138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[22:15]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir yfirferðina. Nú hefur komið í ljós í umræðu um fjárlagafrumvarpið hér á þinginu í dag að tveir hv. þingmenn stjórnarliða, sem báðir eiga sæti í fjárlaganefnd, hv. þm. Þuríður Backman og hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson, hafa báðir lýst yfir efasemdum um flutning öldrunarþjónustu frá heilbrigðisráðuneytinu yfir í félagsmálaráðuneytið. Nefndin hefur þar að auki fjallað um málið og telur að ekki hafi nægilega vel verið staðið að áður en slík ákvörðun var tekin. Nefndinni hefur og borist bréf frá formanni hjúkrunarfélagsins þar sem þessu er mótmælt. Því spyr ég hv. þingmann hvort hann muni ekki bæði sem formaður heilbrigðisnefndar — sem og hv. þm. Sigmundur Ernir, varaformaður heilbrigðisnefndar, en bæði sitja þau í fjárlaganefnd — leggjast á eitt til að koma í veg fyrir þennan flutning?

(Forseti (ÁÞS): Forseti minnir þingmenn á að nefna aðra þingmenn fullu nafni.)