138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[21:33]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það samkomulag sem var gert hér síðasta mánudag, virðulegum forseta til upprifjunar, gekk út á það að samið var um hvenær farið yrði í atkvæðagreiðslu daginn eftir, á þriðjudeginum. Þá var jafnframt samkomulag um að þeir þingmenn, sem lægi eitthvað á hjarta, fengju að ljúka máli sínu aðfaranótt þriðjudagsins, sem var gert. Þeir þingmenn sem þurftu að tala og vildu tala gerðu það.

Ég vil árétta þetta vegna þess að af ummælum virðulegs forseta mátti skilja að einhverjir þingmenn í stjórnarandstöðu hefðu ekki staðið við þetta samkomulag og ég hafna því algjörlega vegna þess að við höfðum staðið fullkomlega við okkar hlut. Það eru stjórnarliðar sem eru að brjóta samkomulagið núna með því að taka ekki fyrir þau 16 atriði sem beðið var um að tekin yrðu fyrir.