138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni þessi svör. Það er alveg ljóst að það verður að skera niður vítt og breitt um landið í mikilvægri heilbrigðisþjónustu sem er undirstaða velferðar í mörgum samfélögum. Nú er hv. þingmaður í fjárlaganefnd og í því fjárlagafrumvarpi sem við ræðum hér er ekki gert ráð fyrir neinum útgjöldum vegna Icesave, ekki vegna vaxta Icesave sem eru rúmlega 40 milljarðar kr. Í raun og veru er gatið því miklu stærra en reifað er í fjárlagafrumvarpinu. Í ljósi þess er þá forsvaranlegt að samþykkja Icesave-frumvarpið eins og það liggur fyrir, í ljósi þess að gatið er miklu, miklu meira en kemur fram í annars mjög slæmum tölum í fjárlagafrumvarpinu?

Ef við bætum þeirri skuldbindingu við þarf að skera enn þá meira niður. Telur hv. þingmaður að íslensk heilbrigðisþjónusta beri þann niðurskurð? Eigum við ekki að láta reyna á það til hlítar að ná betri samningum vegna (Forseti hringir.) Icesave-reikninganna? Komið hafa fram ábendingar um það að mun betri vaxtakjör væri hægt að fá á þessa samninga.