138. löggjafarþing — 43. fundur,  14. des. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[23:13]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum um fjárlagagerð fyrir næsta ár. Fjárlaganefnd hefur fundað stíft undanfarið og allt frá því að fjárlagafrumvarpið kom fram. Eins og formaður nefndarinnar kom inn á fyrr í dag voru haldnir 38 fundir í nefndinni, 900 erindi tekin til afgreiðslu og 338 gestir komu á fund nefndarinnar. Ég er nýr þingmaður og þetta voru fyrstu fjárlögin sem ég tek þátt í og var á margan hátt mjög fróðlegt að taka þátt í þeirri vinnu. Eðlilega var margt sem manni fannst að betur mætti fara en auk þess var margt sem maður taldi í fyrstu að ætti að vera öðruvísi en komst síðan að raun um að var ágætlega fyrir komið eins og það var. Starfið hefur verið mjög gott í nefndinni og í alla staði gengið vel.

Áður en ég fer nákvæmlega yfir fjárlögin held ég að við verðum að byrja á því að fara í helstu forsendur sem liggja til grundvallar í frumvarpinu. Ef við skoðum árið í ár, sem er grunnurinn sem við þurfum að vinna út frá, verður fjárlagahallinn líklega 153 milljarðar, sem er þá það gat sem við þurfum að brúa. Áætlað er að útgjöld ársins verði 569 milljarðar og heildargjöldin 459 milljarðar. Gatið er þá 153 milljarðar og unnið er eftir áætlun sem kynnt var fyrr í sumar um jöfnuð í ríkisfjármálum sem er unnin af ríkisstjórninni ásamt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Sú áætlun gerir ráð fyrir því að ná jöfnuði í ríkisfjármálum árið 2013. Byrjað var á þessum aðgerðum í sumar þar sem teknir voru 20 milljarðar til að leitast við að skila árinu 2009 hallalausu. Síðan er gert ráð fyrir 56 milljörðum og 43 og svo trappast það niður.

Það er annað sem einnig hefur verið rætt í fjárlaganefnd og þarf klárlega að taka á, hvort sem það verður eingöngu gert í fjárlaganefnd eða einnig af Ríkisendurskoðun og fleiri aðilum, en það er að hafa þarf miklu strangara eftirlit með fjárlögum og koma í veg fyrir framúrkeyrslu eins og verið hefur undanfarin ár þar sem ævinlega hefur verið hægt að leiðrétta þetta í fjárauka þar sem nóg hefur verið aflögu. Á þessu þarf að taka og þetta þarf að koma í veg fyrir og hefur það verið rætt í fjárlaganefnd að hún muni í auknum mæli koma að þeirri vinnu.

Það vekur sérstaka furðu að hlusta á umræðuna og þá sérstaklega hjá Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum sem farið hafa mikinn og gagnrýnt ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana fyrir það frumvarp til fjárlaga sem nú er verið að ræða. Svo virðist sem þessir flokkar séu algerlega búnir að gleyma því að þeir voru í ríkisstjórn og þau fjárlög sem verið er að ganga frá núna eru einfaldlega afleiðing þeirrar nýfrjálshyggju sem ríkti undir þeirra stjórn og þess algera stjórnleysis sem ríkt hefur á íslenskum fjármálamörkuðum undanfarin ár og við erum að súpa seyðið af.

Ég ætla að fara örstutt yfir tekjuhlið frumvarpsins og að því loknu ætla ég að fara í gjaldahliðina. Gert er ráð fyrir að fara blandaða leið þar sem bæði verður ráðist í tekjuöflunarframkvæmdir og einnig niðurskurð. Helstu tekjuöflunarliðirnir, og það sem mest hefur verið rætt um hér, eru til að mynda breyting á skattkerfinu þar sem tekinn verður upp þrepaskattur. Þetta er gert með það að markmiði að létta skattbyrðina eða réttara sagt að þeir taki meira á sig sem hærri hafa tekjurnar og þeim verði frekar hlíft sem lægri hafa launin. Einnig er gert ráð fyrir því að fjármagnstekjuskattur muni hækka úr 15 í 18% og samhliða því er tekið upp frítekjumark við 100 þús. kr. Svo virðist vera sem margir sem hafa gagnrýnt þetta tali lítið um þetta frítekjumark því að stór hluti þeirra sem eru með fjármagnstekjur er ekki með miklu meiri fjármagnstekjur en það sem lægst er þarna.

Gert er ráð fyrir tímabundnum auðlegðarskatti þar sem lagt er til að lagður verði skattur upp á 1,25% á hreina eign, þ.e. nettóeign, sem er yfir 90 millj. kr. hjá einstaklingi og 120 millj. kr. hjá samsköttuðum aðilum. Hópur í þjóðfélaginu á orðið gríðarlega miklar eignir og hefur gríðarlega háar tekjur og er það afleiðing þeirrar stefnu sem rekin hefur verið undanfarin ár þar sem bilið hefur breikkað á milli þeirra sem minnst hafa og þeirra sem mest hafa. Gert er ráð fyrir að þessi auðlegðarskattur verði nýttur til að hækka barna- og vaxtabætur þar sem ákveðið var að hætta við að skera þessa liði niður.

Með kerfisbreytingu í virðisaukaskattinum er gert ráð fyrir því að hækka hærra þrepið úr 24,5% upp í 25% og bæta við nýju 14% skattþrepi, en ákveðnar vörur færast upp í það. Áfram er haldið inni 7% þrepinu og í það fer almenn matvara, svo sem kjöt, mjólk og fleira í þeim dúr, og er gríðarlega mikilvægt að svo verði áfram. Gert er ráð fyrir því að tryggingagjaldið verði hækkað aftur til að mæta auknu atvinnuleysi og einnig er gert ráð fyrir hækkun dómsgjalda og ýmsu fleiru. Ég ætla ekki að fara frekar yfir tekjuhlutann þar sem hann er enn til umfjöllunar og eins hafa aðrir komið mjög vel inn á hann í dag og eiga til að mynda sæti í efnahags- og skattanefnd sem hefur verið að ræða þetta.

Nokkrar breytingar hafa orðið hvað varðar útgjaldahlið fjárlaganna frá því sem rætt var í 1. umr. og ég ætla að koma inn á helstu breytingar sem nefndar hafa verið og skýra þær lítillega út. Í fjárlagafrumvarpinu, sem kynnt var í 1. umr., var gert ráð fyrir því að taka út öll verkefni sem tengdust tímabundnu framlagi vegna niðurskurðar í þorskkvóta. Búið er að setja fjárhæðir í þau verkefni sem þar um ræddi og má þar til að mynda nefna Keili en þar hafa verið settar inn 108 millj. kr. til að koma til móts við það, auk skráningarverkefnanna sem hafa verið vítt og breitt um landið, á Egilsstöðum, Ísafirði, Hvammstanga og víðar. Þetta var bæði hjá Þjóðskjalasafninu og Þjóðminjasafninu. Þarna er verið að setja inn 75 millj. kr. Þarna er unnið gríðarlega gott starf og þessu fjármagni er vel varið. Settar hafa verið 50 millj. kr. til jöfnunar á námskostnaði og dregið úr niðurskurðinum sem boðaður var en þessi liður er mjög mikilvægur, sér í lagi fyrir hinar dreifðu byggðir, og þessar 50 millj. kr. þar inn gera mikið gagn í því að jafna þá möguleika sem nemendur á landsbyggðinni hafa til að sækja nám.

Komið hefur verið til móts við fjölgun nemenda í fjölbrautaskólunum. Gert hefur verið ráð fyrir að auka það um 150 millj. kr. og hafa þrír skólar fengið aukningu, Menntaskóli Borgarfjarðar, Mosfellsbæjar og skólinn við utanverðan Eyjafjörð, 120 millj. kr., Kvikmyndamiðstöð Íslands hefur verið hækkuð og dregið úr niðurskurðarkröfunni á þá um 60 millj. kr. og þannig mætti áfram telja. Rannsóknamiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi 13,5 millj. kr., miðstöð sem rækilega sannaði gildi sitt í jarðskjálftunum sem voru fyrir ekki svo löngu. Auk þess hefur verið komið inn á að dómstólarnir hafa verið efldir og fangelsismálin styrkt. Hvað dómstólana varðar er gert ráð fyrir 86 millj. kr. hækkun tímabundið til 1. janúar 2013 og fjölgun dómara í héraði úr 38 í 43. Þetta er gert til að koma til móts við það mikla álag sem verður á dómskerfinu í kjölfar bankahrunsins, og var m.a. rætt í utandagskrárumræðu ekki fyrir svo löngu. Fangelsismálastofnun var auk þess hækkuð um tæpar 140 millj. kr. og þar af vegur þyngst 107 millj. kr. hækkun vegna leigu á nýju bráðabirgðahúsnæði en öllum er ljós sá vandi sem Fangelsismálastofnun stendur frammi fyrir og því var ekki hjá þessu komist.

Önnur verkefni hafa verið tekin inn, til að mynda verkefni er tengjast niðurgreiðslu á rafmagni. Þar er verið að auka niðurgreiðslu til garðyrkju. Garðyrkjan er nú undanþegin 12 aura raforkuskatti og sýnir það mjög jákvæða og greinilega stefnubreytingu fyrir garðyrkjubændur og hafa þeir lýst mikilli ánægju með það. Auk þess er sett inn 30 millj. kr. aukaniðurgreiðsla á lýsingu í ylrækt til að koma til móts við aukinn framleiðslukostnað. Þarna er um að ræða hreina og klára stefnubreytingu og því ber að fagna.

Síðan er málefni sem rætt hefur verið mikið og sér í lagi í hinum dreifðu byggðum en það var fyrirhugaður niðurskurður á refaveiðum. Gert var ráð fyrir að ríkið mundi hætta að styðja refaveiðar og mundi þess í stað eingöngu fjármagna minkaveiðar. Þetta kallaði á mjög sterk viðbrögð úti í hinum dreifðu byggðum þar sem þetta hefur verið vaxandi vandamál. Nú hefur verið komið til móts við þetta og settar inn 17 millj. kr. en á móti þessum 17 millj. kr. eru ávallt að koma töluvert hærri upphæðir, 17 milljónirnar hafa alla jafna verið um 25–30% — á móti kemur töluvert hærri upphæð frá sveitarfélögunum og virðisaukaskattur af allri upphæðinni er alla jafna hærri en það sem ríkið setur í refaveiðarnar. Mörg sveitarfélög, sér í lagi þau þéttbýlli, höfðu í hyggju að leggja niður þetta framlag ef ekki kæmi framlag frá ríkinu. Í frumvarpinu er umhverfisráðherra einnig hvattur til að skipa nefnd til að fara yfir þessi mál. Hún upplýsti það í utandagskrárumræðu að hún hefði í hyggju að gera slíkt og fara heildstætt yfir allt sem tengist þessu.

Síðan er eitt sem mikið hefur verið í umræðunni um störf fjárlaganefndar og ég get að mörgu leyti tekið heils hugar undir. Það er þegar kemur að hinum svokölluðu safnliðum, úthlutun þeirra og hversu faglega er að því staðið. Ég hef á þessu ákveðnar skoðanir. Eðlilegt er að skoða þessi mál og sér í lagi eins og sakir standa og skoða möguleikana á því að koma ýmsum af þessum verkefnum undir til að mynda menningarsjóðina o.fl. Það er alveg klárt að of mikill tími fer í það í fjárlaganefnd að vinna tillögur að því hvernig afgreiða eigi þessa safnliði. Því skal þó haldið til haga að mörg þeirra verkefna sem eru á stuðningi frá þessum safnliðum eru mjög góð og brýn. Þar má til að mynda nefna verkefnið Beint frá býli sem hefur verið að skila mjög miklu úti í hinum dreifðu byggðum í tengslum við ferðaþjónustuna og í tengslum við matvælaframleiðsluna. Við getum nefnt Gása í Eyjafjarðarsveit, þeir eru á safnlið. Við getum nefnt þjóðveldisbæinn á Suðurlandi og söfnin vítt og breitt um landið, byggðasöfnin. Við getum nefnt selasetrin, Selasetrið á Hvammstanga, og fleiri söfn sem eru á þessum safnliðum og njóta stuðnings þar og eru ekki minna mikilvæg en til að mynda stærri söfn og menningarverkefni sem ekki eru flokkuð undir þessa safnliði. Er eðlilegt að skoða þetta og velta því fyrir sér hvort ekki sé mögulegt að koma þessu í einhvern annan farveg. Þó ber að hafa í huga að á sama tíma ber að tryggja fjármagn inn í þau verkefni og tryggja þær reglur sem verða við úthlutun verkefna þar. Menningarsamningarnir sem nú eru í gildi fyrir ákveðna landshluta eru fyrst og fremst að styrkja ákveðna viðburði. Þeir eru ekki að styrkja stofnkostnað, þeir eru ekki að styrkja beint rekstur slíkra stofnana þannig að þá þarf að skoða og stokka þá upp, breyta hlutverki þeirra og vinnuaðferðum. Ég hef ekki lagst gegn því og tók þátt í vinnu í menntamálanefnd þar sem menntamálanefnd var algerlega sammála því að þetta þyrfti að stokka upp fyrir næsta ár. Ég bendi hins vegar enn og aftur á að mörg þessara verkefna skila mjög góðum árangri og eru langt í frá að vera spilling eða annað því um líkt.

Það er staðreynd að sá niðurskurður sem fram undan er mun koma mjög harkalega niður á mjög mörgum. Í fjárlaganefnd og eins í fagnefndunum og innan ríkisstjórnarinnar hefur verið leitast við að forgangsraða með það að markmiði að tryggja hag þeirra sem minnst mega sín. Það á við hvort heldur sem er í forgangsröðun í skattatillögum eða í niðurskurðartillögum og þá nefnum við til að mynda heilbrigðisþjónustu, menntamál og annað því um líkt. Því miður er það svo að þessi mikli niðurskurður, það sem verið er að takast á við hér, bitnar einnig á þeim sem síst skyldi og alltaf er eitthvað sem mönnum yfirsést. Þegar hafa komið fram ýmsar ábendingar um atriði sem þarf að skoða milli 2. og 3. umr. Ég hygg að nefndin muni gera það og fara yfir þau atriði.

Eins og ég gat um í upphafi var vinnan í nefndinni í alla staði mjög góð. Það sem kom mér einna skrýtnast fyrir sjónir var að á öllum stigum málsins var kallað eftir hugmyndum frá stjórnarandstöðu, hvort þeir hefðu einhverjar áherslur eða annað því um líkt hvað varðar niðurskurðartillögur. Fátt var um svör þó að samstarfið hafi að öðru leyti verið gott. Það kom mér mjög spánskt fyrir sjónir að sjá nefndarálit þar sem komið var inn á tillögur og svo virtist vera sem engin mótmæli hefðu verið hreyfð við þessum tillögum í nefndinni. Það kemur mér einnig spánskt fyrir sjónir þegar maður sér þingmenn fyrrum stjórnarliða, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, höfuðmeistarana að hruninu sem nú er verið að glíma við afleiðingarnar af, koma upp og tjá sig. Þeir virðast hafa gleymt öllu því sem á undan er gengið, skammtímaminni þeirra virðist vera lítið. Ég vonast til að þeir munu nú milli 2. og 3. umr. koma af meiri krafti inn í þessa vinnu og með hugmyndir um hvaða breytingar er hægt að gera á þessu og hugsanlega náum við saman um eitthvað af því. En ég á síður von á því að það verði því hér er forgangsraðað í þágu þeirra sem minna mega sín og það á bæði við í niðurskurðartillögunum og í skattatillögunum.

Ég vil þakka fyrir vinnuna í nefndinni. Ég vonast til að málið fái áfram góða umfjöllun.