138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:15]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fína ræðu og ég tek undir það sem hún sagði hér í lokin að við þurfum að taka höndum saman til að ná tökum á þeim vanda sem við erum í í dag.

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með þessa ríkisstjórn út af mörgu, en núna er hún að færa tekjur frá sveitarfélögum til ríkisins með því að hækka tryggingagjaldið. Vegna 1,66% hækkunar þann 1. júlí voru 700 milljónir færðar á árinu 2009 og svo 1,3 milljarðar á árinu 2010, samtals tveir milljarðar. Þegar ég spurði hæstv. fjármálaráðherra inni í fjárlaganefnd hvort sveitarfélögin fengju leiðréttingu á þessum tekjumissi svaraði hann því játandi. Ekkert í þessu frumvarpi eða fjáraukalögunum bendir til þess að standa eigi við þessi orð hæstv. fjármálaráðherra. Ég hef gríðarlega miklar áhyggjur af fjármálum sveitarfélaganna og spyr því hv. þingmann, sem hefur mikla reynslu af sveitarstjórnarmálum, hvort henni finnist ekki nauðsynlegt að leiðrétta þetta gagnvart sveitarfélögunum og hvort hún hafi ekki áhyggjur af stöðu sveitarfélaga í landinu?

Nú þegar búið er að gera samning við stóriðjuna um að greiða árlega næstu þrjú árin 1,2 milljarða inn á væntanlegar tekjur áranna 2013–2018, langar mig til að spyrja hv. þingmann hvort ríkisstjórnin sé þá ekki að taka framtíðartekjur ríkissjóðs og ráðstafa þeim núna í stað þess að takast á við vandamálin eins og þau eru.