138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:20]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Vegna þeirra aðgerða sem gripið var til í sumar var mögulegt að lækka tekjuskatta á einstaklinga um 20 milljarða frá því sem áformað var og einnig voru skattar á umhverfis- og auðlindagjald lægri en áformað var. Það er einmitt vegna þess sem við gerðum í sumar að við þurfum ekki að fara eins bratt í tekjuskattinn og áform voru um til að byrja með þannig að þetta er ágætis árangur. Ég deili ekki áhyggjum hv. þingmanns.

Varðandi þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á skattkerfinu eru þær ekki lítt þekktar heldur er margra ára reynsla á svipuðu kerfi í nágrannaríkjunum sem við munum auðvitað nýta okkur og ég hef ekki áhyggjur af því að þetta fari illa heldur muni dæmið þvert á móti ganga upp.