fræða á Ásbrú, fyrrum varnarsvæði á Suðurnesjum, var einnig styrkt með mótvægisframlagi um rúmar 120 millj. árið 2008 og aftur árið 2009. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir 32 millj. kr. til orku- og tæknifræðináms sem unnið er í samstarfi Keilis og Háskóla Íslands en sú breytingartillaga er lögð fram að Keilir fái auk þess 108 millj. eða 90% af framlagi ársins 2009 til frumgreinanáms og annarra vinnumarkaðsúrræða sem lúta að menntun. Jafnframt muni Keilir vinna í samvinnu með viðurkenndum háskólum eða með öðrum stofnunum sem heyra undir mennta- og menningarmálaráðuneytið að verkefnunum. Keilir gegnir lykilhlutverki í heildarþróunarverkefni Kadeco á Ásbrú. Keilir er fyrsta þróunarverkefni Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, og myndar grundvöll undir alla þróun á Ásbrú. Í stóru þróunarverkefni sem þessu gegnir sá grundvöllur sem vísinda- og rannsóknasamfélag skapar mikilvægu hlutverki. Samhliða því er hlutverk Keilis margþætt, svo sem að skapa grundvöll til nýtingar á íbúðarhúsnæði á Keflavíkurflugvelli. Segja má að íbúðareign ríkisins á svæðinu sé einn viðkvæmasti hlutinn í öllu þróunarverkefninu. Ástæðan er afleiðing þess að selja íbúðirnar á almennum markaði. Slíkt hefði haft í för með sér alvarlegar afleiðingar á fasteignaverði á Suðurnesjum og reyndar á höfuðborgarsvæðinu öllu. Því var nauðsynlegt að skapa nýja eftirspurn eftir íbúðareignum á svæðinu og það var gert m.a. með því að bjóða námsmönnum og fjölskyldum þeirra sem stunda nám, bæði við Keili og háskóla á höfuðborgarsvæðinu, hagstætt húsnæði til leigu. Með stofnun og starfsemi Keilis varð því til eftirspurn eftir húsnæði sem gerði það að verkum að ríkið gat selt fjölda eigna. Einnig skapar starfsemi Keilis grundvöll fyrir menntun og rannsóknir á þeim meginsviðum sem Kadeco leggur áherslu á við þróun og uppbyggingu svæðisins. Það er nauðsynleg forsenda að þekkingar- og rannsóknarmöguleikar séu til staðar m.a. til að stuðla að nýsköpun í atvinnulífi, annars vegar að skapa aðstæður til að vinna með þekkingu sem síðan þróast út í sprota- og nýsköpunarverkefni og hins vegar að skapa grundvöll fyrir þau fyrirtæki sem ákveða að byggja upp starfsemi sína á Ásbrú með því að mennta og þjálfa starfsfólk. Af þessum ástæðum er Keilir beintengdur markmiðum Kadeco um þróun Ásbrúar, byggðarinnar sem áður hýsti bandaríska hermenn og fjölskyldur þeirra og taldi um 5.000 íbúa um tíma þegar mest lét.

Virðulegi forseti. Breytingartillögur þær sem eru gerðar við frumvarpið á liðum sem heyra undir mennta- og menningarmál gera ráð fyrir hækkun framlaga að upphæð um 1.019 milljónir. Ég mun ekki fara yfir allar tillögurnar í ræðu minni en grein hefur verið gerð fyrir þeim í umræðunni í dag.

Framlag til Lánasjóðs íslenskra námsmanna er þó lækkað um 200 millj. kr. frá forsendum frumvarpsins þar sem eiginfjárstaða lánasjóðsins er talin vera betri í árslok 2009 en áætlanir gerðu ráð fyrir. Afborganir námslána hafa skilað sér betur en búist var við og því þarf sjóðurinn ekki jafnhátt framlag úr A-hluta ríkissjóðs til að viðhalda eiginfjárstöðu sinni og gert var ráð fyrir í frumvarpinu. Liðurinn Kvikmyndamiðstöð Íslands er hækkaður um 60 millj. og þannig er dregið úr áformum frumvarpsins um niðurskurð frá fyrra ári. Á þskj. 391 er lögð fram breytingartillaga á heiðurslaunum listamanna. Þar er gert ráð fyrir að 29 listamenn fái 1.600 þús. kr. hver í heiðurslaun árið 2010. Launin voru 1.800 þús. kr. á árinu 2009.

Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir miklum niðurskurði á framlögum til safnliða og ljóst að ekki er hægt að verða við nema litlum hluta beiðna um styrk. Vegna þessarar stöðu lagði meiri hluti hv. mennta- og menningarmálanefndar áherslu á að styrkja verkefni sem stuðla að menntun og menningariðkun barna og unglinga eða að framlögin skapi atvinnutækifæri og stuðli að nýsköpun eða verðmætasköpun. Í áliti meiri hluta hv. mennta- og menningarmálanefndar og í umræðum meðal allra nefndarmanna hefur komið fram samdóma álit um að nauðsynlegt sé að fyrirkomulag við úthlutun fjárveitinga á safnliðum verði teknar til gagngerðrar endurskoðunar. Í þeirri endurskoðun mætti líta til hlutverks menningarsamninga við sveitarfélög og útvíkkun á hlutverki þeirra þannig að tryggja megi að tekið verði tillit til svæðisbundinna þarfa og auk þess verði eftirlit með nýtingu fjármuna auðveldað. Einnig mætti líta til verkefnisins Sóknaráætlun fyrir Ísland en liður í þeirri áætlun er m.a. að samþætta opinberar áætlanir og smíða m.a. áætlun til nýrrar sóknar í mennta- og menningarmálum, vísindum og nýsköpun, bæði fyrir landið í heild og einstaka svæði sérstaklega. Þannig verði stuðlað að betri nýtingu fjármuna, öflugu samstarfi stjórnsýslustiga og stofnana þvert á ráðuneyti.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar til Alþingis frá því fyrr á þessu ári er fjallað um íslensk muna- og minjasöfn og meðferð á nýtingu á ríkisfé til safnanna. Í skýrslunni kemur fram það álit að móta þurfi skýra stefnu um muna- og minjavörslu, bæði fyrir landið í heild og einstaka landshluta. Taka þurfi afstöðu til hvaða safna- og sýningarstarfsemi ríkið á sjálft að annast og hvaða starfsemi einkaaðilar og sveitarfélög eigi að sjá um. Mikilvægt sé að móta langtímastefnu um fjárveitingar til safnamála. Þar þurfi að koma fram hvernig fénu verður varið til uppbyggingar, rekstrar og verkefna og að það nýtist á hagkvæman og skilvirkan hátt. Stefnumótunin verði til að auka fagleg gæði safna og til að styrkja stöðu þeirra og hlutverk í samfélaginu. Einnig er áhersla lögð á að einfalda styrkjakerfið og setja fastmótaðar reglur um það þannig að allir sitji við sama borð. Ríkisendurskoðun leggur til að gerðir verði skriflegir samningar við styrk þeirra og þeir skyldaðir til að skila greinargerð um nýtingu styrkja. Þar sé nauðsynlegt að auka eftirlit með styrkjum og samræma þá. Án slíks eftirlits verði tæpast ályktað með nokkurri vissu hvort opinberu fé til málaflokksins sé varið á hagkvæman, skilvirkan og markvissan hátt.

Um safnliðina alla var einnig töluverð umræða í hv. fjárlaganefnd, þ.e. framlög til einstakra verkefna í listum, til safna, til húsfriðunar og alls kyns verkefna. Eins og fram kom í ræðu formanns fjárlaganefndar, hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, hefur verið rætt um að stofna starfshóp á vegum hv. fjárlaganefndar til að skoða þennan þátt sem og alla afgreiðslu á framlögum til safna, lista- og menningarmála hvers konar, húsfriðunar o.fl. og ræða þá um leið með hvaða hætti megi styrkja lögbundna sjóði sem eru starfandi og fjalla um styrkveitingar til einstakra málaflokka. Þarna þarf einnig að efla eftirlit með nýtingu fjárveitinga.

Meiri hluti hv. fjárlaganefndar telur að bæta þurfi enn frekar allan undirbúning við gerð fjárlaga, fjárlagaferlið í heild sem og að styrkja eftirlitshlutverk nefndarinnar og Alþingis. Skoða þarf fjárlög miðað við markmið og ákvörðun stjórnvalda hverju sinni og áætlana sem Alþingi hefur samþykkt. Stefnan þarf að vera skýr og mat þarf að vera á því hvar pólitískum markmiðum hafi verið náð.

Hæstv. forseti. Áreiðanlega eru margir vonsviknir vegna þess að eitthvað sem tekið hefur langan tíma að fá framgengt er nú tímabundið tekið til baka með niðurskurði sem boðaður er á árinu 2010. Við erum reyndar öll vonsvikin vegna þeirrar atburðarásar sem leiddi okkur í svo slæma stöðu. Í sársaukafullu niðurskurðarferli hefur þeirri stefnu verið fylgt að fresta eða draga úr því sem hægt er að fresta eða draga úr á meðan efnahagslægðin gengur yfir. Það er mikilvægt að ásamt breyttum vinnubrögðum við fjárlagagerðina verði staða þeirra verkefna sem verða nú fyrir niðurskurði bætt og aðstæður skapaðar fyrir ný um leið og betur árar.

Að lokum þetta: Ekki er vafi í huga þeirrar sem hér stendur um það að ef allir leggja sitt af mörkum muni áætlunarverkið takast sem er að ná jöfnuði í ríkisfjármálum á árinu 2013.