138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:25]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessar ágætu upplýsingar. Það er verulega fróðlegt að vita að fjárlaganefndin sjálf ákveði að fara inn í menntamálin, sem fagnefndin menntamálanefnd sér um, og auka fjármagn til einstakra þátta sem áður höfðu verið teknir út af ríkisstjórninni og menntamálanefnd ekki gert athugasemdir við. Það eru í sjálfu sér áhugaverðar upplýsingar og nálgun á hv. fjárlaganefnd.

Líka þakka ég fyrir upplýsingar frá hv. þingmanni, formanni menntamálanefndar, um að ríkisstjórnin hafi ákveðið að breyta þessu. Ég vil jafnframt benda á að búið er að gera ráð fyrir þeim breytingartillögum sem hér liggja fyrir í þeim menntaskólum eða framhaldsskólum sem höfðu verið með of fáa nemendur, það er þegar búið að leiðrétta þetta í Fjölbrautaskóla Suðurlands, Menntaskóla Borgarfjarðar, Framhaldsskólanum í Mosfellsbæ og Framhaldsskólanum við utanverðan Eyjafjörð upp á tugi milljóna. En jafnframt er farið til baka með það sem á að fara í framhaldsskólana almennt.

Það er bara gott ef við höfum efni á því að auka útgjöldin um rúman milljarð í þessu og að sú ákvörðun sé tekin af meiri hluta fjárlaganefndar. Þá hljótum við að segja bara: Góðan daginn og takk fyrir. (Gripið fram í: Eða gott kvöld.)