138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:29]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Sá sem hér stendur stóð m.a. að samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu, en eftir fund í efnahags- og skattanefnd í morgun hef ég áhyggjur af því að stjórnarliðar hér á Alþingi ætli ekki að standa við 16 liða samkomulagið sem þeir gerðu við stjórnarandstöðuna í síðustu viku um þessi mál. Það er mikilvægt upp á framhald málsins að störf þingsins á næstu dögum verði í sem bestri samvinnu, að við stöndum við þau samkomulög sem við gerum okkar á milli og að það liggi fyrir hvort stjórnarandstaðan fái að fylgja eftir þeim álitaefnum sem reifuð voru í samkomulaginu, fái skrifleg álit og allan þann tíma sem hún þarf til að fara yfir þetta mál, sem er eitt það stærsta á Alþingi í sögu lýðveldisins. Mikilvægt er að það liggi fyrir og skýrt sé að stjórnarliðar ætli sér að standa við samkomulagið.