138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni svörin þó að ég sé ekki alveg nógu sáttur við þau. Mér finnst að leiðrétta þurfi tekjumissi sveitarfélaganna út af tryggingagjaldinu vegna þess að sagt var að það yrði gert, en það á að svíkja. Það er rétt sem hv. þingmaður segir, ekki er nóg að hittast og ræða málin, það verður að leysa þau. Ekkert í fjáraukalögunum og fjárlögunum bendir til þess að staðið verði við það af hálfu ríkisstjórnarinnar og því er ég mjög svekktur.

Það sem ég átti við um fyrirframgreidda tekjuskatta frá stóriðjunni næstu þrjú árin er að þá fáum við tekjuskatt áranna 2013–2018, sem er að mínu viti lántaka fram í tímann sem ekki á að tekjufæra hjá ríkissjóði.

Nú er gert ráð fyrir því á milli umræðna að bæta um 4,2 milljörðum við tekjuskatt lögaðila. Ég hef verulegar áhyggjur af þessu vegna þess að staða fyrirtækja í landinu er mjög erfið. Nú kemur í ljós að tekjuskattur lögaðila 2009 var 2,5 milljörðum lægri en áætlað var. Þess vegna finnst mér dálítið bratt hjá ríkisstjórninni að reikna með því að hækka þennan lið við þessi skilyrði og vil spyrja hv. þingmann hvort hún telji raunhæft að bæta 4,2 milljörðum við á milli umræðna.

Við erum með mjög veika skattstofna, við endurskoðunaráætlunina 2009 kom í ljós að tekjuskattur á einstaklinga er 6,6 milljörðum lægri en reiknað var með. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að við leggjum skatta á veika skattstofna sem munu ekki skila sér og sitjum þá uppi með vandamálin þegar líður á árið og náum ekki þeim markmiðum sem stefnt var að?