138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er mér sönn ánægja að lýsa enn og aftur ánægju minni með að Sjálfstæðisflokkurinn hafi flutt tillögur bæði á tekju- og gjaldahliðinni. Ég held að það sé sannarlega lofsvert í þeirri vinnu sem við erum í að það komi einfaldlega fram málefnalegar tillögur af því tagi og hægt sé að taka þær til umfjöllunar. Ég hef tekið, eins og hv. þingmaður vekur athygli á, með jákvæðum hætti undir ýmislegt í því.

Það sem hins vegar truflar mig í þessu er að þolmörkin í skattahækkunum virðast ákaflega mikið vera bundin við það hvort flokkurinn er í stjórn eða stjórnarandstöðu. Þegar ég starfa með honum í meiri hluta er honum ekkert að vanbúnaði að hækka tekjuskatta eða vörugjöld á bensín, vörugjöld á tóbak eða vörugjöld á áfengi. En þegar hann skiptir um og er kominn í minni hluta verða allt í einu til mikil þolmörk og allsendis ófært að hækka tekjuskatta eða vörugjöld á áfengi, tóbak eða bensín. Þá eru komin fram ýmis sjónarmið sem þeir hreyfðu býsna lítið þegar þeir þurftu að axla þá ábyrgð að vera í meiri hluta. Þó að ég hafi tekið með jákvæðum hætti í tillögur um skattlagningu á séreignarsparnaði sem hluta af þeim úrræðum sem við gætum þurft að ráðast í í því gríðarstóra verkefni sem við eigum fyrir höndum í ríkisfjármálum finnst mér það óásættanlegt af stærsta flokknum í stjórnarandstöðu að leggjast gegn öllum öðrum hugmyndum um tekjuöflun ríkissjóðs.

Það er algerlega ljóst að tekjugrunninn sjálfan verður líka að styrkja til framtíðar og skattlagning á séreignarsparnað er bara einskiptisaðgerð. Mér finnst að flokkurinn verði að kynna það í hvaða varanlega tekjuöflun hann er tilbúinn að ráðast, á hvaða öðrum sviðum, til að tillögur hans megi teljast heildstæðar um leið og ég fagna auðvitað að því marki sem flokkurinn hefur gert tillögur.